02.04.1986
Neðri deild: 70. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3419 í B-deild Alþingistíðinda. (3070)

368. mál, selveiðar við Ísland

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Það er ástæða til þess að ræða þetta frv. til l. um selveiðar við Ísland í nokkrum orðum hér við 1. umr. Þetta mun vera í þriðja sinn sem reynt er að fá þetta frv. samþykkt á Alþingi. Ég tel fulla nauðsyn á því að þetta mál sé skoðað vandlega og frv. fái þinglega meðferð. Það er svo sjálfsagt mál.

En það er rétt að virða frv. örlítið fyrir sér. Í 1. gr. er sagt að sjútvrn. eigi hér eftir að hafa yfirumsjón allra mála er selveiðar varða. Ég ætla ekki að blanda mér í þetta þó að ég sjái hins vegar ekki brýna nauðsyn á því að þessi mál hafi vistaskipti í ráðuneytunum því að þau hafa mjög lengi heyrt undir landbrn.

Þá er vikið að því í 2. gr. að Hafrannsóknastofnunin skuli annast rannsóknir á selum við Ísland. Það er auðvitað bráðnauðsynlegt að rannsaka þessi mál vel. Sannleikurinn er sá að ranns5knir í þessum efnum eru allt of skammt á veg komnar. Þess vegna ber að fagna því, hver svo sem fer með yfirumsjón þessara mála, að lögð verði megináhersla á raunhæfar rannsóknir hvað þessi mál varðar.

Þetta frv. er lítt breytt frá því sem var á síðasta þingi. Þó eru 2. gr. og 3. gr. nokkuð breyttar. Ég verð að segja að ég tel 3. gr. mun betri eins og hún lítur nú út heldur en hún var í frv. frá síðasta þingi, þ.e. að sjútvrn. skuli hafa samvinnu við landbrn. og samráð við Náttúruverndarráð og fleiri aðila. Með þessu á ég við að sjútvrn. hafi raunhæfa samvinnu og raunverulegt samráð við þessa aðila en ekki bara til málamynda. Þessa breytingu tel ég tvímælalaust til bóta.

Þá er í 4. gr. ákveðið, svo sem sjálfsagt er, að landeiganda einum séu heimilar selveiðar og ráðstöfunarréttur þeirra í landareign sinni, eins og verið hefur frá fornu fari og er m.a. meginreglan í veiðitilskipuninni frá 1849. En þá kemur hér ákvæði um það að þegar land liggi að sjó, þá eigi landeigandi selveiðar 115 metra á haf út frá stórstraumsfjörumáli fyrir landi sínu. Það eru hin svokölluðu netlög.

Hér verð ég að víkja að því að þetta frv. er sjálfsagt viðkvæmt mál víða um land, en þó sennilega hvergi eins og á Breiðafirði. Við höfum margir lagt áherslu á að friða Breiðafjörðinn sem mest, vernda hann, kanna lífríki hans og nú nokkuð mörg síðustu ár hefur nefnd verið starfandi á því sviði. Ég vona að þeim störfum hennar miði vel áfram. Hins vegar er á það bent að nauðsynlegt sé að fækka selnum og þá sérstaklega undirstrikað að hann sé svo mikill skaðvaldur að því er varðar okkar meginatvinnúveg, sjávarútveginn, að ekki megi láta undir höfuð leggjast að fækka honum.

Nú er það svo að um Breiðafjörð gilda lög nr. 30 frá 27. júní 1925, þ.e. um selaskot og uppidráp. Samkvæmt þeim eru öll selaskot á Breiðafirði bönnuð innan línu sem hugsast dregin frá Eyrarfjalli sunnan fjarðar um Stagley, Oddbjarnarsker og í Bjargtanga. Innan við þessa línu eru öll selaskot bönnuð samkvæmt núgildandi lögum. Þetta er að vísu nokkuð hörð regla. Ég býst við að þessi lög standist á engan hátt dóm þeirra sem leggja áherslu á fækkun sela. Á hinn bóginn er á það að líta að þessi regla er mjög gömul, aldagömul má segja, og þessi lína hefur ekki alltaf verið á sama stað svo að það er afskaplega eðlilegt að Breiðfirðingar hyggi vandlega að þessu efni, hvort þessi regla skuli nú lögð niður eftir að hafa gilt um aldir.

