07.04.1986
Neðri deild: 73. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3487 í B-deild Alþingistíðinda. (3146)

338. mál, stjórnarskipunarlög

Flm. (Ólafur Þ. Þórðarson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram á Alþingi Íslendinga frv. til l. að nýrri stjórnarskrá. Þetta frv. hefur verið í smíðum í um þrjú ár, en hugmyndirnar á bak við það eru aftur á móti eldri. Samtök um jafnrétti milli landshluta spruttu upp þegar sýnt þótti að þeir sem ráða málum á Alþingi Íslendinga hefðu ekki hug á því að koma á nýrri stjórnarskrá fyrir landið, en vildu aftur á móti aðeins breyta þeim kosningalögum sem í gildi höfðu verið.

Nefnd á vegum þessara samtaka samdi þetta frv.

Það er engum ljósara en mér að innan veggja þingsins og utan finnst flestum að of mikið sé í fang færst hjá einum þm. að ákveða að flytja frv. til l. að nýrri stjórnarskrá. Ég hefði gjarnan viljað að þetta verk hefði ég ekki þurft að vinna, en mér rennur blóðið til skyldunnar því að það kjördæmi sem ég er þm. fyrir hefur átt í vök að verjast hvað byggðaþróun varðar innan þess ramma sem núverandi stjórnarskrá hefur markað og beint íslensku þjóðfélagi í. Hún hefur óneitanlega leitt til svo yfirþyrmandi miðstýringar í landinu að það liggur við að hægt sé að segja að á sumum svæðum eigi menn hvorki að fæðast né deyja, það sé spurning hvort þeir eigi að vera þar miðbik ævinnar.

Þegar ég segi að stjórnarskráin íslenska, sú sem er í gildi, hafi leitt til þessarar miðstýringar hlýt ég að sjálfsögðu að verða að finna þeim fullyrðingum mínum stað.

Ég viðurkenni það sem eðlilega þróun að það fjölgi í þéttbýli en fækki í sveitum. Tækni okkar tíma leyfir það. En meðan þann veg er háttað þeim efnalegu gæðum sem þessi þjóð lifir á að þau koma frá framleiðslustöðum hringinn í kringum landið byggt á tveimur beltum, græna beltinu upp frá ströndinni og því brúna sem liggur frá ströndinni, þ.e. lífríki sjávar, hlýt ég að verða að spyrja þeirrar spurningar: Hvers vegna þarf að standa þannig að uppbyggingu þjónustunnar að hún sé að mestu leyti staðsett á örlitlum hluta af landinu? Það er ekki náttúrulögmál. Það er mannanna verk. Náttúrugæði landsins liggja ekki að baki þeirri íbúaskiptingu sem nú er í landinu. Það eru stjórnvaldslegar aðgerðir og heimssögulegir atburðir, eins og heimsstyrjöldin síðari, sem koma þar við sögu.

Í stjórnarskránni er aftur á móti hvergi að finna neitt ákvæði er vinni gegn miðstýringu, en aftur á móti mörg sem stuðla að henni. Það er kosið með sama hætti til Ed. og Nd. Alþingis. Alþingi getur með almennum lögum ráðskast um hvaða landsvæði sem er eins og því sýnist. Með skattheimtu er fjármunum þjóðarinnar safnað saman, en miðstýringin ákveður hvar hin nýju störf verða til. Stjórnarskráin tryggir í reynd vöxt og viðgang Reykjavíkur, en hún tryggir ekki vöxt og viðgang neins landsvæðis annars.

Verði það frv. að lögum sem hér er lagt fram tryggir það vissulega viðgang Reykjavíkur, en það tryggir einnig viðgang landsins alls og uppbyggingu eftir því sem efnahagsleg hagsæld og fólksfjölgun leyfir. Höfuðborgin er og verður Reykjavík, en hún verður ekki eina borg Íslands.

Ég get ekki stillt mig um að lesa upp tölur um fólksþróunina á seinasta ári, 1985, til að undirstrika hvað þessi þróun er hröð og hvers vegna ég tel að það sé ekki hægt að bíða lengur með að hefjast handa og draga úr miðstýringunni. Það eru þrjár töflur sem ég ætla að lesa.

