02.04.1986
Neðri deild: 70. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3410 í B-deild Alþingistíðinda. (3060)

336. mál, búnaðarmálasjóður

Frsm. meiri hl. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Þegar rætt var á síðasta þingi um lögin um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum var óskað eftir því að gerð yrði breyting sem heimilaði að leggja á gjald sem ætti að ganga til búgreinasambandanna. Landbn. Nd. tók þessari málaleitan vel, en að athuguðu máli þótti réttara að breyta lögunum um Búnaðarmálasjóð og heimila þessa gjaldtöku þar. Síðan hafa borist bréf til landbn. frá stjórn Samtaka sauðfjárbænda, frá Hagsmunafélagi hrossabænda, frá stjórn Landssambands loðdýraræktenda og síðast en ekki síst frá stjórn Stéttarsambands bænda um að lögunum um Búnaðarmálasjóð verði breytt á þann hátt sem lagt er til í þessu frv.

Þetta var rætt í landbn. og meiri hl. hennar samþykkir að verða við þessari beiðni og leggur til að frv. verði samþykkt eins og það var lagt fram. Undir nál. skrifa Stefán Valgeirsson, Steingrímur J. Sigfússon, Halldór Blöndal, Eggert Haukdal og Þórarinn Sigurjónsson.

Ég vil geta þess að þetta gjald verður tekið af þeim hlut sem bændur eiga að fá, en kemur ekki inn í verðlagið. Ég hef heyrt á nokkrum þm. að þeir hafa misskilið þetta, en það er verið að innheimta gjald til þess að þessi búgreinasambönd hafi einhverja fjármuni til að starfa fyrir.

Umr. frestað.