Ég tók það upp hjá sjálfum mér, bæði í fyrra og eins nú, að senda öllum sýslumönnum við Breiðafjörð frv. og biðja þá um umsögn. Ég hef rætt þetta við þá alla þrjá, sýslumanninn á Patreksfirði, í Búðardal og Stykkishólmi, og á von á umsögn þeirra hið bráðasta. Ég get vel fallist á að nauðsynlegt sé að taka þessi mál til skoðunar og setja einhverjar hömlur við offjölgun sela - jafnvel á þessu svæði sem á samt að njóta mikils friðar í mínum augum. En þá kemst ég ekki hjá því að hugleiða að þó að eyjarnar á Breiðafirði - og þá hef ég sérstaklega í huga Vestureyjar og raunar Suðureyjar líka - séu margar í einkaeign, og þó að þær séu taldar óteljandi eru víða á milli þeirra breiðari sund en 230 metrar. Og þá kemur spurning: Á að heimila hverjum sem er að skjóta sel í þessum álum, sem verða milli netlagna eyjanna, milli landeigenda inn um allan fjörð? Þetta er ég hræddur við. (HG: Hver á að fylgjast með?) Hver á að fylgjast með? Og er ekki full ástæða til þess að álykta sem svo að við getum átt von á skotglöðum mönnum úr öllum áttum, sem þræða þessa ála inn um allan Breiðafjörð og innfirði hans, jafnvel þó að þeir stundi ekki beran veiðiþjófnað í eyjunum og netlögnum þeirra? (Gripið fram í: Hví ekki?) Undir þennan leka tel ég að verði að setja með einhverju móti. Ég veit að þessi mál hafa iðulega á liðnum áratugum og öldum verið rædd m.a. í sýslunefndum á þessu svæði og þess vegna hygg ég gott til að fá álit sýslumanna við Breiðafjörð á þessu frv.

Það er ekki hægt að neita því að hlunnindi af sel hafa verið mjög veruleg á liðnum árum og áratugum fyrir hina einstöku bændur og eigendur þeirra landa sem þarna er um að ræða. Það segir að vísu að hvergi skuli skerða þessi réttindi hinna einstöku landeigenda. Við vitum að nú að undanförnu hefur sala á selskinnum verið miklum annmörkum háð en það er ekkert sem segir að sú sala kunni ekki að aukast í framtíðinni og þetta verði verðmeiri auðlindir eða hlunnindi en verið hafa nú um skeið. Það eru engar líkur á því að hin fræga franska leikkona Bardot verði eilíf frekar en önnur mannanna börn.

Mikill áróður hefur verið hafður uppi gegn selveiðum, við vitum það, hér og hvar. En nú blasir það við að hægt er að nýta selinn, sem veiddur er, í heilu lagi, selja skrokkana til loðdýraræktenda. Ég held að þetta sé talið mjög hollt fóður fyrir loðdýr, og það er ekki hægt að loka augunum fyrir því.

Ég ætla ekki að lýsa yfir stóryrtum andmælum gegn þessu frv. á þessu stigi en ég tel alveg brýna nauðsyn bera til þess að það verði skoðað vandlega og þá alveg sérstaklega þar sem rætt er um tengsl milli sels og hringorms í fiski. Þetta atriði er því miður allt of lítið rannsakað. En vonandi taka Íslendingar sig á í því efni eins og öðru áður en langir tímar líða.

Hv. 2. þm. Reykn. talaði um selinn sem syndasel, þó góðlátlega, en að sjálfsögðu hafði hann í huga þá þjóðarhagsmuni sem alltaf þarf að virða og meta þegar svona mál eru rædd. Hv. 7. þm. Reykv. ræddi um hringorminn sem hið versta böl, og svo sannarlega er hann það, og að hringormatínsla og allir þeir snúningar og óhemjuvinna sem verður í kringum hana skipti afkomu sjávarútvegs og fiskvinnslu gífurlegu máli. Svo sannarlega er full ástæða til þess að taka undir orð hans að þessu leyti. Önnur hlið málsins er svo sú fagurfræðilega, e.t.v. sumra líffræðinga, sem sjá fegurð lífsins eða ljós heimsins í einu selsauga og er ekki nema gott um það að segja.

Ég vil leggja sérstaka áherslu á það að nauðsyn sé að rannsaka þessi mál öll betur, skoða þau mjög vandlega í þeirri nefnd sem fær þetta frv. til athugunar. Ég vil alveg sérstaklega biðja hv. nm. að hafa í huga og gefa gaum að sérstöðu Breiðfirðinga í þessum efnum og það sem ég lagði höfuðáherslu á í máli mínu nú rétt fyrir stuttu, að ég er afskaplega hræddur við það að fá skotglaða menn á selaveiðum inn um allan Breiðafjörð og innfirði hans - jafnvel þó þeir virði landareignir og netlög. Ég býst raunar við að hæstv. sjútvrh. geti haft þessi mál nokkuð í hendi sér ef við lítum á 6. gr. frv., en eigi að síður hlýt ég að leggja sérstaka áherslu á þetta mál, þetta atriði, svo og það að nefndin skoði þetta mál vandlega á þeim skamma tíma sem nú er eftir af þingi.