Sú fyrsta er um flutningsjöfnuð hinna ýmsu landsvæða gagnvart landsvæðum annars staðar á Íslandi og öðrum löndum. Suðurnesin tapa 106 íbúum í þessum flutningsjöfnuði, Vesturland tapar 157, Vestfirðir tapa 351, Norðurland vestra 83, Norðurland eystra 252, Austurland 136, Suðurland 268, höfuðborgarsvæðið bætir við sig 856 í þessum flutningsjöfnuði.

Í flutningsjöfnuði innanlands tapa Suðurnesin 56 íbúum, Vesturland 149, Vestfirðir 305, Norðurland vestra 65, Norðurland eystra 150, Austurland 100, Suðurland 194, en höfuðborgin bætir við sig 1035.

Þriðja taflan fjallar um fólksfjölgun eða fækkun hinna ýmsu svæða. Suðurnesin bæta við sig á árinu 1985 45 íbúum, Vesturland tapar 14, Vestfirðir tapa 213, Norðurland vestra bætir við sig 27, Norðurland eystra tapar 24, Austurland bætir við sig 27, Suðurland tapar 25, höfuðborgarsvæðið bætir við sig 1831.

Þegar talað er um höfuðborgarsvæðið í þessari upptalningu er átt við sama landsvæðið og frv. kallar höfuðborgarfylkið. Nú er það svo með frjósemi kvenna, ef miðað er við lifandi fædd börn, að hún er mun meiri úti á landi en á höfuðborgarsvæðinu. Það er ástæðan fyrir því að Suðurnes, Norðurland vestra og Austfirðir fá jákvæðar tölur í seinasta dálknum. Ég verð aftur á móti að segja eins og er að litlu verður Vöggur feginn ef fulltrúar þessara svæða líta svo á að ástandið sé eðlilegt miðað við þær tölur sem ég hef lesið upp.

Ég vil svo bæta því við að áætlaður íbúafjöldi um næstu aldamót hér á landi er talinn vera 262 þús. - og vel að merkja: Þeir árgangar Íslendinga sem eru að vaxa upp eru farnir að verða fámennari og fámennari. Það segir okkur m.ö.o. að sú íbúafjölgun sem verður til aldamóta mun ráða úrslitum um byggðaþróun í landinu, þ.e. hvar þeir íbúar muni búa ræður úrslitum. Þegar rætt er um hvort í landinu eigi að vera tvö eða þrjú stjórnsýslustig er það fyrst og fremst viðhorf manna til þess hversu mikla miðstýringu þeir vilja hafa í landinu hvort þeir aðhyllast tvö stjórnsýslustig eða þrjú. Það fer ekki milli mála að því er þröngur stakkur skorinn hvað hægt er að afhenda sveitarfélögum stór verkefni af þeirri einföldu ástæðu að stærð margra þeirra takmarkar möguleikana til að fást við stór verkefni.

Það sjá það t.d. flestir í hendi sér að það er ekki auðvelt að ætla að útdeila verkefnum annars vegar til sveitarfélags sem hefur um 400 manns eða til annars sem hefur yfir 10 þús. íbúa. Hér hlýtur það mjög að takmarkast hvað hægt er að fela sveitarfélagi með 400 manns að fást við. Gildi sömu reglur um öll sveitarfélög takmarkar það umsvif þeirra allra. Auðvitað er hægt að segja sem svo að sveitarfélög eigi að vinna saman. Rétt er það. En aftur á móti er spurning hvort það eigi að vera duttlungum háð, hvort það eigi að fara eftir því hvort menn úr sama stjórnmálaflokki stýri sveitarfélögunum eða yfirleitt eftir því hvort viðkomandi aðilum falli. Ég held að á þessu máli verði að taka af miklu meiri alvöru og undan því verði ekki vikist, vilji menn draga úr miðstýringunni, að setja upp þriðja stjórnsýslustigið það öflugt að hægt sé að fela því umsjá mjög margra þeirra málaflokka sem í dag eru rúmfrekastir í verkefnum hjá ríkinu.

Ég vil byrja á því að gera mönnum grein fyrir þeirri stöðu sem miðstýringin hefur fært okkur í gagnvart uppbyggingu landsins. Frá 1981 til 1985 að báðum árum meðtöldum flytja til Stór-Reykjavíkursvæðisins 4300 manns. Það má geta þess að á sama tíma eru um 87% þeirra nýju starfa sem verða til í þjóðfélaginu í þjónustu, 1985 verða um 90% nýrra starfa til í þjónustu og gera má ráð fyrir því að það sem eftir er af þessari öld sé ekki ólíklegt að um 90% nýrra starfa verði til í þjónustu. En eins og þjónustunni er háttað í dag verður mestöll þjónustan til á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Gera má ráð fyrir því að 80-90% af hinni nýju þjónustu verði til á því svæði að öllu óbreyttu.

