03.04.1986
Neðri deild: 71. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3448 í B-deild Alþingistíðinda. (3089)

365. mál, lausaskuldir bænda

Frsm. meiri hl. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Þetta er í raun og veru sama málið. Það er um það að færa megi til frá veðdeildinni lausaskuldaflokka, fjóra að tölu, til Stofnlánadeildarinnar. Vísa ég til þess sem ég sagði í framsöguræðu minni gagnvart Stofnlánadeildarfrv.

Á þskj. 695 er nál. frá landbn. sem mælir með því að frv. verði samþykkt óbreytt. Fjarstaddir afgreiðslu málsins voru þeir hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og Kjartan Jóhannsson.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ræddi áðan um forfallaþjónustuna. Það kemur inn í verðið. Þessar 25 millj. eru ekki lengur framlag bændanna heldur var tekið upp í samninga síðast að það kemur inn í verðið á vörunni. Það er ekki nema hálft prósent nú sem er tekið af kaupi bóndans.

Fiskeldið er áætlað 250 millj. Það er alveg sérfjármagn og ég hef von um að Stofnlánadeildin fái fjármagn af því til að sinna þeim þætti og vonandi hærri upphæð en 20-40 millj. á þessu ári þó að ég geti ekki fullyrt um það hér.

Ég hugsa að hv. þm. hafi mismælt sig hvað snertir gengismun. Hann sagði Stofnlánadeild. Þetta er gagnvart veðdeildinni en ekki Stofnlánadeildinni. Ég gat um í minni framsöguræðu áðan að það væri ætlunin að reyna að fá dollaralán, vegna þess að bændur eru með sín lán í dollurum, til þess að það sé engin áhætta fyrir Stofnlánadeildina vegna yfirtöku á þessum lausaskuldaflokkum.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri.