07.04.1986
Efri deild: 70. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3477 í B-deild Alþingistíðinda. (3120)

367. mál, frídagur sjómanna

Flm. (Eiður Guðnason):

Virðulegi forseti. Það er alllangt síðan liðið að íslenskir sjómenn helguðu sér sinn hátíðisdag, fyrsta sunnudag í júnímánuði, og efndu þá til sérstakra hátíðarhalda. Það hefur lengi verið baráttumál íslenskra sjómanna og þeirra samtaka að þessi fyrsti sunnudagur væri almennur frídagur hjá sjómönnum, en á það hefur skort. Það hefur ekki verið svo sem alkunna er. Þessi dagur hefur ekki verið lögskipaður frídagur og þar af leiðandi ekki verið almennur frídagur hjá sjómönnum, enda þótt allmargir sjómenn hafi vissulega átt frí þennan dag.

Ég hreyfði þessu máli í fyrra hér á hinu háa Alþingi og spurði hæstv. sjútvrh. hvort hann hygðist beita sér fyrir því að sjómannadagurinn yrði lögskipaður frídagur og að það gerðist á því þingi sem þá var háð. Í svari sínu sagði hæstv. sjútvrh. m.a.:

„Ég hef, þrátt fyrir mínar yfirlýsingar, ekki viljað beita mér fyrir því á þessu þingi að svo verði, en tel hins vegar sjálfsagt að taka það upp á næsta þingi, enda stutt eftir af þessu þingi og ekki öruggt að slíkt mál næði hér fram að ganga nema mjög góð samstaða væri um það.“

Nú eru eftir u.þ.b. þrjár vikur af þinginu og í lok þessarar viku er liðinn sá frestur sem þm. hafa skv. þingskapalögum til að leggja fram ný mál án þess að afbrigði séu veitt. Það bólar ekkert á frv. til laga um þetta efni frá ríkisstj. Því hef ég ásamt hv. 6. landsk. þm. leyft mér að flytja frv. til laga um frídag sjómanna. Það er eins og áður sagði í beinu framhaldi af því sem sagt var hér á Alþingi í fyrravor.

Þetta frv. er mjög stutt og skýrt og ætti ekki að þurfa að hafa um það mörg orð. 1. gr. þess hljóðar svo: „Fyrsti sunnudagur í júnímánuði ár hvert skal vera almennur frídagur íslenskra sjómanna.“

Og 2. gr.:

„Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Þetta frv. er sniðið eftir öðru frv. sama efnis, frv. um að 1. maí skuli vera almennur frídagur hér á landi, og ástæðulaust að vera með nemar málalengingar í því efni. 1. gr. laganna segir það sem segja þarf.

Hæstv. sjútvrh. tók því vel í fyrra að beita sér fyrir þessu máli og hann hefur raunar í ræðum áður gefið yfirlýsingar um að þetta bæri að gera, en einhverra hluta vegna hefur ekki orðið úr framkvæmdum og væri ekki ófróðlegt, ef hæstv. sjútvrh. er staddur hér í húsinu, að fá skýringar hans og afstöðu til þessa máls. En annars, virðulegi forseti, legg ég til að að lokinni þessari umræðu verði þessu máli vísað til hv. allshn. þessarar deildar og 2. umr.