04.11.1985
Efri deild: 11. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 367 í B-deild Alþingistíðinda. (307)

88. mál, iðnaðarlög

Árni Johnsen:

Virðulegi forseti. Vegna ummæla hæstv. iðnrh. og hv. 2. þm. Austurl. um hugsanlegan vilja erlendra aðila til reksturs á Íslandi finnst mér ástæða til að auka nokkrum atriðum inn í umræðuna.

Hæstv. iðnrh. talaði um það grundvallaratriði að þegar menn gerðu samninga væri eðlilegt að báðir vildu hagnast og græða. Þetta er rétt. Það er líka einföld skýring og eðlileg hjá hæstv. iðnrh. að Íslendingar eigi að geta horft óttalaust framan í hvern sem er. En gróði og hagnaður geta verið á margan hátt og þau ummæli sem hv. þm. Helgi Seljan hafði um Morgunblaðið voru undarlegur útúrsnúningur.

Það er lögð áhersla á að við veljum okkur vini sjálf. Við veljum okkur bandamenn, við veljum okkur stjórnkerfi, við veljum þá leið sem við viljum fara sjálf. Það er í ljósi þess sem við þurfum sérstaklega að horfa vel til allra atriða þegar komið er að milliríkjasamningum. Það er í ljósi þess sem Morgunblaðið veik að þeim orðum að það væri sérstök ástæða til að skoða hugsanlega þátttöku Sovétmanna í beinum rekstri á Íslandi.

Það er undarlegt með hv. þm. Helga Seljan, með þennan bjarta og fagra svip, að í hvert skipti sem hann tekur sér orð Sovétþjóðarinnar í munn gruggast upp í kringum hann og svipurinn gruggast, þessi heiðríkjusvipur. Það ber að harma. Það er auðvitað í ljósi slíks gruggugs vatns sem hv. þm. segir að Morgunblaðið leggi aðaláherslu á erlend áhrif á stóriðju á Íslandi. Þetta er auðvitað slík fásinna að sem Morgunblaðsegg, gamalt eða nýtt, er ekki hægt að sitja undir slíku.

Það eru liðlega 200 vitar í kringum Ísland. Við getum í samskiptum þjóðanna líkt Íslandi við eina af þessum vitabaujum, sem eru kringum landið, sem hafa sterkar ankerisfestar og eiga að lýsa svo dugi. Auðvitað er Morgunblaðið einn af traustustu ankerisþáttunum í íslensku þjóðfélagi um leið og það er lýsandi. Um þetta er ég viss um að hv. þm. Helgi Seljan er mér sammála þegar á allt er litið. Það er auðvitað þetta ankeri sem stendur vörð fyrst og fremst um íslenskt hugvit, íslenska menningu og íslenskt þjóðlíf. Það er ástæðulaust að snúa þannig ósannindum upp á okkar eigin menn.

Það var hér til umræðu fyrr í dag annað frv., um kynfræðslu, um ákveðna sjúkdóma sem menn óttast. Það er kannske á sama grunni sem menn óttast sum þjóðfélög þó ekki sé líku saman að jafna. Menn treysta misjafnlega mönnum, þjóðum. Við skulum ekki vera þau börn að halda að þarna geti ekki verið um pólitískan ávinning að ræða jafnt sem efnahagslegan og ekki síður þegar slíkar spurningar koma upp. Það er ástæðulaust að fela það á bak við orðskrúð.

Menn eiga að viðurkenna það sem er þó heilt og rétt og það hlýtur hv. þm. Helgi Seljan að geta gert varðandi þann stíl Morgunblaðsins að standa vörð um íslenska hagsmuni.

Einar J. Gíslason, forstöðumaður Fíladelfíusafnaðarins, er frægur ræðumaður á voru landi. Hann vitnar títt í hina helgu bók, Biblíuna, en að öðru jöfnu í Morgunblaðið. Einu sinni varð honum á í messunni og hann vitnaði í Tímann, að það hefði verið rétt sem þar stæði. Honum varð augnablik orðs vant, en sagði síðan: „Ja, þeir verða að eiga það sem þeir eiga.“ Og hversu mikið sem hv. þm. Helgi Seljan hefur Morgunblaðið á heilanum ætti hann að hafa manndóm til að viðurkenna að þar er á ferðinni eitt traustasta ankerið í íslensku þjóðlífi og íslenskri menningu.