01.04.1986
Sameinað þing: 66. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3376 í B-deild Alþingistíðinda. (3023)

363. mál, innri öryggismál

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég hlýt að fá að mótmæla þeim tilraunum hæstv. utanrrh. að reyna að bera það af sér að þessi fsp. sé eðlileg og af gefnu tilefni. Ég bendi hæstv. utanrrh. ósköp einfaldlega á að lesa nú einu sinni Morgunblað sitt vandlega og reyna að skilja það sem þar stendur. Eitt af því fáa góða við Morgunblaðið er nú að það er oft skrifað á ágætis íslensku og vel skiljanlegri. Og það er óhjákvæmilegt að slíkar hugmyndir vakni hjá manni þegar maður les í gegnum frásögn Morgunblaðsins og viðtal Morgunblaðsins við hæstv. utanrrh. Það fer ekkert á milli mála. Hér er verið að fjalla um þessa hluti, um njósnamál og slíka hluti sem eru til meðhöndlunar hjá stofnunum í öðrum löndum, en sem ég er hér að spyrja um. Eðlilega tengir maður það saman hvort hér séu á ferðinni slíkar hugmyndir.

Ég teldi einnig rétt að hæstv. utanrrh. yrði sér úti um útskrift af fréttatíma Ríkisútvarpsins einhvern tíma upp úr 20. mars þegar sérstaklega var sagt frá seinni Varðbergsfundinum, sem um þetta fjallaði, og vitnað var orðrétt eða svo til orðrétt í starfsmenn ráðuneytanna og þau ummæli sem þeir höfðu haft.

Að lokum, herra forseti. Sá vettvangur sem hæstv. utanrrh. velur sér til þess að kynna þessar hugmyndir og reifa þessar hugmyndir er mjög sérstakur. Það er sami vettvangurinn sem lávarðinum eðalborna, Carrington, er boðið á til að sitja á góðra vina fundi. Sami vettvangur þar sem aðrir alþm. þjóðarinnar en þeir sem sérstaklega tilheyra þessum söfnuði komast ekki til. Mér er til að mynda ekki boðið á þessa Varðbergsfundi. Ég er ekki félagi og lesandi fundarboð lít ég þannig á að þar eigi ég ekki innangengt. Og ég gagnrýni harðlega, herra forseti, að hæstv. utanrrh. skuli velja þennan vettvang til að reifa þessar hugmyndir, hjá þessum sértrúarsöfnuði þar sem verulegur hluti þm. þjóðarinnar á ekki innangengt.

Að lokum vil ég, herra forseti, benda hæstv. utanrrh. þjóðarinnar, Matthíasi Á. Mathiesen, á það - vegna þess að hann hefur greinilega ekki áttað sig á því - að hann er ekki bara utanrrh. á daginn frá 8- 4. Hann er utanrrh. íslensku þjóðarinnar allan sólarhringinn og þegar hann mælir sem slíkur, þá skiptir ekki máli hvort það er kl. 4 eða hvort það er kl. 21.00 á einhverjum klúbbfundi.