01.04.1986
Sameinað þing: 66. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3372 í B-deild Alþingistíðinda. (3017)

360. mál, hernaðarframkvæmdir

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég þakka samkvæmt venju hæstv. utanrrh. fyrir svörin. Ég hafði þennan formála á fsp. minni áðan vegna þess að ég vildi skýra hvers vegna ég teldi mig knúinn til að spyrja sérstaklega um einstakar framkvæmdir hér á hv. Alþingi ár eftir ár. Það er vegna þessa, eins og ég áðan greindi frá, að upplýsingar hafa ekki legið á lausu um það og Alþingi hefur mátt sæta því að fá um slíkt tilkynningar í skýrslum eða munnlegar frá utanrrh. jafnvel mörgum mánuðum, jafnvel allt að árum eftir að slíkar framkvæmdir hafa verið heimilaðar. Og hér kemur eitt glöggt dæmi um slíkt:

Í október s.l. heimilaði utanrrh. Bandaríkjaher að hefja yfir 1000 m2 byggingu sérstaklega styrktrar stjórnstöðvar sem mun þannig hönnuð samkvæmt upplýsingum sem ég hef að hún þoli algert stríð í ekki minna en 7 daga, þannig að þeir sem innan stöðvarinnar eru geti hafst þar við án nokkurs sambands við umheiminn og má þá einu gilda hvort sú stöð er bombarderuð með hefðbundnum sprengjum eða yfir hana er dælt sýklum eða öðrum eiturefnum. Allt það skal hún þola og þeir sem þar eru innan dyra skulu þar geta viðhaldist við slíkar aðstæður í eigi minna en 7 daga. Þess eðlis er þessi stöð og hún er enn ein áþreifanleg sönnun fyrir þeirri gífurlegu útþenslu hernámsins, sem þessi hæstv. ríkisstj. hefur sérstaklega beitt sér fyrir með nýjum og nýjum ákvörðunum um hernaðarframkvæmdir, næstum að segja í hverjum mánuði, sem hófst reyndar þegar á fyrsta mánuði í valdatíð hæstv. fyrrv. utanrrh.

Ekki fólust mikil nýmæli í öðrum svörum hæstv. utanrrh. Þar eru á ferðinni framkvæmdir sem þegar hafa verið ræddar hér og deilt hefur verið um hér á hv. Alþingi. En þó er rétt að vekja sérstaklega athygli á því að enn er haldið áfram við að heimila aukningu birgðarýmis olíuhafnarinnar og birgðastöðvarinnar í Helguvík þannig að nú þegar er þar um að ræða margföldun þeirra birgða sem fyrir voru og heimilaðar voru samkvæmt fyrra samkomulagi. Þessum framkvæmdum öllum mótmæli ég harðlega, herra forseti. Þó sérstaklega þeim framkvæmdamáta sem hér er á hafður um ákvarðanatekt og þeirri lítilsvirðingu við Alþingi sem með þessum hætti er iðulega í frammi höfð, sérstaklega með tilvísan til stöðu utanrmn. og ákvæða um hana í 15. gr. um þingsköp Alþingis.