07.04.1986
Efri deild: 70. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3472 í B-deild Alþingistíðinda. (3108)

396. mál, framleiðsla og sala á búvörum

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Mér finnst skorta allar skýringar frá hæstv. landbrh. um nauðsyn þess að innheimta þetta sérstaka jöfnunargjald af innfluttum búvörum. Það stendur að vísu í athugasemdum við þetta lagafrv.:

„Vegna náttúrufars og legu landsins er ekki unnt að tryggja nægjanlegt vöruframboð allt árið á vissum tegundum búvara, t.d. garðávöxtum, grænmeti og oft kartöflum. Verður því að flytja þessar vörur inn, en í ýmsum tilvikum eru hinar erlendu vörur greiddar niður verulega af þarlendum stjórnvöldum. Þegar innlend framleiðsla er enn á markaði raskar innflutningur þessara vara því mjög samkeppnisaðstöðu innlendu framleiðslunnar og skerðir möguleika innlendra framleiðenda til að tryggja nægjanlegt vöruframboð í framtíðinni.“

Hvernig ber að skilja þetta? Ég óska eftir því að hæstv. landbrh. skýri þetta.

„Þessar aðstæður hafa m.a. gert þeim innlendu fyrirtækjum sem vinna úr kartöflum erfitt fyrir í samkeppni við niðurgreidda framleiðslu erlendis frá.“

Hér er um allt annað að ræða en grænmeti. Hér er um að ræða unnar vörur. Mér sýnist að með þessu eigi enn að fara að hygla þeim gæluverkefnum sem þessar kartöfluverksmiðjur eru og það eigi að ganga enn á hlut neytenda. Það væri fróðlegt að fá frekari skýringar á þessu og hvað það er hár skattur sem ætlunin er að leggja á neytendur með þessum lögum, hvað það sé áætlað t.d. í krónum. En það gefst tækifæri til að fá upplýsingar um þetta í þeirri nefnd sem um málið mun fjalla undir ágætri forustu hv. 11. landsk. þm. sem væntanlega er ekki allsendis ókunnur þessum málum. En hér skortir mjög á allar skýringar og þetta er enn eitt dæmi um að hér á að fara að leggja viðbótarskatt á neytendur.