04.11.1985
Efri deild: 11. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í B-deild Alþingistíðinda. (300)

91. mál, varnir gegn kynsjúkdómum

Heilbr.- og trmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst þakka undirtektir undir þetta mál og leitast við að svara nokkrum spurningum sem fram voru bornar.

Hv. 2. þm. Austurl. spurði hvort sérfræðingahópur sá sem unnið hefði við rannsóknir á AIDS-sjúkdómnum hefði verið með í ráðum við samningu þessa frv og hins sama spurði hv. 11. þm. Reykv. Svarið er að einmitt þessi hópur hefur verið og er ráðgjafarhópur landlæknis um þessi mál, en það er landlæknisembættið sem hefur unnið að þessu frv., eins og fram kemur í grg., og hefur haft fullt samráð einmitt við þennan hóp.

Að því er varðar aðstöðuna til rannsókna í veirufræði og hin alvarlegu orð sem fram komu í tilvitnaðri grein í NT á sínum tíma er það rétt að aðstaða til rannsókna í veirufræði er hörmulega slæm. Ég hygg að það hafi mönnum e.t.v. verið kunnugt. En niðurstaða fjárveitingavaldsins, sem er í þessu húsi, hefur orðið að það verkefni hafi ekki verið í þeirri forgangsröð sem menn sjá að nú er nauðsynlegt að setja það í.

Það er spurt hvað fyrirhugað sé í ráðuneytinu til að bæta úr þessari aðstöðu. Ég vék lauslega að því í framsöguræðu minni að ég fól ráðuneytisstjóra og embættismönnum ráðuneytisins, ásamt fulltrúa frá fjmrn., að athuga sérstaklega um kaup á húsnæði í þessu skyni. Það mál hefur verið í fullum gangi nú síðustu tíu daga og ég vonast vissulega til þess að við náum árangri í því og samningum sem við ráðum við þannig að þess verði skammt að bíða, ég vona að það líði ekki margir mánuðir þangað til, að aðstaða fyrir þessar rannsóknir verði orðin miklu betri en hún er nú. Þannig horfir þetta mál við. Heilbrrn. eða ríkið hefur nú þegar gert tilboð í húsnæði í þessu skyni. Ég vil því segja að það mál sé verulega á veg komið.

Hv. 11. þm. Reykv. velti upp spurningunni um heiti sjúkdómaflokksins í lögunum eða hvort fella bæri sjúkdóminn undir lögin um varnir gegn kynsjúkdómum eða fara að einhvern veginn með öðrum hætti, hvort það bætti hugsanlegri niðurlægingu á þær þjáningar sem fyrir væru. Ég er þeirrar skoðunar að svo sé ekki. Ég held að með þessu sé greiðari leiðin fyrir fólk að snúast gegn þessum vágesti. Að því er varðar hugmynd hv. þm. um að auðvelda að ná yfir þennan sjúkdóm með því að fella það undir lög um eiturlyfjasjúklinga, þá hygg ég að svo yrði ekki. Vissulega væri það líka og ekki síður niðurlægjandi, ef það er það sem menn eru að hugsa um. Ég held að það sé nú ekki það sem hv. þm. var að tala um, heldur hitt að auðvelda að ná tökum á vandamálinu. Ég er þeirrar skoðunar að það mundi ekki auðvelda það með sama hætti og þessi lagasetning vegna þess að í hópi eiturlyfjasjúklinga er aðeins hluti áhættuhópsins og e.t.v. ekki stærsti hlutinn. Það sem um er að ræða er að ná til sem allra flestra, en ekki einungis tiltekins hóps. Við vitum auðvitað ekki hvenær þau hlutföll breytast. Það fer allt eftir því hvað okkur tekst að snúast snögglega við þessu.

Ég hef sem sagt sannfærst um það af viðtölum við sérfræðinga í þessum málum og þá sem um þetta hafa fjallað að það sé skynsamleg ráðstöfun að ganga frá lögunum með þessum hætti og það tryggi svo góða þjónustu sem við yfir höfuð getum látið í té um leið og við höfum líka komið upp betri aðstöðu til að sinna rannsóknunum eins og hér var á bent. Sú aðstaða varðar auðvitað fleiri sjúkdóma en þennan. Það er satt og rétt.

Hv. þm. Davíð Aðalsteinsson, 5. þm. Vesturl., vék að því að hér væri um svo alvarlegt mál að ræða að það væri tilefni sérlaga. Ég er þeirrar skoðunar að aðalatriðið sé, þegar um svo alvarlegt mál er að ræða, að þau lög sem við setjum séu virk hvort sem þau eru ein lína með breytingu á lögum sem fyrir eru eða nýr bálkur. Eins og áður sagði tel ég að þetta sé einna virkasta leiðin.

Að því er varðar skipulega leit að sjúkdómnum eru það atriði sem vissulega verða sjálfsagt til umræðu síðar og sérstaklega að því er það varðar að öll blóðsýni verði rannsökuð. En sá galli er á þessu máli að í því felst ekkert endanlegt öryggi og ekkert endanlegt svar fyrir einstaklinginn vegna þess að sé gerð mótefnamæling í sýktu blóði er ekki endilega víst að mótefnið mælist fyrr en e.t.v. mörgum mánuðum eftir að smit hefur átt sér stað. Þess vegna er mikilvægt atriði að fólk sé frætt um hættuna sem af þessu stafar, að menn blekki sig ekki með því að það sé augljóst að þeir hafi ekki sýkingu ef mótefni mælist ekki. Eftir því sem sérfræðingar segja er kannske aldrei eins mikil smithætta og á þeim tíma sem líður frá því að maður tekur smit og þangað til mótefnið mælist. Þetta er eitt af því geigvænlega við þetta mál. Engu að síður hefur það mikla þýðingu að gera mótefnamælingar því að það mundi í einhverjum tilfellum efalaust auðvelda þessa leið.

Loks var spurt hvort hugað hefði verið að kostnaði vegna þessa. Svarið er já. Að sjálfsögðu. Annars hefðum við ekki gert tilboð.