07.04.1986
Neðri deild: 73. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3481 í B-deild Alþingistíðinda. (3137)

73. mál, varnir gegn mengun sjávar

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þetta frv. um varnir gegn mengun sjávar var flutt snemma á þinginu. Það er samið af nefnd sem í áttu sæti Magnús Jóhannesson siglingamálastjóri, sem var formaður nefndarinnar, Guðmundur Eiríksson, þjóðréttarfræðingur í utanrrn., og Gunnar B. Guðmundsson, hafnarstjóri í Reykjavík. Með nefndinni starfaði sem ritari Gunnar H. Ágústsson, deildarverkfræðingur í Siglingamálastofnun ríkisins. Þessi nefnd skilaði þessu fullbúna frv. með ítarlegum athugasemdum og grg. á s.l. vori og var frv. lagt fyrir hv. Ed. óbreytt frá því sem nefndin lagði til.

Samgrn. annast nú framkvæmd átta alþjóðasamninga sem varða varnir gegn mengun sjávar og Ísland hefur staðfest. Með sérstökum lögum hafa ákvæði sjö þeirra lagagildi hér á landi. Þeir eru:

1. Alþjóðasamþykkt frá 12. maí 1954 um varnir gegn óhreinkun sjávar af völdum olíu, með breytingum frá 1962 og 1969.

2. Alþjóðasamningur frá 15. febr. 1972 um varnir gegn mengun sjávar vegna losunar úrgangsefna frá skipum og flugvélum. Þessi samningur er almennt kallaður „Oslóarsamningurinn“.

3. Alþjóðasamningur frá 29. des. 1972 um varnir gegn mengun hafsins vegna losunar úrgangsefna og annarra efna. Þessi samningur gengur undir heitinu „Lundúnasamningur“.

4. Samningur frá 4. júní 1974 um varnir gegn mengun sjávar frá landstöðvum eða „Parísarsamningurinn“ svonefndi.

5. Alþjóðasamningur frá 29. nóv. 1969 um íhlutun á úthafinu þegar óhöpp koma fyrir sem valda eða geta valdið olíumengun.

6. Alþjóðasamningur um einkaréttarábyrgð vegna tjóns af völdum olíumengunar.

7. Alþjóðasamningur frá 18. des. 1971 um stofnun alþjóðasjóðs til þess að bæta tjón af völdum olíumengunar.

Við staðfestingu 8. samningsins, en það er alþjóðasamningur frá 2. nóv. 1973 um varnir gegn mengun frá skipum, öðru nafni „MARPOL“, var ekki farin sú leið að lögleiða ákvæði samningsins heldur var samgrh. veitt heimild með lögum til að setja reglur um framkvæmd hans.

Í þeirri nefnd, samgn., sem fékk málið til meðferðar í Ed. kom fram í umsögnum sem bárust að nokkur ágreiningur var meðal aðila um málið, m.a. Náttúruverndarráðs og Hollustuverndar ríkisins. Til þess að ná nauðsynlegri samstöðu um málið var það tekið til athugunar að nýju í samgrn. og fjallað um það ásamt fulltrúum þeirra sem þetta mál varðar. Brtt. nefndarinnar eru niðurstaða þeirra viðræðna og um þær varð fullt samkomulag í Ed. nema að því er varðar 10. gr. frv. og þátt olíufélaganna í losun og eyðingu olíuúrgangs.

Brtt. sem samgn. Ed. lagði til má flokka í aðalatriðum í tvennt. Annars vegar eru þau ákvæði er lúta að mengun frá landstöðvum af völdum eiturefna og annarra hættulegra efna og hins vegar ákvæði 10. gr. um móttöku olíuúrgangs.

Þegar þessar brtt. voru lagðar fram var það gert með samþykki allra nefndarmanna þannig að um meðferð málsins náðist mjög góð samstaða og málið fór ágreiningslaust í gegnum Ed. og allar þær breytingar sem gerðar voru á frv. voru gerðar í fullu samráði við samgrn.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. samgn.