Menn hafa verið með ýmsar hugleiðingar um hvernig atvinnuskipting þjóðarinnar gæti orðið um næstu aldamót. Ef þetta er skoðað í ársverkum má búast við því að í landbúnaði, þar sem nú eru um 7 þús. ársverk, verði eitthvað á bilinu 4-8 þús. ársverk. Það fer mjög eftir því hvernig til tekst með nýjar búgreinar. Í fiskveiðum má gera ráð fyrir því að það verði um 5500 ársverk um næstu aldamót, þ.e. svipað og er í dag. Í fiskvinnslunni er talið að fækka muni úr 10 þús. ársverkum niður í um 7 þús. ársverk vegna tækniframfara. Í iðnaðinum er ekki gert ráð fyrir því að fjölgi meira en úr 16 500 ársverkum í 17 500 ársverk, þ.e. um 1000 manns. Og í mannvirkjagerð er ekki hægt að gera ráð fyrir neinni aukningu. Það er hægt að hugsa sér að þar verði um 11 000 ársverk. Þessar spár, sem hér eru settar fram, eru hugleiðingar mínar í ljósi þeirra upplýsinga sem ég hef fengið um þessa hluti hjá þeim aðilum sem hafa verið að spá fram í tímann.

Í þjónustunni í dag eru um 62 000 ársverk. Heildarársverkafjöldi um næstu aldamót verður ca. 140 þús. ársverk. Þar er miðað við að atvinnuleysi herji ekki á Íslendinga í þeim mæli sem það er hjá nágrannalöndunum. Þessar tölur gefa vissulega tóninn um það hvaða fjölgun verður í þjónustunni á þessu tímabili. Það blasir því við hvort sem okkur líkar það betur eða verr að hún er orðin afgerandi sá þáttur sem tekur við mannaflaaukningunni. Ef við gerum ráð fyrir að ekkert verði að gert og miðstýringin haldi áfram er tómt mál að tala um að svæði eins og Vestfirðir haldi þeim mannafla sem þar er í dag. Það má gera ráð fyrir því að þar verði heldur fækkun á þessu tímabili til aldamóta.

Segja má um landið allt að ekki sé hægt að gera ráð fyrir neinni fjölgun utan Stór-Reykjavíkursvæðisins. Tækniframfarir í fiskvinnslu munu spara það mikinn mannafla að sá mannafli sem bætist við í þjónustu úti á landi mun aðeins jafna þessa tölu.

E.t.v. finnst mörgum að ég sé of svartsýnn þegar ég segi þetta. En ég vil bæta því við að allt útlit er fyrir að iðnaðaruppbyggingin verði mun meiri á Stór-Reykjavíkursvæðinu en annars staðar. Vonandi verður iðnaðaruppbyggingin veruleg því að þó að mannafli standi hér um bil í stað í iðnaði má gera ráð fyrir því að það verði fækkun á ýmsum þeim vinnustöðum þar sem nú er iðnaðarstarfsemi vegna tækniframfara, en nýir vinnustaðir með nýjum verkefnum taki við meiri mannafla.

Ég hygg að hver sá sem skoðar það af raunsæi hvar skynsamlegast sé að efla iðnaðinn hljóti að staðnæmast við aðalþéttbýlissvæði landsins. Það er sá innanlandsmarkaður sem skiptir höfuðmáli. Þar eru og greiðustu samgöngurnar við útlönd. Það er því rökrétt að gera ráð fyrir því að það svæði fái bróðurpartinn að iðnaðaruppbyggingunni.

Allt leiðir þetta hugann að því hvort menn vilja snúa sér að því í alvöru að koma þjónustunni út til fólksins eða hvort menn vilja halda áfram þeirri stefnu að auka miðstýringuna. Mér er þetta svo ríkt í huga vegna þess að sá stjórnmálaflokkur sem ég aðhyllist hafði það sem markmið í sinni fyrstu stjórnmálayfirlýsingu að vinna að framför landsins alls. Nú sýnist mér aftur á móti sem sumir menn þar séu gengnir í björg og skynji það ekki að sú miðstýring sem þeir styðja í dag þýðir ekki framför landsins alls. Hún þýðir aðeins framför ákveðins hluta af landinu.

