01.04.1986
Sameinað þing: 66. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3358 í B-deild Alþingistíðinda. (2993)

351. mál, geðheilbrigðismál

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 641 hef ég leyft mér að bera fram svohljóðandi fsp. til hæstv. heilbr.- og trmrh.:

„Hefur endurskoðunarnefnd um geðheilbrigðismál lokið störfum? Ef svo er, hvað hyggst ráðherra þá gera varðandi tillögur nefndarinnar um helstu úrbætur í þessum málefnum?"

Um þetta mál hefur áður verið spurt hér á Alþingi og er þarflaust að rekja aðdraganda þess. Að þáltill. um þessi mál stóðu á sínum tíma þm. allra flokka sem þá sátu á Alþingi, en þáltill. var um gagngera endurskoðun allra geðheilbrigðismála hér á landi, Í áhersluatriðum þeirrar till. var tekið fram alveg sérstaklega um níu tiltekin atriði sem leggja bæri sérstaka áherslu á. Ég nefni sem dæmi að aðstöðu til skyndihjálpar og neyðarþjónustu yrði komið á og hún bætt, að fullkomnari göngudeildarþjónustu yrði komið á, að fjölgað yrði vernduðum heimilum fyrir geðsjúka og sérstök áhersla verði lögð á aðstöðu fyrir unglinga með geðræn vandamál svo sem lög kveða á um.

Það er ljóst og varð ljóst fljótlega eftir að sú nefnd hóf störf sem um er spurt hér að verkefna- og málasvið hennar er víðtækt og viðamikið og ekki síður vandmeðfarið og umdeilanlegt margt til úrlausnar. Þar er um að ræða vanda sem fer vaxandi í okkar streitu- og vímuefnaþjóðfélagi.

Hér held ég að gildi hið fyrirbyggjandi starf eins og í annarri heilbrigðisþjónustu alveg sérstaklega og það þarf að hyggja alveg sérstaklega að sérvanda barna og unglinga. Þar hygg ég að þurfi að virkja heilsugæslustöðvar okkar vítt um land með ráðgjöf, rannsókn og úttekt á þörf. Samkvæmt lögum okkar um heilsugæslu ber að veita geðverndarþjónustu á heilsugæslustöðvunum, en það er gert í dag í mjög óverulegum mæli. Það er rétt að þar þarf vissulega ákveðinn ráðgjafarhóp sem unnt væri að leita til og færi um landið, en ég er ekkert viss um að það mætti ekki nýta þann starfskraft sem þegar er til staðar í geðheilbrigðiskerfi okkar til að fara í þetta verkefni og þyrftu ekki nýjar stöður til að koma.

Það þarf að hjálpa foreldrum í eðlilegu umhverfi á heimaslóðum til að fá viðunandi ráðgjöf. Meðferðarheimili fyrir börn til endurhæfingar þurfa auðvitað fleiri til að koma en nú eru og svo mætti áfram telja. Ég veit að nefndin hefur fjallað ítarlega um þetta mál alveg sérstaklega, vanda barna og unglinga, og gert ákveðnar tillögur og því er full ástæða til að forvitnast um hversu að skuli staðið og hversu ráðherra hyggst standa að þessu máli.

Það er einnig vitað að enn er mikið óunnið varðandi sérvanda aldraðra sem er þó ærinn og full ástæða er til þess að forvitnast um frekara framhald þeirra aðgerða og ráðstafana ráðuneytis í framhaldi af því.