04.11.1985
Efri deild: 11. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í B-deild Alþingistíðinda. (308)

88. mál, iðnaðarlög

Flm. (Björn Líndal):

Virðulegi forseti. Þetta hafa verið fróðlegar umræður fyrir mig, sem ekki hef setið lengi á þingi, og það er af mörgu að taka.

Ég mundi fyrst vilja víkja máli mínu að ummælum hv. þm. Karls Steinars Guðnasonar þar sem hann spurðist fyrir um stefnu Framsfl. varðandi fjárfestingu erlendra aðila í atvinnufyrirtækjum.

Í stjórnmálaályktun sem miðstjórnarfundur Framsfl. gerði 19.-21. apríl á þessu ári kemur fram að næstu skref á sviði nýsköpunar í atvinnulífi séu ein sjö talsins. Það fimmta sem er nefnt lýtur að erlendum fjárfestingum. Þar segir, með leyfi forseta:

„Leitað verði leiða til að örva samvinnu innlendra og erlendra fyrirtækja í nýjum atvinnugreinum þar sem Íslendingar geta öðlast reynslu og þekkingu á sviði háþróaðra tækni- og markaðsmála.“

Til viðbótar við þessa samþykkt miðstjórnarinnar hafa ungir framsóknarmenn tekið dýpra í árinni í sínum málflutningi um þessi mál.

Stefna Framsfl. í dag er því sú sem ég las upp úr stjórnmálaályktuninni. En mér leikur hugur á að vita hver sé eiginlega stefna Alþfl. Mér sýnist að Alþfl. hafi frá árinu 1969 til ársins í ár frekar litið svo á að tíminn gengi aftur á bak en áfram því að árið 1969 var það fyrrv. formaður Alþfl., dr. Gylfi Þ. Gíslason, sem flutti frv. hér á Alþingi um breytingu á lögum um verslunaratvinnu og gerði það frv. ráð fyrir að ráðherra gæti veitt undanþágu frá ákvæðum laganna um ríkisborgara, ríkisfang og búsetu þeirra manna sem verslunarrekstur stunda hér á landi, enda stæði sérstaklega á. Ég get uppfrætt hv. þm. um að það orðalag sem ég hef valið á frv. á þskj. 98 er beinlínis tekið eftir frv. sem þáverandi formaður Alþfl. flutti á þingi. Það stendur því eiginlega nær hv. þm. að skýra stefnu Alþfl., sem tekur greinilega örum breytingum á þessu sviði sem öðrum, en ég sé að skýra stefnu Framsfl. frekar.

Ég vil líka taka það fram að mér er alls ókunnugt um það frv. að nýjum iðnaðarlögum sem hæstv. iðnrh. nefndi að lokið hefði verið við að semja á þessu ári, en það er vissulega jákvætt ef slíkt frv. er á leiðinni og tekur til erlendrar fjárfestingar í atvinnufyrirtækjum.

Ég vík síðan að því sem hv. þm. Helgi Seljan sagði hér áðan þar sem hann lagðist gegn þeim megináherslum sem hann telur að komi fram í frv. Ég vil upplýsa að vinaflokkar Alþb. í Vestur-Evrópu eru annarrar skoðunar en hv. þm. Ef þeir væru starfræktir hér á landi mundi hv. þm. vafalaust kalla þá frjálshyggjuflokka eða einhverju slíku heiti.

Í viðtali sem birtist við franska fjármálaráðherrann í desemberblaði Newsweek 1984 kemur fram - og hér er um að ræða ráðherra í stjórn núverandi Frakklandsforseta - að hann hafi tekið á sínum valdaferli ýmis skref til að greiða fyrir erlendri fjárfestingu í Frakklandi. Hann segir að hann muni halda áfram á þeirri braut.

Annar vinaflokkur Alþb., sænskir sósíaldemókratar, hefur líka verið hlynntur erlendri fjárfestingu í Svíþjóð og gefið út myndarlegan bækling fyrir erlenda aðila þar sem upplýst er um öll þau atriði sem máli skipta til þess að menn geti tekið a.m.k. frumákvarðanir um hvort þeir eigi að fjárfesta í Svíþjóð. Ekki er það því á grundvelli vinstrimennsku sem hv. þm. lætur skoðun sína í ljós á þessu frv.

