01.04.1986
Sameinað þing: 66. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3368 í B-deild Alþingistíðinda. (3012)

355. mál, iðgjöld bifreiðatrygginga

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. sagði í ræðu sinni að þau tjón sem hér væri um að ræða væru ekki fyrst og fremst á munum heldur vegna slysa á mönnum. Nú vill svo til að flestir þm. hafa væntanlega fengið grg. frá tryggingafræðingi úti í bæ, Þóri Bergssyni, í pósthólf sín í dag, og þó að sú grg. sé stórorð inniheldur hún ýmsar upplýsingar, m.a. þær varðandi þetta atriði að á árinu 1983 hafi meiri hluti bótanna ekki verið vegna slysa á mönnum heldur vegna muna. Á bls. 3 í þessu yfirliti stendur: „Árið 1983 munu um 60% bótanna hafa verið vegna munatjóna, en 40% vegna slysa á mönnum.“ Tryggingafræðingurinn tekur fram að þetta hlutfall kunni eitthvað að hafa raskast síðan, en varla svo að ástæða sé til að taka svo til orða eins og ráðherra gerði og því fer ég hér fram með þessa leiðréttingu.

Í annan stað, herra forseti, tók ég eftir því að hæstv. ráðh. talaði um að það yrði að líta á allt í heild sinni, öll tjón hjá öllum félögum. Útkoman er sú að menn búa sér til eina prósentu yfir það hvað hækkunin eigi að verða mikil milli ára. Mér finnst þetta harla einkennileg forsenda vegna þess að ef þetta þarf svo að vera mundi það vera svo að ef mismunur hefði verið í iðgjöldum milli tryggingafélaganna í upphafi væri hægt að viðhalda þeim mismun út í það óendanlega, en ef enginn mismunur var, eins og hér hefur átt sér stað, er engin hætta á því að nokkurn tíma komi fram mismunur í iðgjaldi milli félaga. Hvernig má það vera að það skuli ævinlega og ætíð koma út sama prósentulega hækkun fyrir öll félögin? Standa þau öll jafnvel? Hvernig á að líta eftir því að fjárhagur þeirra allra sé hæfilega traustur ef alltaf á að koma út sama prósentan hjá þeim öllum án tillits til þess hvernig þau standa?

Mér finnst þetta, herra forseti, þurfa að koma fram í þessari umræðu því að hér er greinilega brotalöm í röksemdafærslunni.