07.04.1986
Efri deild: 70. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3473 í B-deild Alþingistíðinda. (3109)

396. mál, framleiðsla og sala á búvörum

Landbrh. (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Tilgangur þessa frv. er, eins og ég sagði, að jafna verð milli innfluttrar og innlendrar framleiðslu og að sjálfsögðu mundi það álag sem kæmi á hina innfluttu vöru verða til þess að lækka verð hinnar innlendu framleiðslu á móti þannig að heildarútkoman fyrir neytendur ætti þá að vera hin sama. En í þeim tilvikum þegar ekki er nægjanlegt framboð á innlendu vörunni en þó nokkuð af henni á markaði, eins og gerist árlega með suma gróðurhúsaframleiðslu, er vitanlega ákaflega erfitt þegar innflutta framleiðslan er vegna niðurboðs erlendis á miklu lægra verði en hin innlenda framleiðsla. Ef þannig væri komið í veg fyrir að innlendir framleiðendur gætu losnað við sínar vörur á vissum árstímum gerir það þeirra samkeppnisstöðu til frambúðar lakari. Ég held að það ætti mönnum að vera augljóst.

En eins og hv. 5. landsk. þm. sagði mun landbn. fjalla ítarlega um þetta mál og þá mun formaður hennar að sjálfsögðu afla allra þeirra upplýsinga sem óskað er eftir um það.