02.04.1986
Efri deild: 68. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3403 í B-deild Alþingistíðinda. (3048)

379. mál, lyfjafræðingar

Heilbr.- og trmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir örlítilli breytingu á lögum nr. 35/1978, um lyfjafræðinga. Með þeim lögum var mörkuð sú stefna að kveða á um réttindi lyfjafræðinga og skyldur í sérlögum í stað ákvæða í almennum lyfjalögum.

Skv. lögum um lyfjafræðinga nr. 35/1978 er það skilyrði sett fyrir veitingu starfsleyfis að lyfjafræðingsefni hafi unnið a.m.k. eitt ár við framleiðslu lyfja, tilbúning, merkingu og afgreiðslu eða önnur lyfjafræðingsstörf hér á landi.

Starfsþjálfun lyfjafræðingsefna fer að stærstum hluta fram í lyfjabúðum landsins. Við ákvörðun á áðurnefndri tímalengd starfsþjálfunar var m.a. höfð í huga sú lyfjaframleiðsla sem við setningu laganna árið 1978 fór fram í lyfjabúðum og nauðsyn á að lyfjafræðingsefni fengi þjálfun í móttöku símalyfseðla. Nú hefur þessi aðstaða breyst. Bæði fer lyfjaframleiðsla að mestu annars staðar fram en í lyfjabúðum og stjórnarnefnd lyfjafræði lyfsala lagði til við ráðuneytið að það hlutaðist til um breytingu á 4. tölul. 3. gr. laga um lyfjafræðinga þannig að starfsþjálfun verði stytt úr tólf mánuðum niður í níu og starfsþjálfun verði veitt á námstíma eða að háskólanámi loknu.

Bæði Apótekarafélag Íslands og Lyfjafræðingafélag Íslands eru meðmælt þessum breytingum. Nái þessar breytingar fram verða sex mánuðir unnir á sjálfum námstímanum, en þrír að námi loknu.

Ég legg til, herra forseti, að frv. þessu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. heilbr.- og trn. og 2. umr. með ósk um að málið hljóti skjóta afgreiðslu, en þessi breytta skipan, ef að lögum verður, mundi m.a. ná til þeirra sem nú eru í lyfjafræðinámi og útskrifast í vor.