02.04.1986
Neðri deild: 70. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3414 í B-deild Alþingistíðinda. (3067)

368. mál, selveiðar við Ísland

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Frv. þetta til laga um selveiðar við Ísland er nú endurflutt í þriðja sinn. Á síðasta Alþingi lýsti ég andstöðu við það frv. sem þá var flutt, en það var nálega samhljóða því frv. sem hér liggur fyrir. Og ég sé ástæðu til þess við 1. umr. þessa máls nú að láta það koma fram að einnig nú er ég andvígur þessu frv.

Tilefni andstöðu minnar er ákaflega einfalt og skýrt. Með þessu frv. er verið að flækja þessum málum undir tvö ráðuneyti og það gjörsamlega að tilefnislausu. Selveiðar falla nú og hafa fallið undir landbúnaðarlöggjöfina. Selveiðar hafa verið og eru hluti af hlunnindum bænda. Í þessu frv. er þegar vikið að einu atriði slíkra laga en það eru lögin um lax- og silungsveiði. Einnig má nefna bæði ábúðarlög og jarðalög sem ná yfir bújarðir bænda og þar með þann hluta þeirra sem nær 115 m út frá stórstraumsfjöruborði í sjó. Innan slíkrar línu hygg ég að mestmegnis öll selveiði eigi sér stað og þó fyrst og fremst í eða við árósa.

Með athugasemdum við þetta frv. er birt skrá yfir selveiðar við Ísland á árunum 1962-1985 og einnig er í athugasemdunum gerð grein fyrir veiði með nokkuð öðrum hætti og víðtækara en þar er gert. En það kemur hvergi fram hvar þessi selur veiðist. Ég hygg að ef það væri athugað þá kæmi í ljós að selurinn veiðist fyrst og fremst, kannske nærri einvörðungu, innan lögsögu bújarða. Og selveiðin, a.m.k. sá hluti, fellur því áfram undir landbrn. þó svo þessi lög verði sett. Á því verður ekki breyting. Það er tilefnislaust að fara að setja í löggjöf ákvæði sem gerðu það að verkum að sá hluti selveiða við Ísland, sem væri utan við 115 m frá stórstraumsfjöruborði, félli undir allt annað ráðuneyti, þ.e. sjútvrn. Þetta er óþarfa flækja og ég er alveg undrandi á því, ég segi ekki annað en það, ég er undrandi á því að hæstv. sjútvrh. og hæstv. ráðherrar í þessari ríkisstj. skuli ekki geta komið sér saman um það að hafa þessi mál á hendi þess ráðuneytis sem með þessi mál hefur farið hingað til. Hér er þó um flokksbræður að ræða sem sitja í þessum embættum og ég sé ekki hvaða tilefni er til þess af hálfu hæstv. sjútvrh. að geta ekki treyst a.m.k. núv. hæstv. landbrh. fyrir því að fara með þessi mál svo sem verið hefur.

Ég vil taka það alveg skýrt fram að ég er ekki með neinar athugasemdir varðandi þau efni þessa máls sem lúta að því að þörf kunni að vera á því að fækka sel við Ísland. Ég er ekki með neinar athugasemdir í þá átt og það er allt gott um það að segja að fram fari rannsóknir á því hversu stór selastofninn er, hvaða tjóni selurinn valdi og hvaða aðgerða þurfi að grípa til til þess að halda selastofninum í skefjum. Allt slíkt er hægt að gera þrátt fyrir það að þessi mál verði hér eftir sem hingað til á höndum landbrn. og undir yfirstjórn landbrh. Allar þær ákvarðanir, sem teknar yrðu til að mynda skv. 6. gr., af hálfu ráðherra sem með þessi mál á að fara, þó svo að það vald sé ærið víðtækt, eins og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sagði hér áðan, þá er ekkert sem hindrar það að hæstv. landbrh. geti farið með þetta vald alveg með sama hætti og hæstv. sjútvrh., og engin þörf á því að breyta þessu eða flækja þessu máli yfir í tvö ráðuneyti til þess að slíkri meðferð mála verði við komið. Ég get af þessum sökum ekki stutt þetta mál og mun greiða atkvæði gegn því, svo sem ég hef lagst gegn því hér í þessari umræðu og svo sem ég lagðist gegn því við umræðu hér á hv. Alþingi á síðasta ári.

Ég held að það geti vel verið rétt hjá hæstv. ráðh. að efnislega sé einungis minni háttar ágreiningur um þetta mál og ég ætla ekkert að auka á þann ágreining. En ég get ekki látið hjá líða að vekja á þessu athygli og mótmæla því að verið sé að flækja svo meðferð mála í stjórnkerfinu, svo sem hér er gert ráð fyrir í þessu frv., algjörlega að tilefnislausu, að setja mál eins og þetta undir tvö ráðuneyti. Þessu hlýt ég að mótmæla. Og ég vil beina því mjög staðfastlega til hæstv. sjútvrh. hvort hann geti ekki við nánari umhugsun fallist á að treysta nú flokksbróður sínum, hæstv. landbrh., fyrir þessu máli og að sá hæstv. ráðh. geti þá sett þær reglur sem við þykir þurfa til þess að þeim aðgerðum í selveiðum verði við komið sem menn telja nauðsynlegar.

Ég skal ekki leitast við að reisa neinar skorður við því, svo fremi að ekki sé gengið á eignarrétt manna og farið sé að með sæmilegum umgengnisháttum, svo sem vænta má að gert verði, ég vil ekki trúa öðru. Í því sambandi minni ég aðeins á það, sem ekki kemur nú glögglega fram í þessu frv. þó að fella megi undir 1. tölul. í 6. gr. þar sem segir að ráðherra geti bannað selveiðar á tilteknum svæðum, að vitaskuld þarf að gæta þess að sums staðar eru sellátur í eyjum og skerjum utan landareignar lögbýla sem þó eru talin eign tiltekinna lögbýla og hljóta að hafa sína lögsögu eins og fasta landið. Það getur þurft að vernda slík sellátur á tilteknum tímum. Það þekki ég að menn eru sumir hverjir ákaflega viðkvæmir fyrir að þar sé ekki farið um með ófriði á þeim tímum sem kóparnir eru ungir eða a.m.k. þegar selurinn kæpir. En þetta er nú vafalaust minni háttar framkvæmdaratriði sem vonandi verður athugað, hvaða ráðherra og hvaða ráðuneyti sem færi með þessi mál. Ég mun treysta því að svo verði gert.

En ég skal ekki vera að þreyta hér við 1. umr. þetta mál, aðeins láta það liggja alveg skorinort og skýrt fyrir að ég get ekki stutt þá flækju sem hér er verið að gera ráð fyrir og mér sýnist algjörlega tilefnislaus.