01.04.1986
Sameinað þing: 67. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3381 í B-deild Alþingistíðinda. (3026)

361. mál, gjaldskrársvæði Póst- og símamálastofnunar

Helgi Seljan:

Herra forseti. Það er fyllilega tímabært að hreyft sé í annað sinn á þessu þingi sérstaklega tillöguflutningi um að jafna símgjöld. Hér er um mikið réttlætismál að ræða. Við sem byggjum landsbyggðina vitum mætavel að símkostnaður er býsna hár liður í útgjöldum heimilanna þar. Hér er vissulega um skref í rétta átt að ræða sem hv. 1. flm. mælti fyrir áðan og væri fagnaðarefni ef það skref yrði tekið.

Ég benti á það og sagði í upphafi að þetta væri annað þingmálið sem vekti athygli á þessum mismun. Hin till. var flutt mjög snemma þings um sama gjald fyrir símaþjónustu á öllu landinu. 1. flm. þeirrar till. var hv. 5. þm. Austurl. Hjörleifur Guttormsson og sú till. var þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni:

a. að gera áætlun um uppbyggingu símakerfisins og símaþjónustu sem geri það kleift að jafna gjaldskrá símans í áföngum með það að markmiði að landið verði allt eitt gjaldsvæði innan fimm ára,

b. að tryggja að kostnaður vegna símtala við stjórnsýslustofnanir verði hinn sami hvar sem er á landinu fyrir árslok 1987,

c. að gera ráðstafanir til að gjaldskrárbreyting skv. alið verði ekki íþyngjandi fyrir elli- og örorkulífeyrisþega.“

Hér er inn á sama mál komið þó með öðrum hætti sé. Það hefur lengi verið svo að jöfnun símgjalda hefur verið náð með áföngum. Það hafa verið teknið ákveðnir áfangar í þessu efni og það hefur gengið býsna erfiðlega að ná þeim áföngum fram. Menn minnast þess að þegar skrefatalningin fræga var tekin upp var við hana mikil andstaða og menn óttuðust að hún mundi leiða til gífurlegs kostnaðar hjá ýmsum á þéttbýlissvæðinu. Nú heyrist ekki lengur um þetta talað og ég held að sem betur fer hafi það ekki íþyngt mönnum um of, enda ýmis undantekningartilvik gerð á á þann hátt að mildað var óneitanlega það álag sem á aðalþéttbýlið kom með þessari skrefatalningu, en vel að merkja: skrefatalningin gilti vitanlega alls staðar og ekki síður úti á landsbyggðinni. Það var sá mikli misskilningur, sem kom oftlega fram í þessum umræðum, að hin svokallaða skrefatalning mundi eingöngu leggja auknar byrðar á þéttbýlið.

Hv. flm. kom inn á það einmitt að hér væri um áfangamál að ræða og gjarnan vildi ég sjá þann áfanga sem hann mælir hér fyrir. Ég man eftir því að á sínum tíma var þetta sérstakt viðfangsefni þeirrar byggðanefndar sem einu sinni starfaði, ekki þeirrar byggðanefndar sem nú starfar eða starfar ekki, og þá áttum við í miklum viðræðum við forustumenn Pósts og síma um þessi mál, hvernig jafna mætti símgjöld og létta byrðar landsbyggðarmanna í kringum símgjöldin. Þá var almennt talið að tækni væri ónóg. Inn á það kom reyndar hv. 1. flm. réttilega að nú væri hún ekki í vegi nema að mjög takmörkuðu leyti. Þá var líka bent á það, man ég eftir, að efnahagur þeirrar stofnunar leyfði ekki slíkt. Kannske var aðaltilefni þess að ég kom upp sú breytta staða sem hefur orðið varðandi efnahag þessarar ágætu stofnunar, Pósts og síma. Hann ætti að gera þeirri stofnun auðvelt, svo ekki sé meira sagt, að jafna símgjöld miklu meira en orðið er eða lækka þau kannske almennt. Við afgreiðslu fjárlaga í vetur gerðist það nefnilega að ákveðið var að Póstur og sími greiddu dágóða upphæð, tugmilljónir, í ríkissjóð af sínum hagnaði, hagnaði sem hefði réttilega átt að renna í þetta verkefni og hefði verið kjörið til þess, en hv. stjórnarsinnar sáu ekki ástæðu til þess að nota það lag til að taka þá fjármuni og beina þeim í þann farveg sem hv. 1. flm. er hér að víkja réttilega að heldur var ákveðið að vísa því beint í ríkissjóð til ýmiss konar ráðstöfunar þar.

Ég vildi skjóta því að hv. 1. flm. hvort það væri ekki ráð, einmitt vegna þessa góða efnahags Pósts og síma, þeirrar stofnunar sem getur nú greitt í ríkissjóð þetta vænar fúlgur af sínum hagnaði, að nota þetta lag og koma a.m.k. þeim áfanga sem hann er með í sinni till. í framkvæmd, að ekki sé nú minnst á stærri og meiri áfanga sem hann vék að að vissulega þyrftu að fylgja í kjölfarið.