01.04.1986
Sameinað þing: 66. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3369 í B-deild Alþingistíðinda. (3014)

355. mál, iðgjöld bifreiðatrygginga

Heilbr.- og trmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Það var fyrst fsp., sem mér vannst ekki tími til að svara áðan, einn stafliðurinn sem var um það hvort hækkun tryggingafélaganna hefði verið rædd í ríkisstj. Þetta mál var rætt í ríkisstj. en ríkisstj. hefur lögum samkvæmt ekki ákvörðunarvald um þetta efni þegar samkomulag er milli tryggingafélaganna annars vegar og tryggingaeftirlitsins hins vegar. (JS: Hvenær var það rætt í ríkisstjórninni?) Þetta mál var rætt í ríkisstj. a.m.k. einu sinni og ég greindi frá því þegar fyrir lá að sú prósenta sem um var að ræða yrði ekki 22% heldur 19%. Vissulega var það ekki ákvörðunaratriði þar en það sjónarmið ríkisstj. kom fram að því var fagnað að þarna var verulega komið til móts við launþegahreyfinguna með því að þarna varð prósentan þessum mun lægri en áður hafði staðið til, en hafði áður veríð 22,1%.

Að því er varðar kostnaðinn af þessum tveimur tegundum tjóna og þar sem hv. þm. Kjartan Jóhannsson vitnaði til bréfs, sem Þórir Bergsson tryggingafræðingur sendi þm., þá vil ég leyfa mér að lesa næstu málsgr. á eftir því sem hann las, en það hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Á árinu 1984 varð mjög mikilvæg breyting á forsendum við ákvörðun bóta fyrir lífs- og líkamstjón sem hækkaði bætur snögglega mjög mikið. Í sumum tilfellum meira en fjórfölduðust bætur til þeirra sem urðu örkumla af völdum bótaskyldra tjóna en að meðaltali reiknast mér að bætur hafi um það bil tvöfaldast.“

Það ætti ekki að þurfa vitnanna við frekar þegar við vitum að árið 1984 var líka mikið toppár, ef svo má segja, í slysafjölda. Þá var þar um að ræða álag sem var sérstaklega mikið. En í von um það að okkur takist að lækka hina geigvænlegu slysatíðni, þá vonast ég til þess að unnt verði að ákvarða iðgjöldin með enn öðrum hætti og jafnvel enn lægri í framtíðinni, en eins og kunnugt er taka þau mið af hag næsta árs á undan. Þess vegna tek ég undir það sem hv. 6. landsk. þm. sagði hér áðan að það er vissulega aðkallandi að umferðarlögin, sem eru til umræðu í hv. Ed., fari að komast í gegn með mörgum þeim ákvæðum sem ég tel að muni tvímælalaust draga úr umferðarslysum.