Það gæti legið hans sjónarmiði til grundvallar ákveðin þjóðerniskennd, hætta á því að Íslendingar tapi menningu sinni ef þeir umgangist erlenda aðila of mikið. Ég held að þetta sé hræðsla. Ég held að við töpum hvorki menningu okkar né að við missum tökin á okkar efnahag þótt erlendir aðilar taki aukinn þátt í atvinnulífi hér á landi. Efnahagslegt sjálfstæði er nefnilega ekki það sama og efnahagsleg einangrunarstefna. Það sem mér fannst hv. þm. vera að boða bar keim af einangrunarstefnu sem segir allt erlent vera af hinu vonda. Ég held að það gæti mikils misskilnings á þessu sviði. Og ef það er umhyggja fyrir iðnaðinum sem hv. þm. er að ýja að vil ég aftur vísa til þeirrar umsagnar sem Félag ísl. iðnrekenda gaf þegar þáltill. var hér til umræðu um fjárfestingu erlendra aðila. Með leyfi forseta langar mig til að lesa upp úr þeirri tillögu. Þar segir:

„Um þessar mundir setja aukið alþjóðlegt samstarf fyrirtækja, aukin alþjóðaviðskipti, harðnandi samkeppni og ör tæknivæðing mjög svip sinn á efnahagsþróun í heiminum. Þetta felur í sér að tækniþekking, vöruþróun og markaðsmál verða lykilatriði í rekstri fyrirtækja í nánast hvaða atvinnugrein sem er. Íslenskum fyrirtækjum er nauðsynlegt að tileinka sér sem best alla þessa þætti ef þau eiga að standast samkeppni víð erlenda keppinauta, hvort sem er á innlendum eða erlendum markaði. Starfsemi erlendra fyrirtækja á Íslandi gæti beint og óbeint fært þekkingu á þessum sviðum til íslenskra fyrirtækja. Að því leyti gæti starfsemi erlendra fyrirtækja á Íslandi haft jákvæð áhrif á íslenskt atvinnulíf, auk þess sem þau gætu aukið á fjölbreytni íslensks atvinnulífs. Æskilegt væri að sem flest erlend fyrirtæki, sem hingað vildu koma, tækju upp samvinnu við íslensk fyrirtæki.“

Og í lokin segja þeir: „Félag ísl. iðnrekenda tekur undir efni áðurgreindrar þáltill. og þau sjónarmið sem sett eru fram í greinargerð.“

Þetta held ég að sýni vel að það er ástæðulaust að ætla að íslenskir iðnrekendur séu því ósammála að erlendum aðilum verði gefinn kostur á að eignast meira en 49% af hlutafé í iðnfyrirtækjum hér á landi. Það er, eins og komið hefur fram í máli margra hv. þm. hér í þessum umræðum, ekki lagt til í þessu frv. að menn geti komið hér inn án þess að spyrja nokkurn aðila. Það er lagt til að iðnrh. veiti undanþágur frá meginreglunni sem verður áfram að íslenskir aðilar skuli eiga meiri hluta í iðnfyrirtækjum. Að fara fyrir Alþingi í hvert sinn með slík mál er of umfangsmikið, ekki síst ef um er að ræða smá eða meðalstór fyrirtæki sem ég hygg að þetta frv., ef að lögum verður, mundi helst koma að gagni.

Ég mun ekki hafa fleiri orð um það sem hér hefur komið fram en vísa til þess sem kom fram í minni framsögu og þeim athugasemdum sem fylgja frv. Að lokum vil ég undirstrika það, svo að það fari ekki á milli mála, að vitaskuld mundu þau fyrirtæki sem stofnuð yrðu hér á Íslandi vegna þessa frv., ef það yrði að lögum, og væru í meirihlutaeign útlendinga lúta íslenskum lögum og lögsögu. Um það er engin spurning þrátt fyrir samþykkt frv.