04.11.1985
Efri deild: 11. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í B-deild Alþingistíðinda. (306)

88. mál, iðnaðarlög

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Ég sé að hæstv. ráðherra iðnaðarmála má hlýða á mál mitt. Ég fagna því að hæstv. ráðherra hefur jafnað sig eftir stólaskiptin svo að nú getur hann aftur slegið á léttari strengi, jafnvel þó að um alvörumál sé að ræða, eins og hann gerði áðan á þann hátt sem hann er kunnur fyrir. Ég fagna því. Hann sneri orðum Morgunblaðsins upp á mig í galsa og kátínu og sagðist hafa trúað á Grýlu í gamla daga. Ég heyrði ekki betur en hann gerði það enn. Ýmislegt kom fram í þeim dúr. Ég tók eftir því að þegar hæstv. ráðherra kom að stoltinu yfir Morgunblaðinu og tvítók það eða þrítók var það allt innan gæsalappa engu að síður. Það var alveg glöggt, enda tók hann það raunar fram síðar í ræðu sinni að hann færi lítið eftir því sem sér væri ráðlagt í þeim efnum. Ég er ekkert hissa á því og tek undir það. Hæstv. ráðherra sagði: Auðvitað eiga báðir aðilar að græða. - Ótti minn er einmitt bundinn því að við lútum þar í lægra haldi, enda sagði hæstv. ráðherra beinlínis varðandi reynsluna af stóriðjunni að við hefðum talið okkur, þó um það væri að vísu deilt, eiga að fá meira út úr því en við höfum fengið. Hann kom glögglega inn á það.

Hitt var svo annað mál, sem ég tek út af fyrir sig ekki nærri mér, að undir yfirskini gamansemi ýjar hæstv. ráðherra að því enn einu sinni hér úr þessum ræðustól að ég og minn flokkur séum hallir undir eitthvert erlent stórveldi og aðgerðir þess. Hann gerir þetta á sinn ljúfmannlega hátt að vísu, en þó á þann veg að ég verð að harma að í þessu skuli hann þó ganga Morgunblaðsgötuna.

Hitt er svo meginmálið í þessu öllu saman að hæstv. ráðherra tók undir meginatriði míns máls þegar útúrsnúningum hans sleppti. Hann tvítók í ræðu sinni að við yrðum einmitt gagnvart erlendum aðilum og erlendu fjármagni að fara að með fullri gát og að við yrðum að taka mið af smæð okkar þjóðfélags. Þetta var meginmálið í því sem ég sagði í fyrri ræðu minni þó ég gæti ekki stillt mig um að fjalla örlítið um Morgunblaðsþáttinn, Sovétmannaþáttinn og hæstv. ráðherra í þeim efnum.

Meginmálið í minni ræðu var hvað þetta snerti og ég kannast ekki við að ég hafi hafnað alfarið öllum viðræðum við útlendinga um þetta eða einhverri þátttöku þeirra í íslenskum atvinnurekstri. Ég fór í raun og veru inn á sömu braut og hæstv. ráðherra undirstrikaði, að við ættum að fara með fullri gát, og ég skildi hv. 5. þm. Vesturl. svo að hann væri einnig á þeirri skoðun og ef svo færi að það kæmi í ljós að flokksbróðir hans, hv. þm. Björn Líndal, væri að opna hér allt upp á gátt ætlaði hann að loka þeim gáttum strax í iðnn. Ed. Ég fagna því að Framsfl. er þó ekki lengra leiddur en þetta.