07.04.1986
Efri deild: 70. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3471 í B-deild Alþingistíðinda. (3106)

396. mál, framleiðsla og sala á búvörum

Landbrh. (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 46 27. júní 1985, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum.

Í 1. gr. þeirra laga segir m.a. að það sé tilgangur þeirra að framleiðsla búvara til neyslu og iðnaðar verði í sem nánustu samræmi við þarfir þjóðarinnar og tryggi ávallt nægjanlegt vöruframboð við breytilegar aðstæður í landinu. En vegna náttúrufars og legu landsins er ekki unnt að tryggja nægjanlegt framboð allt árið á vissum tegundum búvara, t.d. garðávöxtum, grænmeti og oft kartöflum vegna þess að árferði er þá líka misjafnt. Verður þá að flytja þessar vörur inn, en í ýmsum tilvikum eru hinar erlendu vörur greiddar verulega niður af þarlendum stjórnvöldum. Að vísu lækkar oft verð þegar innlend framleiðsla kemur á markað, eins og gerist á vorin þegar gúrkur og tómatar koma á markað, en með aðrar tegundir er þessu öfugt farið og þá af fyrrnefndum ástæðum. En þegar innlend framleiðsla er enn á markaði en innflutningur þarf samt að verða raskar innflutningur á lægra verði mjög samkeppnisaðstöðu innlendu framleiðslunnar og skerðir möguleika innlendra framleiðenda til að tryggja nægjanlegt vöruframboð í framtíðinni. Þessar aðstæður hafa m.a. gert innlendum fyrirtækjum sem vinna úr kartöflum erfitt fyrir í samkeppni við niðurgreidda erlenda framleiðslu.

Í frvgr. er lagt til að landbrn. verði veitt heimild til að leggja sérstakt jöfnunargjald á innfluttar búvörur sem lið í stjórn búvöruframleiðslunnar og ná þannig fram áðurgreindum tilgangi laganna.

Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. landbn.