07.04.1986
Efri deild: 70. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3475 í B-deild Alþingistíðinda. (3113)

350. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breytingu á lögum um útflutningsgjald af sjávarafurðum.

Þær breytingar sem hér er fjallað um eru í fyrsta lagi að leitað er heimildar til að halda áfram niðurfellingu á útflutningsgjaldi af fóðurlýsi með sama hætti og s.l. tvö ár, en það fyrirtæki sem einkum annast framleiðslu á því hefur verið að leita nýrra markaða og hefur þótt eðlilegt að fella niður útflutningsgjald af því meðan svo stendur á, en hér er um tiltölulega litlar fjárhæðir að ræða.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir að Landssamband smábátaeigenda fái hlutdeild í útflutningsgjaldi. Þessi hlutdeild er jafnstór hluti af heildarupphæð til hagsmunasamtaka og nemur áætlaðri hlutdeild útflutningsverðmæta í afla smábáta af heildarútflutningsverðmæti sjávarafurða. Smábátaeigendur hafa vissulega gert kröfu um hærri hlutdeild, m.a. með þeim rökum að opnir bátar eigi ekki aðgang að Úreldingarsjóði og séu ekki skyldutryggðir.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir niðurfellingu útflutningsgjalds af skreið sem framleidd var fyrir 31. des. 1984 og flutt út eftir 1. jan. 1986. Þetta er í samræmi við samþykkt ríkisstj. 18. febr. s.l., en þar var jafnframt ákveðið að falla frá innheimtu gengismunar af skreið.

Nú hefur nefnd sem fjallað hefur um starfsemi sjóða sjávarútvegsins skilað áliti og hefur því frv. verið dreift til þm. til athugunar. Það frv. hefur vissulega nokkur áhrif á frv. sem hér hefur verið lagt fram, en hins vegar er ljóst að þar getur verið um mismunandi gildistíma að ræða og ef það frv. verður lagt fram næstu daga, sem ég vænti, mun sjútvn. Nd. jafnframt fá það til meðhöndlunar og þá mun þurfa að samræma þau tvö frv.

Ég vil að lokinni þessari umræðu leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.