04.11.1985
Efri deild: 11. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 356 í B-deild Alþingistíðinda. (302)

88. mál, iðnaðarlög

Flm. (Björn Líndal):

Virðulegi forseti. Í frv. þessu, sem hér er til umræðu, er lagt til að breyting verði gerð á 4. gr. iðnaðarlaga nr. 42 frá 1978 og heimilað að erlendir aðilar geti eignast meiri hluta hlutafjár í iðnfyrirtækjum sem starfrækt eru hér á landi. Skv. gildandi lögum er slíkt útilokað nema með sérstakri lagasetningu í hverju einstöku tilviki. Skiptir í því sambandi engu máli hvort um stórt eða lítið fyrirtæki er að ræða, hvort hlutafé þess er 1 millj. eða 100 millj, kr.

Á liðnum árum hefur lítið verið sinnt þeim möguleikum sem felast í erlendri fjárfestingu á sviði iðnaðar ef undan er skilin stóriðja. Þetta er þó að breytast eins og sést m.a. af samþykkt þáltill. á síðasta Alþingi um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnufyrirtækjum hér á landi. Nauðsynlegt er að halda áfram á þessari braut og því má halda fram með gildum rökum að erlend fjárfesting sé nauðsynlegur þáttur í nýsköpun atvinnulífsins sem ríkisstj. beitir sér nú fyrir.

Erlend fjárfesting í atvinnufyrirtækjum er til þess fallin að auka fjölbreytni íslensks útflutnings, færa nýja þekkingu til landsins, svo sem á sviði tækni, stjórnunar og markaðsmála, og draga úr fjárhagslegri áhættu Íslendinga af rekstri hlutaðeigandi fyrirtækja.

Síðast talda atriðið er sérstaklega mikilvægt. Erlent fé er og verður ein veigamesta forsenda þess að nýsköpun atvinnulífsins geti átt sér stað. Engu að síður er talið óhjákvæmilegt að stöðva erlenda skuldasöfnun.

Þessar aðstæður kalla á breytta notkun erlends fjár við uppbyggingu atvinnuvega hér á landi. Erlendar lántökur hafa verið meginreglan ef undan er skilin þátttaka erlendra aðila í stóriðju en eitt af því sem kemur til greina í staðinn er að Íslendingar reyni að örva erlenda fjárfestingu og um leið samstarf innlendra og erlendra aðila um atvinnurekstur hér á landi á öðrum sviðum en stóriðju.

Í iðnaði er að finna ýmsa möguleika til nýsköpunar þar sem erlend fjárfesting og samstarf innlendra og erlendra aðila getur skilað miklum árangri. Iðnaðarlögin, lögin sem gilda um þessa atvinnugrein, skortir hins vegar þann sveigjanleika sem nauðsynlegur er til að kostir erlendrar fjárfestingar í iðnaði njóti sín til fulls. Skv. lögunum má enginn reka iðnað hér á landi nema að fengnu leyfi lögreglustjóra. Hyggist hlutafélag leysa til sín iðnaðarleyfi skal það m.a. fullnægja því skilyrði að meira en helmingur hlutafjár sé í eigu manna sem búsettir eru hér á landi. Þetta skilyrði er óundanþægt og hefur í för með sér, eins og áður segir, að meirihlutaeign erlendra aðila í hlutafélagi getur einungis komist á með sérstakri lagasetningu. Skilyrðið hamlar því gegn erlendri fjárfestingu og um leið því samstarfi sem ég gerði að umtalsefni hér áðan.

Hér er ekki um skilyrði að ræða sem Félag ísl. iðnrekenda óskar eftir að haft sé í lögum. Þvert á móti. Í umsögn félagsins um þáltill. um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnufyrirtækjum segir beinlínis að starfsemi erlendra fyrirtækja geti haft jákvæð áhrif á íslenskt afvinnulíf og aukið á fjölbreytni þess. Þá ber þess og að geta að öll nágrannaríki Íslendinga hafa afnumið lagaskilyrði af því tagi sem hér um ræðir og er þar í lagasetningu leitast við að greiða fyrir erlendri fjárfestingu og samstarfi innlendra og erlendra fyrirtækja. Meðal ríkja í þessum hópi eru öll hin Norðurlöndin sem leggja nú sífellt meiri áherslu á þennan mikilvæga þátt atvinnumála.

Verði frv. þetta að lögum skapast auknir möguleikar á að breyta þróun mála hér á landi til samræmis við það sem tíðkast erlendis. Þó verður það áfram meginregla að Íslendingar eigi meiri hluta hlutafjár í hlutafélögum sem reka iðnaðarstarfsemi. Aftur á móti er lagt til að lögleidd verði undanþága frá þessari meginreglu og er hún orðuð á þá leið að þegar sérstaklega standi á geti iðnrh. veitt undanþágu frá skilyrði laganna um að meiri hluti hlutafjár skuli vera í eigu manna búsettra hér. Með þessu er átt við að veiting undanþágu komi fyrst og fremst til greina þegar telja má að starfsemi viðkomandi félags muni fela í sér mikilvægt framlag til þeirrar nýsköpunar sem nú er talað um að þurfi að gera í atvinnulífinu. Hér væri því um undanþáguheimild að ræða vegna iðnfyrirtækja sem hefðu með höndum starfsemi sem líkleg þætti til að auka útflutningstekjur landsins. Frv. miðar m.ö.o. að því að skapa skilyrði er tryggt geta margbreytni íslensks útflutnings, virkni hans og alþjóðlega samkeppnishæfni.

Undanþáguheimild af þessu tagi mun fyrst og fremst gagnast smærri og meðalstórum iðnfyrirtækjum. Þegar um stóriðju er að ræða er ljóst að áfram verður um sérstaka lagasetningu í hvert sinn að tefla, m.a. vegna sérsamninga um raforkuverð og skattgreiðslur.

Að lokum vil ég leggja til við deildina að frv. verði vísað til hv. iðnn. að lokinni þessari umræðu.