04.11.1985
Neðri deild: 12. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 378 í B-deild Alþingistíðinda. (314)

27. mál, barnalög

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Á síðasta Alþingi flutti ég frv. um breytingu á barnalögum þess efnis að ef meðlagsskyldur aðili er ekki á lífi eða af öðrum ástæðum reynist ókleift samkvæmt úrskurði valdsmanns að innheimta framlag samkvæmt ákvæðum barnalaga vegna menntunar eða starfsþjálfunar barns skyldi lífeyrisdeild Tryggingastofnunar ríkisins greiða framlögin. Í frv. var einnig kveðið á um að sama gilti varðandi framlög vegna útgjalda við skírn barns, fermingu, vegna sjúkdóms eða greftrunar eða af öðru sérstöku tilefni, en ákvæði eru í barnalögunum um heimild forsjárforeldris að leita eftir slíkum framlögum frá meðlagsskyldum aðila. Hv. þm. Guðrún Helgadóttir flutti síðan brtt. við frv. um að ákvæði frv. næðu einnig til barna örorku- og ellilífeyrisþega sem notið hafa barnalífeyris.

Það er skemmst frá því að segja að lagt var til af hálfu meiri hluta allshn., sem frv. hafði til meðferðar, að því yrði vísað til ríkisstjórnarinnar með þeim rökum að almannatryggingalöggjöfin væri í endurskoðun, en minni hluti nefndarinnar mælti með samþykkt frv.

Þess er nú freistað að flytja málið aftur í nokkuð breyttri mynd, enda verður að segja að rök meiri hlutans fyrir því að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar á síðasta þingi hafi verið harla léttvæg.

Almannatryggingalöggjöfin hefur verið mörg undanfarin ár í endurskoðun og ekkert liggur fyrir um hvenær þeirri endurskoðun ljúki. Auk þess voru rök meiri hlutans einkennileg þegar um var að ræða frv. um breytingu á barnalögunum en ekki almannatryggingalöggjöfinni.

Flm. að frv. nú ásamt mér er hv. þm. Guðrún Helgadóttir, en í frv. nú hefur verið felld inn brtt. Guðrúnar Helgadóttur frá síðasta þingi þess efnis að ákvæðið nái einnig til barna elli- og örorkulífeyrisþega sem barnalífeyris njóta, auk þess sem ákvæði frv. nú ná einungis til framlaga vegna menntunar og starfsþjálfunar en ekki til framlaga samkvæmt ákvæðum 19. gr. barnalaganna sem kveða á um sérstök framlög vegna útgjalda við skírn barns, fermingu, vegna sjúkdóma eða af öðru sérstöku tilefni. Þau ákvæði eru vissulega mikilvæg fyrir einstæða foreldra, en líta verður svo á að enn brýnna sé að ná fram breytingu á löggjöfinni að því er snertir menntunarframlög til þeirra sem ekki geta leitað til meðlagsskylds aðila með slík framlög. Þess er því freistað, miðað við fyrri afgreiðslu þá sem frv. fékk, að reyna á nýjan leik að ná samstöðu um það ákvæði sem snýr að framlögum vegna menntunar og starfsþjálfunar eingöngu.

Þegar ákvæði barnalaga voru lögfest, sem kveða á um heimild til framlags vegna menntunar og starfsþjálfunar barns til 20 ára aldurs frá meðlagsskyldum aðila, var ekki hugað að því að tryggja sambærilegan rétt eða stuðning við einstæða foreldra og börn þeirra ef meðlagsskyldur aðili er ekki lengur á lífi eða ef af öðrum ástæðum reynist ókleift að innheimta meðlag hjá honum. Tilgangur þessa frv. er að leiðrétta þennan augljósa mismun í kjörum og aðbúnaði einstæðra foreldra. Að auki er einnig lagt til, eins og brtt. hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur gerði ráð fyrir á síðasta þingi, að börn öryrkja og ellilífeyrisþega, sem ekki hafa annan framfærslueyri en bætur almannatrygginga, fái sama rétt. Eins og fram kemur í grg. með frv. er um að ræða 1073 einstæða foreldra með 1564 börn á framfæri sínu sem ekki geta leitað til meðlagsskylds aðila með menntunarframlög. Er hér um að ræða 12-13% einstæðra foreldra sem ekki hafa sömu möguleika og aðrir einstæðir foreldrar að leita eftir framlagi vegna menntunar barna sinna. Í grg. kemur einnig fram að yrði frv. þetta að lögum mundu ákvæði þess opna 617 öryrkjum og ellilífeyrisþegum með 967 börn á framfæri sínu rétt til að leita eftir menntunarframlögum vegna barna sinna.

Þegar á heildina er litið gæfu ákvæði frv. 1690 einstæðum foreldrum, öryrkjum og ellilífeyrisþegum með samtals 2531 barn á framfæri sínu möguleika á að leita eftir framlagi vegna menntunar barna sinna frá 18-20 ára. Á hitt ber þó að líta að sjálfsagt yrðu þeir mun færri sem úrskurðuð yrðu menntunarframlög þar sem valdsmaður metur í hverju tilfelli aðstæður þar sem m.a. er tekið mið af efnahag og öðrum aðstæðum meðlagsskylds aðila og þess foreldris sem forsjá barns hefur. Í því sambandi má geta þess að af 617 öryrkjum og ellilífeyrisþegum sem barnalífeyris njóta eru 129 með óskerta tekjutryggingu og hafa því einungis sér til framfærslu lífeyri almannatrygginga.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta frv. mikið fleiri orð. Það mikilvæga er að með samþykkt þessa frv. yrði tryggt að börn sem aðeins eiga annað foreldri á lífi hafi sömu möguleika og börn annarra einstæðra foreldra þannig að einstæðum foreldrum yrði ekki mismunað að því er varðar þann rétt og stuðning sem 17. gr. barnalaganna veitir einstæðum foreldrum og að auki mundu börn örorku- og ellilífeyrisþega, sem eingöngu hafa sér til framfærslu bætur almannatrygginga, njóta sama réttar.

Herra forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frv. verði vísað til hv. allshn.