01.04.1986
Sameinað þing: 66. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3355 í B-deild Alþingistíðinda. (2987)

309. mál, vandi vegna misgengis launa og lánskjara

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Þessi umræða er auðvitað, eins og hér hefur komið fram, fyrir neðan allar hellur og engin svör í boði við fsp. hv. fyrirspyrjanda.

Ég vil leyfa mér að vekja athygli þingsins á því að í vetur fór til hv. félmn. till. til þál. um könnun á fjárhagsvanda vegna húsnæðismála og hljóðaði svo, með leyfi forseta, 1. mgr. hennar:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta nú þegar fara fram könnun á fjárhagsvanda þeirra sem byggt hafa eða keypt íbúðarhúsnæði á s.l. fimm árum.“

Síðan er till. í mörgum liðum og var ég sjálf 1. flm. ásamt fjórum öðrum hv. þm.

Það sem gera þarf og fyrirspyrjandi hefur lagt áherslu á er að kanna vanda einmitt þess fólks sem hefur keypt eða byggt á s.l. fimm árum. Því hlýt ég að spyrja, herra forseti: Hvað dvelur afgreiðslu þessarar till.?

Ég lagði á það mikla áherslu í framsöguræðu minni fyrir tillögunni að það lægi á vegna þess að fólk væri að bugast undir þessum vanda, en það hefur ekki heyrst hósti eða stuna frá hv. nefnd. Ég óska eftir því við herra forseta að hann kanni hvað dvelur svo sjálfsagt mál sem þetta.