01.04.1986
Sameinað þing: 66. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3353 í B-deild Alþingistíðinda. (2981)

309. mál, vandi vegna misgengis launa og lánskjara

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi segist gera sér grein fyrir því að sá vandi sem hér er til umræðu hafi komið til á árunum 1981, (GA: Nei, nei, nei.) 1982 og 1983, en samt sé hann að kenna aðgerðum núv. ríkisstj. sem ekki sat við völd á þessum árum. Sýnir það gleggst í hverju málatilbúnaðurinn er fólginn. Hv. 3. þm. Reykv. hélt því fram að ég hefði falsað tölur. Ég miðaði við vísitöluna frá því í júní 1983, en eins og menn muna var núv. ríkisstj. mynduð í lok maímánaðar 1983. Þessar tölur sýna alveg ótvírætt að frá því í júní 1983 til 1. apríl í ár er jöfnuður á milli launa og lánskjara hvort sem hv. 3. þm. Reykv. líkar það betur eða verr. Auðvitað verður ekki annað ráðið af máli hans en honum líki það verr að þessi jöfnuður skuli hafa náðst. Misgengið var meðan hann sat í ríkisstjórn sem ráðherra. Þessum staðreyndum verður ekki hnekkt.

Hv. 3. þm. Reykv. sagði að það hefði verið siðleysi að afnema launavísitöluna í átta mánuði vorið 1983 en halda áfram lánskjaravísitölu. Hv. þm. sat í ein fimm ár í ríkisstjórn. Ég held að hann hafi gert breytingar á launavísitölunni til skerðingar 14 sinnum á þeim tíma og ég held að hann hafi staðið fyrir niðurskurði á launavísitölunni um 50% eða svo í desember 1982. En hann breytti í engu á þeim tíma lánskjaravísitölunni. Hann gat skorið niður launavísitöluna 14 sinnum án þess að breyta lánskjaravísitölunni. Það verður fróðlegt þegar hann stendur upp á eftir að hlusta á hvort hann telur að þær ráðstafanir hafi verið siðleysi.