04.11.1985
Efri deild: 11. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í B-deild Alþingistíðinda. (298)

91. mál, varnir gegn kynsjúkdómum

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér er nú fram komið frv. sem tekur á máli sem teljast verður stórmál, þ.e. því hvernig við höfum hugsað okkur að bregðast við þeim ógnarlega sjúkdómi sem nefndur er alnæmi í frv. og kominn er upp í veröldinni.

Ég trúi því að flest okkar hafi fyllst óhug þegar fregnir tóku að berast af þessari nýju pest og að sönnu má líkja henni við nýja drepsótt, jafnvel nýjan svartadauða.

Ef við lítum til sögunnar sjáum við að pestir hafa áður komið fram í skráðri sögu, bæði okkar og annarra Evrópuþjóða, og ef við skoðum söguna grannt sjáum við að áhrif drepsótta eru ávallt víðtæk. Þær ráðast venjulega að undirstöðum samfélags og menningar jafnt sem mannslíkamanum.

Að læra að lifa með ógnvaldi eins og drepsótt kallar því á nýja lífssýn og framkoma slíkra sótta getur því verið umbyltandi í öllu samfélagi manna. Hér er því meira á ferðinni en ógnvænlegur sjúkdómur. Um þær sorgir og þjáningar sem af slíkum sjúkdómi geta hlotist ætla ég hins vegar ekki að fjölyrða, það getum við örugglega öll gert okkur í hugarlund.

Það skiptir því miklu að vel sé hugað að öllum hliðum mála þegar aðgerðir eru ákveðnar í máli sem þessu og þar sem ég á ekki sæti í hv. heilbr.- og trn. langar mig að koma fáeinum athugasemdum á framfæri við 1. umr. málsins.

Í þessu frv., sem hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur mælt fyrir, er lagt til að sjúkdómurinn alnæmi flokkist með kynsjúkdómum. Hæstv. ráðherra kom inn á það í máli sínu hvort slíkt væri rétt og ég tek undir það með henni að það kann að vera spurning hvort svo sé. Hugsunarháttur manna er venjulega slíkur að telja kynsjúkdóma niðurlægjandi fyrir þá sem þá hafa og þá er það spurningin hvort rétt sé að bæta þeirri niðurlægingu við þá þjáningu sem það hlýtur að vera að hafa sjúkdóminn alnæmi. Um þetta treysti ég mér ekki neitt að fullyrða, en ég nefni þetta hér hv. þdm. til umhugsunar.

Það hvarflaði að mér að það mætti e.t.v. finna aðra leið til að leysa þetta vandamál, ef við getum nefnt þetta vandamál. Hún er sú að það mætti e.t.v. ná yfir sjúkdóminn alnæmi með lögum um eiturlyfjasjúklinga. Mig langar til að spyrja hæstv. heilbr.- og trmrh. hvort sá möguleiki hafi verið athugaður, þ.e. hvort ná megi yfir erfiðasta áhættuhópinn hvað alnæmi varðar með lögum um eiturlyfjasjúklinga. Ég hef trú á því að áhættuhópar séu almennt mjög samstarfsþýðir með varnir gegn sjúkdómnum, og vísast meira en það, þannig að í þeim fáu tilfellum sem einhver vandkvæði kunna að verða þar á væri e.t.v. hægt að bregðast við því með þess háttar löggjöf. Því spyr ég hvort sá möguleiki hafi verið athugaður.

Í öðru lagi langar mig að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort haft hafi verið samráð við svonefndan samstarfshóp um ónæmistæringu við samningu þessa frv. Þessi hópur er samstarfshópur lækna og sérfræðinga á Landspítala og Borgarspítala sem starfað hefur undanfarna mánuði og hefur það hlutverk að samræma aðgerðir hér á landi til varnar þessum sjúkdómi, skipuleggja rannsóknir og þjónustu þar að lútandi. Ég spyr hæstv. ráðherra að því hvort haft hafi verið samráð við þennan samstarfshóp um samningu frv. Ég spyr vegna þess að ég tel ákaflega brýnt að við nýtum alla þá krafta sem við höfum yfir að ráða til að takast á við þann vágest sem hér er á ferðinni og það með eins skjótum hætti og mögulegt er.