01.04.1986
Sameinað þing: 66. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3364 í B-deild Alþingistíðinda. (3008)

Um þingsköp

Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Ég hygg að það sé ekki ástæða fyrir hv. 3. þm. Reykv. að gera því skóna að forseti skilji ekki það sem mælt er hér úr ræðustól eða vilji ekki skilja, eins og hv. þm. tók til orða.

Það er hins vegar alveg rétt, sem hv. þm. sagði, að það verða allir að hjálpast til að haga störfum þingsins svo að sem best fari úr hendi og þingsköpum sé sem best fylgt. Þar er enginn munur á stjórnarliði og stjórnarandstöðu. Þar er enginn munur á þm. og ráðherrum. Það eru allir á sama báti í þessu efni, allir bera sömu skyldur.

Það er alveg rétt, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði og forseti hefur áður tekið undir, að það geta komið fyrir þau tilvik að erfitt sé að einhver þm. geti ekki svarað því sem að honum er beint vegna þess að hann hefur skv. þingsköpum ekki heimild til að tala oftar. En þetta liggur í hlutarins eðli. Það skulu menn hafa í huga að alltaf verður að ljúka einhvern tímann hverju máli og þessi staða getur alltaf komið upp. Og ekkert mál er svo rætt, jafnvel á hinu háa Alþingi, að það geti ekki verið gott að geta bætt einhverju við. En því miður, við höfum ekki aðra betri aðferð en við beitum þegar tekið er tillit til þess að við komumst ekki fram hjá því að ljúka hverju máli hvort sem einn eða annar þm. telji að betra væri að geta bætt einhverju við þá umræðu sem fram hefur farið.

Ég hef ekki litið svo á og vil ekki líta á þessar umræður um þingsköp sem ádeilu á einn eða neinn heldur sem vott þess að við þm. viljum allir gera það sem í okkar valdi stendur og leitast umfram allt við það að þingstörf geti farið sem best úr hendi.