03.04.1986
Neðri deild: 71. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3448 í B-deild Alþingistíðinda. (3090)

365. mál, lausaskuldir bænda

Frsm. minni hl. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Á þskj. 712 er prentað minnihlutaálit landbn. og þar er vísað til nál. við 364. mál og þeirra fyrirvara sem þar eru á hafðir um samþykkt þessa frv. og þarf ég í sjálfu sér ekki að bæta neinu við það.

Ég vil segja í sambandi við forfalla- og afleysingaþjónustuna að það liggur fyrir, hvort sem bændum verður að einhverju leyti bætt þetta í gegnum verð landbúnaðarvara, að þessar byrðar færast yfir á Stofnlánadeild og verða að útgjöldum upp á ekki minna en 25 millj. kr. á þessu ári hjá Stofnlánadeild og kemur þar af leiðandi beint inn í fjárhagsstöðu deildarinnar sem slíkrar sem útgjöld. Það er auðvitað það sem ég var að vekja sérstaklega athygli á að væri óhjákvæmilegt að hafa í huga þegar verið væri að ræða um möguleika Stofnlánadeildar á þessu sviði.

Ég held reyndar að það sé ekki neitt til þess að fagna, herra forseti, þó að forfalla- og afleysingaþjónusta komi inn í vöruverð landbúnaðarvaranna. Nógu erfiðar hafa mönnum þótt ýmsar hækkanir á því sviði. Ég held að það hefði verið miklu eðlilegra að hafa þetta áfram með því fyrirkomulagi sem var. Þetta framlag kæmi úr ríkissjóði og yrði þá ekki til að hækka landbúnaðarvörurnar og ekki heldur til að íþyngja fjárhag Stofnlánadeildar landbúnaðarins. Ég hef þá tilfinningu, hversu bjartsýnir sem aðrir kunna að vera hér, að hún muni á næstu árum eiga nóg með sitt, sú ágæta Stofnlánadeild, og í raun og veru mætti fjárhagur hennar vera talsvert blómlegri en hann er í dag og væri samt nóg þörf fyrir það sem hún gæti lagt af mörkum til að bæta fjárhagsstöðu íslenskra bænda.

Umr. (atkvgr.) frestað.