02.04.1986
Neðri deild: 70. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3416 í B-deild Alþingistíðinda. (3068)

368. mál, selveiðar við Ísland

Gunnar G. Schram:

Herra forseti. Það er ekki ástæða til þess að mæla hér mörg orð við 1. umr. um þetta frv., um selveiðar við Ísland.

Ég vil þó ekki láta hjá líða að lýsa yfir fyllsta stuðningi mínum við frv. og efni þess og ákvæði, sérstaklega þau sem fjalla um heimildir fyrir ráðherra til að hafa stjórn á þessari auðlind sem selurinn við Ísland er. Slík ákvæði um stjórnun að því er varðar veiðar og nýtingu þessa dýrastofns hefur vantað í lög fram til þessa og með frv., sem hér liggur fyrir, er úr þeim galla bætt. Menn geta síðan haft mismunandi skoðanir á því, eins og fram kom mjög glögglega í máli síðasta ræðumanns, hvort leggja beri valdið og stjórnunina undir sjútvrn. eða landbrh. þar sem mjög ófullkomin lagaákvæði fjalla um vald þess síðarnefnda í þeim efnum í dag. Það má þó benda á að ein sú breyting, sem gerð hefur verið á frv., varðar einmitt yfirstjórnina. Nú segir í upphafi 3. gr. frv. að sjútvrn. skuli hafa samvinnu við landbrn. við framkvæmd laga þessara og síðan ýmsa aðra aðila.

Ég ætla í sjálfu sér ekki að fjölyrða um þetta atriði, en hér er um stjórnarfarslegt og stjórnsýslulegt atriði að ræða sem menn getur greint á um. Meginatriðið er vitanlega hins vegar það að hér er í fyrsta skipti lagt fram heildstætt frv., sem geymir ákvæði um selveiðar við Ísland og um stjórnun á þeim stofni. Er vissulega full þörf á að festa slík ákvæði í lög.

Þá má spyrja: Af hverju er þess þörf?

Í því sambandi má minna á það vegna þeirra umræðna, sem áttu sér stað um það frv. um selveiðar sem lagt var fram á síðasta þingi, að hér er ekki verið að leggja fram frv. um útrýmingu sels þó fram hafi komið í máli ýmissa ræðumanna þau atriði sem af mátti draga þær ályktanir að frv. fjallaði fyrst og fremst um útrýmingu sels. Svo er vitanlega alls ekki.

Frv. fjallar að sínu leyti nákvæmlega jafnmikið um friðun selastofnsins við Ísland og fækkun sela við landið. Það geta menn sannfærst um ef þeir líta á ákvæði 6. gr. frv. þar sem ráðherra er veitt vald til þess að ákveða, að fengnu samþykki Náttúruverndarráðs m.a., reglur um selveiðar á svæðum sem friðlýst hafa verið eða kunna að verða með heimild í lögunum um náttúruvernd frá 1971. Þar er ráðherra heimilað að takmarka selveiðar við ákveðinn tíma, banna selveiðar á tilteknum svæðum, friða ákveðnar tegundir sela og ákveða fjölda þeirra sela er veiða má af einstökum tegundum á ákveðnum svæðum á tilteknu tímabili. Hér eru mjög ítarleg og víðtæk friðunarákvæði sem ráðherra er heimilt að beita og grípa til ef ástæða þykir til, ef þessi dýrastofn í hafinu við Ísland þykir einhvern tímann vera í hættu.

Sem betur fer er ástandið í dag ekki á þá lund heldur þvert á móti. Selnum hefur fjölgað mjög við Íslandsstrendur og það er einmitt ein meginástæðan - fyrir utan þau atriði sem ég hef þegar nefnt - sem mælir með því að frv. sem þetta, um stjórnun selveiða og heimildir fyrir ráðherra í því efni, verði leitt í lög.

Við skulum líta á nokkrar staðreyndir málsins. Það hefur verið tekið saman að selastofninn við Ísland étur það fiskimagn sem jafngildir ársafla 21 togara. Þetta eru uggvænlegar tölur en þeim er erfitt að mótmæla. Ég vil taka það fram að hér er vitanlega ekki eingöngu um úrvalsfisk eins og þorsk, lúðu eða lax að ræða, hér er um heildarfiskmeti það að ræða, misjafnlega dýrar fisktegundir, sem hverfa úr hafinu sem æti selastofnsins við Ísland. Vitanlega hafa þessar veiðar selsins, ef svo má að orði komast, aukist í réttu hlutfalli við hina miklu fjölgun hans eftir að veiðar á honum minnkuðu. Í öðru lagi, og það er miklu alvarlegra vandamál, þá er að nefna hringormavandann alkunna. Ég ætla ekki að halda hér langan fyrirlestur um hann, þingmönnum er það mál svo ljóst, né ætla ég að fara að útlista það frá fræðilegu sjónarmiði. En öllum, sem til þekkja í sjávarútvegi, er það vitanlega kunnugt hver fyrirhöfn og tilkostnaður það er fyrir fólk í fiskverkun og frystihúsum að fjarlægja hringorminn úr fiskinum.

