01.04.1986
Sameinað þing: 66. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3366 í B-deild Alþingistíðinda. (3010)

355. mál, iðgjöld bifreiðatrygginga

Heilbr.- og trmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég leyfi mér að svara fyrstu tveimur liðum þessarar fsp. í einu lagi.

Það er misskilningur hjá fyrirspyrjanda að vátryggingafélögum sé frjálst að ákveða iðgjöld sín einhliða því að skv. lögum um vátryggingastarfsemi er vátryggingafélögum skylt að tilkynna tryggingaeftirliti fyrir fram allar fyrirhugaðar breytingar á iðgjaldaskrám sínum, bæði í bifreiðatryggingum og öðrum vátryggingagreinum. Ástæðan til að slík lagaákvæði eru sett eru tvö meginmarkmið sem voru höfð í huga við setningu laga. Á vátryggingastarfsemi annars vegar að tryggja að vátryggingafélag geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart hinum tryggðu og hins vegar sé vátryggingafélag rekið á heilbrigðum grundvelli þannig að gjald það sem vátryggingafélag tekur fyrir þá vernd sem það veitir sé á hverjum tíma í samræmi við áhættu og eðlilegan rekstrarkostnað. Þessi tvö markmið voru þau sem lágu til grundvallar.

Af fyrra markmiðinu leiðir að bjóði vátryggingafélag of lág iðgjöld að mati eftirlitsins ber tryggingaeftirlitinu skylda til þess skv. lögum um vátryggingastarfsemi að gera kröfu til að þau verði hækkuð. Í 43. gr. laganna segir að sinni félag ekki slíkum tilmælum skuli eftirlitið tilkynna trmrh. um málið ásamt tillögum um hvað gera skuli. Skal ráðherra veita hæfilegan frest og hafi ekki verið bætt úr innan frestsins getur ráðherra afturkallað starfsleyfi félagsins. Á sama hátt skal eftirlitið í samræmi við seinna markmiðið gera kröfu um að iðgjöld verði lækkuð telji það iðgjöldin of há og hefur það sömu áhrif sé þeim tilmælum ekki sinnt.

Það er mat tryggingaeftirlitsins að vegna smæðar vátryggingafélaga hér á landi og sveiflna í tjónareynslu frá ári til árs sé ógerlegt að meta iðgjaldagrundvöll þeirra hvers um sig út frá reynslu á tilteknu einu reikningsári. Það verði að meta grundvöllinn út frá sameiginlegum tölulegum upplýsingum markaðarins í heild á lengra tímabili. Tryggingaeftirlitið hefur aflað slíkra gagna undanfarin tólf ár um stöðu og þróun í hinum ýmsu greinum og hafa niðurstöðurnar birst í ársskýrslum eftirlitsins á undanförnum árum. Reynt er að finna iðgjaldagrundvöll sem að meðaltali leiði til þess að iðgjöld nægi fyrir tjónakostnaði því að það hlýtur að vera í þágu hagsmuna neytendanna. Sveiflur eiga sér stað hjá hverju félagi frá ári til árs, en lögmál tryggingastærðfræðinnar og tölulegir eiginleikar meðaltalsins eiga að sjá til þess, þegar til lengri tíma er litið, að þá ríki stöðugleiki í þessum efnum.

Niðurstaðan af því sem hér hefur verið sagt er því þessi:

1. Án sameiginlegrar tölulegrar úrvinnslu verður iðgjaldagrundvöllurinn ekki metinn þannig að fullnægt verði ákvæði laga um vátryggingastarfsemi um iðgjöld sem samsvara áhættu og kostnaði er jafnframt tryggja traustan fjárhag vátryggingafélaganna.

2. Samráð félaganna er fólgið í því að leggja fram frumgögn til sameiginlegrar úrvinnslu og útreiknings. Iðgjöld eru háð samþykki tryggingaeftirlitsins sem hefur skv. lögum um vátryggingastarfsemi skýrar heimildir til að krefjast hækkunar eða lækkunar á iðgjöldum.

3. Verðmyndun iðgjalda í vátryggingastarfsemi ræðst fyrst og fremst af tjónareynslu og þeim skilyrðum laga um vátryggingastarfsemi að vátryggingafélög verði að geta staðið við skuldbindingar sínar og bjóða vernd á sanngjörnum iðgjöldum. Það er því tómt mál að tala um að setja iðgjaldaákvarðanir undir annars konar verðlagseftirlit en nú er. Tryggingaeftirlitinu er ætlað að annast það. Upp gætu komið gagnstæð sjónarmið hjá verðlagsyfirvöldum og stjórnvöldum annars vegar og tryggingaeftirliti hins vegar þegar settar eru hömlur á verðlag í þjóðfélaginu eða verðlag lækkað á sama tíma og slæm tjónareynsla og slakur fjárhagur vátryggingafélaga hefur í för með sér að tryggingaeftirlitið telur hækkun nauðsynlega.

Það er mitt mat að ekki skorti lagaheimildir til að fylgjast með og hafa áhrif á iðgjaldaákvarðanir eða aðra starfsemi tryggingafélaga. Og þá er spurningin um afstöðu trmrh. til beiðni tryggingafélaganna um 22% hækkun iðgjalda í ljósi nýgerðra kjarasamninga. Þessi spurning ber það með sér að hún var fram borin áður en opinbert hafði verið gert tilboðið um að hækka aðeins um 19%, en það tilboð tryggingafélaganna lá fyrir gagnvart forvígismönnum launþegahreyfingarinnar daginn áður en þetta mál var tekið hér til umræðu utan dagskrár á Alþingi. Við þá umræðu gat ég því miður ekki verið af lögmætum orsökum.

Ég veit því ekki hvort á að ræða mikið um þessa 22% hækkun, herra forseti, en í raun hafði þá verið tekið tillit til tjóna og kostnaðar sem þegar hafði fallið á tryggingafélögin á því tryggingaári sem hófst 1. mars 1985. Hins vegar buðust tryggingafélögin sjálf til þess að færa þessa hækkun í 19% og tóku þannig á sig áhættu sem tryggingaeftirlitið vildi ekki mæla gegn að gert yrði, enda verðum við að ætla að einhver árangur náist í baráttunni gegn slysum sem herja í allt of ríkum mæli á landsmenn og hljóta að hafa í för með sér mikil útgjöld fyrir tryggingafélögin.

Þetta er viðamikið mál en ég get, með leyfi hæstv. forseta, svarað afganginum með tveimur setningum. Ég vil einungis taka fram að útgjöld tryggingafélaganna eru ekki fyrst og fremst vegna tjóna á bílum heldur tjóna á fólki. Það er þetta sem við verðum að berjast gegn til að koma þessum málum í betra lag og það er sameiginlegur hagur neytendanna og tryggingafélaganna að baráttan gegn slysum beri árangur.

Spurningunni um ásakanir Helgarpóstsins get ég svarað með einni setningu. Greinar í Helgarpóstinum hafa ekki orðið grundvöllur ákvarðana ríkisstj. í þessu máli, en mér er kunnugt að tryggingaeftirlitið hefur sjálft staðið að athugun á þessum málum, hefur raunar gert það í mörg ár og ekki orðið vart við falsanir í bókhaldi. En það athugar sérstaklega þennan þátt mála, enda hefur það víðtækar heimildir til að láta gera kannanir af því tagi.