Mér er ljóst að þeir eru til í voru landi sem telja að einmitt á þennan veg eigi uppbyggingin að vera, það eigi ekki að vinna að framför landsins alls, það eigi fyrst og fremst að tryggja að hér á suðvesturhorninu sé lífvænleg byggð. Nú er það svo að ég hygg samt sem áður að sá hópur sé miklu stærri sem telji eðlilegt að byggja landið allt og nýta gæði þess, enda er það að mínu viti grundvallaratriði ef við ætlum að ná upp þeim hagvexti sem við þurfum.

Þá vaknar sú spurning hvort menn vilja stinga höfðinu í sandinn og neita að horfa á þær staðreyndir sem blasa við eða hvort menn vilja taka mið af þeim og vinna að þeirri þjóðfélagsbreytingu sem hefði í för með sér nokkuð jafna uppbyggingu alls staðar á Íslandi, þ.e. í öllum fylkjum landsins eins og þau eru sett fram í frv.

Ég ætla ekki að fara út í nákvæmar útskýringar á því hvaða þættir það eru sem skipta höfuðmáli þegar skoðað er hvaða þjónustu við þurfum að koma út á land. Ég vil aðeins byrja á að geta þess að Landspítalinn er fjölmennasti vinnustaður á Íslandi og uppbyggingu sjúkrahúss í hverjum fjórðungi ásamt aðstöðu fyrir aldraða og þeirri læknisaðstoð sem segja má að nái til fjöldans þarf að koma fyrir í hverju fylki fyrir sig. Það má vel vera að mönnum finnist að þessi hávísindalega grein sé þess eðlis að þetta séu draumórar. Ég held aftur á móti að í þeim tækniheimi sem við lifum í bendi allt til þess að megnið af þeim störfum sem unnin eru á spítala þróist yfir í það að hvorki stjórnunarlega séð né af öðrum ástæðum sé eitt eða neitt sem mæli gegn þessu.

Ég held að ef við höldum hinni stefnunni áfram að skilja eftir heilar sýslur án þess að þar sé t.d. eitt einasta elliheimili hljótum við að vera að flytja ekki aðeins gamla fólkið burtu heldur einnig störfin sem fylgja því að veita því umönnun og ættingja þeirra einnig. Það þarf ekki annað en skoða fjárlög íslenska ríkisins til að átta sig á því að heilbrigðisþjónustan tekur með örari hætti en nokkur annar geiri hins opinbera til sín stærri og stærri hluta af þeim fjárhæðum sem til skipta eru.

Hitt atriðið, sem ég tel að þurfi að leggja höfuðkapp á, er að koma skólunum út í fylkin. Þetta er hægt ef skólarnir verða í vaxandi mæli starfræktir sem fjölbrautaskólar en í minnkandi mæli sem sérskólar. Það má segja það sama um skólana og um sjúkrahúsin að stóraukin tækni og upplýsingastreymi, m.a. með fjarkennslu, ætti að auðvelda að hægt væri að stunda í gegnum fjölbrautaskóla það nám sem allur þorri manna stundar. Ég tel að með því að koma upp háskóla á Akureyri sé einnig stigið stórt skref í þá átt að hluti af því námi sem þeir stunda sem fara í háskóla verði utan höfuðborgarinnar og það geti orðið á fleiri stöðum þegar frá líði.

Allt eru þetta aðgerðir á þann veg að fjölga störfum í þjónustu úti á landi. Til þess að ná þeim árangri að æskan eigi möguleika á störfum úti á landi þarf einnig að taka þá ákvörðun að skipta niður mjög mörgum stofnunum, sem í dag eru reknar á landsvísu, þannig að þær verði reknar sem sjálfstæðar einingar í hverju fylki. Það verk þarf að vinna í áföngum. Það er heldur engin nauðsyn að hafa allar hinar nýju stofnanir á sama stað.

