01.04.1986
Sameinað þing: 66. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3373 í B-deild Alþingistíðinda. (3019)

363. mál, innri öryggismál

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fyrir hæstv. utanrrh. fsp. varðandi viðfangsefni sem á fínu máli hefur hlotið nafnið „innri öryggismál“ og nokkuð var fjallað um í fjölmiðlum landsins á undanförnum vikum.

Helst mátti skilja á umfjöllun fjölmiðla, dagblaða og ríkisfjölmiðla, að hér væru á ferðinni hugmyndir um að koma á fót einhvers konar upplýsingaþjónustu, upplýsingasöfnun í því formi sem tíðkast erlendis gjarnan undir nafninu „leyniþjónusta“ eða „öryggislögregla“ eða „öryggisþjónusta“. Þannig er t.d. í Morgunblaðinu sagt frá fundi Varðbergs og Félags áhugamanna um vestræna samvinnu hinn 20. febr. s.l. og þar greint frá hugmyndum sem hæstv. utanrrh. hafi reifað um þessi svonefndu innri öryggismál. Einnig var í fréttum Ríkisútvarps stuttu síðar sagt frá fundi sama félagsskapar þar sem starfsmenn úr ráðuneytum, dómsmrn. og utanrrn., höfðu reifað svipaðar hugmyndir og sagt frá því sem á döfinni væri í viðkomandi ráðuneytum um þessi efni.

Ég verð að segja, herra forseti, að mér þykir hér farið af furðu mikilli léttúð með alvarleg mál, sérstaklega hvað það varðar að þessi mál skuli koma til umfjöllunar á fundum einhverra félagasamtaka, einhverra klúbba úti í bæ, ítrekað, án þess að hv. Alþingi eða utanrmn. Alþingis hafi verið skýrt frá þeim hugmyndum sem þar eru á ferðinni og án þess að um þau hafi verið fjallað fyrst á þeim vettvangi. Einnig skilst mér reyndar, þótt það sé ekki minn höfuðverkur, herra forseti, að hæstv. ríkisstj. hafi ekki fengið af þessum hugmyndum að vita fyrr en a.m.k. eftir þann fund sem ég vitnaði til og haldinn var 20. febr. s.l. Því hef ég spurt hæstv. utanrrh.: Í fyrsta lagi hvort uppi séu áform í utanrrn. um að koma á fót slíkri þjónustu, leyniþjónustu eða öryggislögreglu. Í öðru lagi hverju það sæti að utanrrh. reifar slíkar hugmyndir á fundi hjá nefndu Varðbergi áður en þær eru kynntar fyrir til að mynda utanrmn. Alþingis, ríkisstjórn og þingflokkum. Og í þriðja lagi vil ég spyrja hæstv. utanrrh. hvort hann telji það eðlilegt að starfsmenn ráðuneyta - og þá getur hann væntanlega í það minnsta svarað fyrir sitt ráðuneyti - ræði, á þessu stigi málsins, þessi svonefndu „innri öryggismál“ og skýri frá vinnu ráðuneytanna þar að lútandi á fundum þar sem viðstaddir eru meðal annarra starfsmenn erlendra sendiráða sérstaklega boðnir til fundar klúbbsins.

Ég vitna hér í frétt Ríkisútvarpsins af þessum fundum, herra forseti, máli mínu til staðfestingar, en þar var skýrt frá því sem fram hafði farið á þessum viðkomandi fundum og einnig greint frá því að viðstaddir alþm., hv. þm. Eiður Guðnason og hv. þm. Haraldur Ólafsson, hefðu gert nokkrar athugasemdir þessu að lútandi.