07.04.1986
Efri deild: 70. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3478 í B-deild Alþingistíðinda. (3122)

367. mál, frídagur sjómanna

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Ég mun, eins og þeir Vestlendingar, styðja þetta frv. og tel reyndar sjálfsagt að sjómönnum verði tryggðir kannske fleiri frídagar en þessi eini. Það er a.m.k. alveg sjálfsagt að þessi frídagur, sem þeir hafa valið sér og búnir að hafa í líkast til 50 ár, sé viðurkenndur. Ætli það hafi ekki verið 1936 eða um það leyti sem sjómannadagur er fyrst haldinn hátíðlegur, en allt þetta tímabil hefur ekki fengist viðurkennt af löggjafanum eða útgerðaraðilum að þessi dagur væri bundinn frídagur sjómanna.

En ég bendi flm. á og nefndinni að það er trúlegt að ekki sé hægt að staðfesta lagagreinina eins og hún er til að tryggja að hinn raunverulegi sjómannadagur verði lögskipaður frídagur vegna þess að upp á fyrstu helgina í júní ber stundum hvítasunnudag og þá hefur sjómannadagurinn verið næstu helgi þar á eftir. Þetta fellur ekki saman þannig að það þarf að taka fram í lagatextanum að þegar þessi dagur kemur upp á hvítasunnudag sé það næsti sunnudagur á eftir.

Eins og ég sagði áðan teldi ég að það ætti, a.m.k. nú um stundir, að tryggja að sjómenn hefðu fleiri lögskipaða frídaga en þennan. Á meðan við skömmtum sjómönnum ákveðið aflamagn til að sækja í sjóinn væri eðlilegt að það væru lögskipaðir frídagar fyrir þessa stétt manna, frídagar sem almenningur í landi telur sjálfsagða, eins og hvítasunna, eins og páskar, eins og 1. maí. Það er nú talið sjálfsagt að sjómenn stundi sjóróðra á þessum dögum og jafnvel jóladaginn sjálfan. Það eru hvergi lög fyrir því að íslenskir sjómenn skuli halda hátíðlegan jóladaginn.

Ég vil vekja athygli á í sambandi við þetta sjálfsagða mál að það er mjög athugandi og við ættum að líta á það, a.m.k. ef svipuð lagasetning um fiskverðsstjórn og nú er í gildi kemur inn á hv. Alþingi eftir tvö ár, þó að við sem nú sitjum hér verðum ekki hér, að það verði bundnir frídagar í tengslum við aflastjórnina.