02.04.1986
Efri deild: 68. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3385 í B-deild Alþingistíðinda. (3030)

73. mál, varnir gegn mengun sjávar

Frsm. (Egill Jónsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. samgn. um frv. til l. um varnir gegn mengun sjávar sem eins og kunnugt er er 73. mál þingsins. Undir þetta nál. rita allir nefndarmenn nöfn sín nema einn, Jóhanna Leópoldsdóttir að vísu með fyrirvara, en Kolbrún Jónsdóttir var fjarstödd við afgreiðslu málsins.

Að sjálfsögðu fóru fram umræður um málið á fundum nefndarinnar og það var sent til umsagnar Landssambandi ísl. útvegsmanna, Hafnasambandi sveitarfélaga, Olíufélaginu Skeljungi hf., Sambandi ísl. kaupskipaútgerða, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Sjómannasambandi Íslands, Hollustuvernd ríkisins og Náttúruverndarráði.

Þegar umsagnir höfðu borist kom í ljós að nokkurs ágreinings gætti og var það þó sérstaklega varðandi Náttúruverndarráð og Hollustuvernd ríkisins. Til þess að unnt væri að ná nauðsynlegri samstöðu um málið var það tekið til athugunar að nýju í samgrn. og fjallað um það þar ásamt fulltrúum þeirra sem þetta mál varðar sérstaklega. Brtt. nefndarinnar eru niðurstaða þessara viðræðna og ég legg á það áherslu að um þær varð fullt samkomulag nema að því er varðaði 10. gr. frv. og þátt olíufélaganna í losun og eyðingu olíuúrgangs.

Mér þykir vert að geta þess sérstaklega að Ragnhildur Hjaltadóttir, fulltrúi í samgrn., hafði forustu fyrir þessu starfi og kann ég henni miklar þakkir fyrir hversu vel tókst til um sameiginlega niðurstöðu á milli þessara aðila varðandi afgreiðslu málsins.

Brtt. nefndarinnar má flokka í aðalatriðum í tvennt. Annars vegar eru þau ákvæði er lúta að mengun frá landstöðvum af völdum eiturefna og annarra hættulegra efna. Hins vegar eru svo ákvæði 10. gr. um móttöku olíuúrgangs. Breytingar á ákvæðum er varða mengun frá landstöðvum voru unnar í samvinnu við samgrn., Siglingamálastofnun ríkisins, Hollustuvernd ríkisins og Náttúruverndarráð. Breytingin er í grundvallaratriðum sú að gildissvið frv., sem áður takmarkaðist við varnir gegn mengun sjávar, tekur nú einnig til eftirlits með mengunarvörnum. Með þeirri breytingu er stefnt að því að forðast tvíverknað, að verkefni stofnana skarist og að draga sem mest úr réttaróvissu. Er þetta í samræmi við þá verkefnaskiptingu sem verið hefur á milli Siglingamálastofnunar ríkisins og Hollustuverndar og samkomulag er um. Til að tryggja að þessum tilgangi verði náð er enn fremur lagt til að við setningu reglna um mengun frá landstöðvum verði lögfest samráð við önnur stjórnvöld er með mengunarmál fara. Hliðstætt samráð er nú samkvæmt reglugerð um starfsleyfisskyldan atvinnurekstur.

Í umsögnum Sambands ísl. kaupskipaútgerða og Olíufélagsins Skeljungs hf. kemur fram gagnrýni á 10. gr. frv. sem fjallar um móttöku olíuúrgangs. Leggur Skeljungur til að hafnaryfirvöldum verði gert skylt að koma upp aðstöðu til móttöku á olíuúrgangi í höfnum. Samband ísl. kaupskipaútgerða tekur ekki afstöðu til þess hverjir verði skyldaðir til móttöku á olíuúrgangi frá skipum, en gerir kröfu um að slík móttaka verði skipunum að kostnaðarlausu. Þrátt fyrir þetta er ekki talið rétt að breyta ákvæðum 10. gr. Það hlýtur að teljast eðlilegt af þeim sem annast sölu og dreifingu á olíu sé einnig gert skylt að taka við olíuúrgangi. Þeir hafa þekkingu, tæki og annan búnað til að annast móttökuna. Hins vegar þykir rétt með hliðsjón af umsögn Skeljungs að 3. og 4. mgr. 10. gr., sem fjalla um móttöku olíuúrgangs, falli brott og ný mgr. bætist við um setningu reglna hér að lútandi. Með því móti er betur tryggt að olíuúrgangi sé á hverjum tíma safnað saman með sem hagkvæmustum hætti fyrir alla aðila. Einnig væri þá unnt að fela öðrum aðilum móttöku olíuúrgangs við skipshlið.

Að endingu vil ég svo benda á að á þskj. 663, þar sem gefur að líta brtt. nefndarinnar, kemur glögglega fram hvert er efni þessara breytinga. Þar er um að ræða 20 brtt. Ég sé ekki ástæðu til að fara að ræða þær hverja og eina sérstaklega þar sem þskj. gefur með glöggum hætti til kynna hverjar breytingarnar eru. Ég sé því ekki, herra forseti, ástæðu til að fjalla um þetta mál í lengra máli og læt ræðu minni lokið.