Nú geta menn haft sínar líffræðilegu skoðanir á því hvernig hringrásin er í hafinu og hver þáttur selsins er í þeirri hringrás og tilfærslu hringormanna í matfiskinn, hvort selurinn er syndaselurinn í því efni eða ekki. (ÓÞÞ: Það skiptir nú nokkru þegar dæmt er.) Ég held nú að fæstum blandist hugur um að syndaselurinn er einmitt selurinn. (Gripið fram í.) Ég sagðist ekki ætla að kveða hér upp neinn líffræðilegan dóm. Ég er heldur ekki að kveða hér upp neina aðra dóma. Ég er að lýsa mínu áliti, sem ég byggi á ummælum og ritum, m.a. sérfræðinga, líffræðinga sem annarra, þar á meðal hringormanefndar sem sérstaklega hefur lagt sig eftir þessu viðfangsefni.

Það hefur verið tekið saman, kannske einna gleggst af deild Fiskifélags Íslands á Vestfjörðum, hve gífurlega kostnaðarsamt það er fyrir fiskvinnsluna að standa í hringormahreinsuninni. Um er að ræða upphæðir sem skipta ekki aðeins tugum milljóna, heldur hundruðum milljóna króna í íslenskum sjávarútvegi á ári. Ekki er það síst eftir að hafin var hringormahreinsum fyrir þremur árum, samkvæmt kröfum okkar helstu viðskiptalanda á saltfiskmörkuðunum, úr öllum saltfiski sem sendur er frá þessu landi þangað. Þetta atriði er því gífurlegur baggi á íslenskum sjávarútvegi. Og m.a. af þessum ástæðum, sem ég hef hér nefnt, er full ástæða og rök og nauðsyn til þess að samþykkja slíkt frv., sem hér liggur fyrir, sem veitir ráðherra heimildir -einmitt í þessari sömu 6. gr., 7. tölul., þar sem fjallað var um friðun selsins - til þess að ákveða aðgerðir er stuðli að fækkun sela sé þess talin þörf. Hér yrði vitanlega ekki farið út á þá braut að hefja eitthvert útrýmingarstríð á hendur selnum. En það er alveg augljóst að þjóðarhagsmunir liggja að baki því og ekki síst hagsmunir höfuðatvinnuvegs þjóðarinnar, sjávarútvegsins, að í selastofnunum við Ísland verði ekki um offjölgun að ræða með þeim afleiðingum sem ég hef hér lítillega lýst. Það ber vitanlega að sjá svo um að þessi dýrastofn sé í jafnvægi. Það ber ekki að stunda neina útrýmingarherferð á hendur honum, en það ber að sjá svo um að honum sé haldið í jafnvægi og að ekki sé um óeðlilega fjölgun að ræða með þeim afleiðingum sem menn þekkja, ekki síst þeir sem koma úr sjávarútveginum.

Ég vil að lokum aðeins nefna að vitanlega verður að gæta þess að ekki sé gengið á rétt landeigenda að einu eða neinu leyti í þessum efnum. Og jafnvel þó að nokkur gömul lagaákvæði, sum bráðum 200 ára gömul, verði nú felld úr lögum, þá hygg ég að það eigi ekki að þurfa að vera, en sjálfsagt er að gera breytingar á frv. ef einhverjir telja að um réttarskerðingu sé að ræða. Það segir skýrt og skorinort í 4. gr.:

„Landeiganda eru einum heimilar selveiðar og ráðstöfunarréttur þeirra í landareign sinni nema lög mæli öðruvísi fyrir.“ Hér er og vitnað í laxveiðilögin þar sem nokkrar takmarkanir eru almennt á veiðum, en þau lög eru einmitt gott dæmi um bótalausar takmarkanir á eignarrétti manna. Þar að auki: Ef land liggur að sjó þá á landeigandi selveiðar 115 metra á haf út frá stórstraumsfjörumáli og eru það netlög hans. Ég hygg því að hér ætti að vera sæmilega séð fyrir rétti landeiganda. En það er alveg ljóst að ef þetta frv. verður að lögum og veiðiréttur einhverra bænda á tilteknum stöðum á landinu - það hefur verið minnst hér á Breiðafjörðinn - skerðist við það, þá er hér um grundvöll bótakröfu þeirra að ræða þannig að þeir mundu ekki þurfa að bera skarðan hlut frá borði.

Ég sé ekki ástæðu, herra forseti, til þess að fjölyrða frekar um þetta frv. á þessu stigi, þetta nytsama mál, en lýk hér með máli mínu.