07.04.1986
Efri deild: 70. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3477 í B-deild Alþingistíðinda. (3121)

367. mál, frídagur sjómanna

Valdimar Indriðason:

Virðulegi forseti. Það frv. sem hér hefur verið lagt fram er ekki mikið að efni til eins og hv. frsm. gat um, en hérna er um stórt og merkilegt mál að ræða. Það hefur verið í mörg ár talað um að tryggja sjómönnum veru í höfn hjá sínum aðstandendum á sjómannadaginn, en það hefur nokkuð vafist fyrir mönnum hvernig framkvæma skuli. Ég held að það sé hægt að finna á þessu lausn nema kannske helst hvað snertir kaupskipin. Við sjáum að það gengur ekki upp að þau hagi siglingum eftir því hvernig á stendur um sjómannadag, enda veit ég að það er ekki meining flm. heldur snertir frv. hinn almenna veiðiskap og þau skip sem þannig háttar til með að ófært er að senda þau á veiðar kannske daginn fyrir sjómannadag eða stilla inn á það að fara út að morgni eftir sjómannadaginn o.s.frv. Þetta ætti að vera hægt að lagfæra.

Ég mæli með því að leitað sé leiða til að koma þessari reglu á. Ég á sæti í þeirri nefnd ásamt flm. sem um þetta mun fjalla. Ég skal leggja því máli lið að við reynum að finna leiðir til þess að þessu sjálfsagða hagsmunamáli sjómanna sé hrundið í framkvæmd.