Sjálfstæðar þjónustustofnanir í hverju fylki verða því aðeins til að ríkið hætti að sjá um þjónustu á mörgum sviðum en feli fylkjunum að sjá um hana. Aðeins með þessu móti fást störf úti á landsbyggðinni í hverju fylki sem geta veitt hinni menntuðu æsku þessara svæða atvinnu. Þessi svæði verða látin greiða fyrir þessa þjónustu. Það vita allir. Spurningin er aðeins: Vilja þeir sem þar búa að þeir sem eru á launum hjá þeim búi innan hvers fylkis eða vilja þeir að miðstýringin flytji þá á brott til Stór-Reykjavíkursvæðisins?

Æskan hefur valið. Samkvæmt könnun sem gerð hefur verið vill hún búa sem næst sínum átthögum. Með því að halda miðstýringunni áfram neyðum við hana aftur á móti til að flytja búferlum.

Herra forseti. Ég hef byrjað á að gera grein fyrir þeirri grundvallarbreytingu á stjórnkerfi landsins sem ég ætla að ágreiningur verði mestur um. Ég vil nú rekja þær breytingar sem ég tel helstar á hinum ýmsu ákvæðum stjórnarskrárinnar.

Þær breytingar sem gerðar eru og snúa að forseta Íslands eru þær helstar að hann hafi ávallt stuðning meiri hluta þeirra er taka þátt í forsetakjöri þegar hann er kjörinn. Honum er ætlað að sitja sem hámark í átta ár. Ábyrgð hans skal ákveðin með lögum og honum er heimilt að segja af sér. Það er settur hámarkstími á hve lengi forseti getur beðið eftir því að þm. myndi ríkisstjórn er njóti meirihlutastuðnings eða hlutleysis Alþingis. Hafi ekki verið mynduð ríkisstjórn innan átta vikna ber forseta að skipa utanþingsstjórn.

Engin mismunun er lögð til á embættismönnum og öðrum ríkisstarfsmönnum í frv. Engan ríkisstarfsmann er heimilt að ráða ævilangt. Þingrofsrétturinn er mjög þrengdur og þarf Alþingi að samþykkja þingrof með 2/3 atkvæða hið minnsta.

Þm. halda umboði þar til á kjördegi. Það er jafnframt lagt til að Alþingi geti ekki samþykkt vantraust á ríkisstjórn nema fyrir liggi samstaða meiri hluta alþm. um val á nýjum forsrh.

Hér er lagt til að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram ef 20% þjóðarinnar óska þess og forseta er heimilt að óska eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um lagafrv. áður en hann skrifar undir það. Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu er bindandi fyrir Alþingi og forseta.

Þrengd eru ákvæði um útgáfu brbl. og sett það skilyrði að þau séu kynnt viðkomandi þingnefnd og þau séu lögð fyrir Alþingi strax og það kemur saman. Það verður einnig að vera búið að samþykkja þau innan þriggja mánaða frá því að þau voru lögð fram.

Frv. gerir ráð fyrir því að sett verði lög um stjórnmálaflokka og þeir verða að gera grein fyrir fjárreiðum sínum. Það er sett inn m.a. til að hægt sé að fylgjast með því hvort erlendir aðilar leggi til fé í stjórnmálastarfsemi á Íslandi.

Ríkisendurskoðunin er færð undir þingið. Þrískipting valdsins er skert. M.a. mega ráðherrar ekki vera þingmenn. Þeir hafa þó seturétt á Alþingi með málfrelsi og tillögurétti.

Lagt er til að dómstigin verði þrjú og það verði betur skilið frá framkvæmdavaldinu á þann veg að stjórnsýslu- og lögreglustjórn verði ekki í höndum dómara.

Lagt er til í frv. að landinu verði skipt í fimm fylki og að kosnir verði til Ed. 15 þm., 3 frá hverju fylki, en til Nd. 31 þm. og er þar gengið út frá því að að baki hverjum þm. standi því sem næst jafnmargir kjósendur í öllum fylkjum. Þetta þýðir í reynd að ekkert fylki getur fengið meiri hluta í báðum deildum þingsins. Aftur á móti getur meiri hluti þjóðarinnar bundið hvora þingdeildina sem er í afstöðu sinni í þjóðaratkvæði.

Fylkjafyrirkomulagið er vel þekkt frá Norðurlöndum og sambandslýðveldin eru með áþekkt form. Þar er það m.a. höfuðreglan að kosið er til þingdeilda eftir mismunandi aðferðum og viðurkennt að það er nauðsynlegt til þess að gæta jafnvægis í ríkinu. Þetta er algengasta fyrirkomulagið hjá þeim lýðræðisríkjum sem virtust eru í heiminum.

