03.04.1986
Neðri deild: 71. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3449 í B-deild Alþingistíðinda. (3091)

312. mál, verkfræðingar

Iðnrh. (Albert Guðmundsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 73 frá 9. okt. 1968, um rétt manna til að kalla sig verkfræðinga, húsameistara, tæknifræðinga eða byggingafræðinga. Frv. hefur þegar hlotið meðferð hv. Ed. og hlaut þar einróma samþykki allra nefndarmanna hv. iðnn. þeirrar deildar.

Í frv. er lagt til að starfsheitið húsgagna- og innanhússhönnuður verði lögverndað með sama hætti og er um fyrrgreindar starfsstéttir.

Í upphafi er rétt að taka fram að tilgangur laganna er sá að tryggja þeim mönnum sem hafa aflað sér tiltekinnar menntunar á sérsviði rétt til starfsheitis. Með þessu er tryggt að þeir einir sem aflað hafa sér tiltekinnar menntunar fá leyfi ráðherra til að nota lögverndað starfsheiti. Í lögunum er jafnframt öðrum bannað að nota hið lögverndaða starfsheiti. Þeir sem skipti eiga við þær starfsstéttir sem hafa lögverndað starfsheiti geta þar með treyst því að þær hafa aflað sér þeirrar lágmarksmenntunar sem tilskilin er í lögunum.

Í lögunum er viðkomandi starfsstéttum, sem rétt eiga til starfsheitis, ekki jafnframt veittur einkaréttur til starfa á viðkomandi sviði. Rétturinn til starfsheitis tryggir þá sem aflað hafa sér tiltekinnar lágmarksmenntunar gegn ágangi á starfsheiti án þess að þeim sé jafnframt tryggður réttur, hvað þá einkaréttur, til viðkomandi starfs. Rétt þykir að ítreka þetta hér í upphafi þar sem misskilnings hefur gætt um eðli þessara laga.

Hvað varðar efni þessa frv. um húsgagna- og innanhússhönnuði er rétt að minna á að frv. sama efnis var áður flutt á 94. löggjafarþingi 1973, mál nr. 16, en það frv. náði einnig til auglýsingateiknara. Frv. náði þá ekki fram að ganga vegna ákveðinnar andstöðu við lögverndun starfsheitisins „auglýsingateiknari“.

Árið 1955 stofnuðu húsgagnaarkitektar með sér félag undir nafninu Félag húsgagnaarkitekta. Nafni félagsins var síðan breytt í Félag húsgagna- og innanhússarkitekta og hefur það starfað undir því nafni síðan. Í félaginu eru nú um 60 félagar.

Ástæður fyrir því að nú er lagt til að breyta nafni stéttarinnar í húsgagna- og innanhússhönnuði eru eftirfarandi:

1. Ýmislegt bendir til að starfsheitið „arkitekt“ fáist ekki lögverndað undir íslenskum lögum hvort sem það stendur eitt sér eða í samsetningu. Þannig hafa t.d. félagar í Arkitektafélagi Íslands hið lögverndaða starfsheiti „húsameistari“.

2. Þegar Félag húsgagnaarkitekta var stofnað var ekki í almennri notkun á Íslandi hugtak sem nægjanlega vel þótti taka yfir hið erlenda hugtak „design“. Auk þess voru félagsmenn, og eru enn, útskrifaðir úr námi sínu, sem flestir sóttu til Norðurlanda, sem „möbelarkitekt“. Á síðari árum hefur námið verið sótt í nokkrum mæli til landa þar sem „designer“ er starfsheiti stéttanna. Íslenska hugtakið „hönnun“ er nú almennt notað í sömu merkingu og „design“. Búast má við enn aukinni notkun þess í íslensku máli á komandi árum. Í ljósi þessa þykir rétt að taka upp hið íslenska heiti „hönnuður“ sem starfsheiti.

Frv. þetta er flutt að tilmælum Félags húsgagna- og innanhússhönnuða og hefur verið haft fullt samráð við stjórn þess um efni frv.

Vernd starfsheita á verkfræði- og tæknisviði á sér nokkra sögu hér á landi. Sérstök lög um rétt verkfræðinga, húsameistara eða iðnfræðinga til starfsheitis voru fyrst sett 13. júní 1937, nr. 24. Þeim lögum var svo breytt með lögum nr. 44 3. apríl 1963 og var aðalbreytingin á þann veg að starfsheitið „iðnfræðingur“ var fellt niður og heitið „tæknifræðingur“ tekið upp í staðinn. Á næstu árum kom í ljós að vissir agnúar voru á að láta það starfsheiti gilda fyrir þá sem lokið höfðu prófi frá byggingafræðiskólum í Noregi eða Danmörku og hliðstæðum skólum. Var því horfið að því ráði að breyta lögunum á ný og tekið inn starfsheitið „byggingafræðingur“ á ný og voru núgildandi lög þess efnis gefin út, nr. 73 9. okt. 1968.

Í þessu sambandi er rétt að vekja athygli á aukinni þýðingu iðnhönnunar fyrir þróun iðnaðar hér á landi. Nýjar framleiðslugreinar geta sprottið af góðri hönnun tiltekinna húsgagna eða annarra muna, svo sem nýleg dæmi sanna. Eðlilegt er að styðja þessa starfsgrein og efla starfsskilyrði hennar.

Tengd þessu máli er enn fremur aukin réttarvernd hugverka á sviði iðnaðar. Í iðnrn. er nú verið að vinna að gerð frv. um mynsturvernd er varðar réttarvernd fyrst og fremst í iðnhönnun. Enn fremur er verið að athuga möguleika á vernd svokallaðra smáeinkaleyfa, en það er vernd á notagildi tiltekinnar hönnunar, og að því leyti ólíkt beinum einkaleyfum. Vonast ég til að geta lagt fyrir Alþingi það sem nú situr nánari grg. um aukna réttarvernd á hugverkum á sviði iðnaðar.

Ekki er ástæða til að fjölyrða nánar um efni þessa frv. Því fylgja ýmis skjöl er varpa ljósi á það. Að lokinni 1. umr. legg ég til að frv. verði vísað til hv. iðnn. og 2. umr.

Umr. (atkvgr.) frestað.