07.04.1986
Neðri deild: 73. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3485 í B-deild Alþingistíðinda. (3143)

202. mál, verðbréfamiðlun

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég lýsi stuðningi mínum við þetta frv. og ég held að það sé einboðið að lögfesta það á þessu þingi. Jafnframt vil ég láta koma fram að ég hef mikinn áhuga á framgangi frv. til laga um nafnskráningu skuldabréfa. Ég held að það sé mjög mikilvægt frv. og feli í sér nauðsynlega neytendavernd og dýrmæta. Ég fagna þess vegna yfirlýsingu hæstv. viðskrh. um að hann sé að reka á eftir frv. og afgreiðslu fjh.- og viðskn. Ed. á því. Ég heiti því að fjh.- og viðskn. Nd. mun taka málið fyrir þegar það kemur eða ef það kemur til hennar og við munum reyna að sjá til þess að það strandi ekki í þeirri nefnd.

Ég minni enn fremur á frv. til laga, sem var í þessari kippu á sínum tíma og er enn, á þskj. 493, frv. til laga um breytingu á lögum nr. 7 frá 1. febr. 1936, um samningagerð, umboð og ógildingu löggerninga. Ég held að þar sé líka um mjög mikilvægt mál að ræða sem óhjákvæmilegt sé að taka afstöðu til.