Í skýringum við 29. gr. er þetta orðað svo: „Algengasta fyrirkomulag þjóðþinga lýðræðisríkja Evrópu, Norður-Ameríku og Ástralíu er að starfandi eru tvær þingdeildir. Er kosið til annarrar með hliðsjón af sem jöfnustu vægi atkvæða, en til hinnar með hliðsjón af hagsmunum héraða eða landshluta en íbúatalan ekki lögð til grundvallar.“

Það er aftur á móti nýmæli hér að lagt er til að fylkisbanki sé í hverju fylki og hann sjái um bindiskyldu fylkisins og fylkisbankarnir sjái sameiginlega um gengisskráninguna. Hér hafa þær aðstæður skapast hvað eftir annað að æskilegt er vegna þenslu á ákveðnum svæðum að hafa bindiskyldu ekki þá sömu hvar sem er á landinu.

Varðandi gengisskráninguna fer það ekki á milli mála að sérstaða Íslands liggur m.a. í því hve erlend viðskipti eru hlutfallslega mikil miðað við þjóðarframleiðslu og þau svæði landsins sem mest hafa lagt af mörkum hlutfallslega í erlendum gjaldeyri hafa oft verið neydd til þess að láta hann af hendi undir sannvirði um lengri eða skemmri tíma. Afleiðing þessarar stefnu er að eiginfjárstaða fyrirtækja í útflutningi hefur hvað eftir annað verið rústuð og ríkisvaldið misnotað gengisskráningarvaldið til að draga úr verðbólgu en ekki hirt um erlenda skuldasöfnun og öll vitum við hver afleiðing þessa hefur orðið. Hér er sem sagt unnið gegn miðstýringunni.

Í frv. er gert ráð fyrir því að réttindi almennings séu aukin, m.a. með rétti til að koma á þjóðaratkvæðagreiðslu og að hún er bindandi fyrir þingið og forsetann. Einnig er lagt til að 25% íbúa sveitarfélags geti krafist atkvæðagreiðslu um málefni sveitarfélagsins. Óheimilt er að lög verði afturvirk.

Í frv. er lagt til að Alþingi kjósi sér ármann og með því er ætlað að draga úr þeim líkum að stjórnvöld geti misbeitt valdi sínu gagnvart almenningi.

Jafnframt eru mannréttindaákvæði efld. Einkalíf manna er betur varið og óheimilt að rannsaka einkagögn eða rjúfa bréfa- og símaleynd nema með dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild.

Það er og nýmæli að lagt er til að ekki verði heimilt að kjósa um breytingar á stjórnarskránni samfara kosningum til Alþingis og meiri hluti í hverju fylki fyrir sig getur stöðvað stjórnarskrárbreytingu.

Ýmis ákvæði eru í frv. sem undirstrika almennt viðurkennd viðhorf þótt þau hafi ekki áður verið áréttuð í stjórnarskránni. Þar má nefna eignarrétt að náttúruauðlindum náttúruvernd og margt fleira.

Herra forseti. Ég hef reynt að gera grein fyrir þeim atriðum sem ég ætla að séu höfuðatriði þessa frv. Ég trúi því að alþm. skoði þetta frv. af gaumgæfni og geri sér grein fyrir því að krafa íslensku þjóðarinnar um nýja stjórnarskrá er skýlaus.

Auðvitað eru mjög margar greinar stjórnarskrárinnar íslensku þess efnis að þeim þarf ekki að breyta og þær eru teknar orðrétt upp í frv. Einnig eru mjög margar breytingar, sem samstaða varð um við endurskoðun stjórnarskrárinnar, frá stjórnarskrárnefnd dr. Gunnars Thoroddsens. Þetta skyldi engan undra, en ég vil geta þess að framreiknað í núvirði kostaði sú stjórnarskrárvinna sem þar var unnin á sjöttu milljón. Það starf sem unnið hefur verið af þeirri nefnd sem vann þetta frv. og þeim aðilum sem yfirfóru það verk hefur ekki verið reiknað til verðs. En ég ætla það fátítt á vorum dögum að jafnmikið hugsjónastarf sé unnið og unnið hefur verið af þeim einstaklingum sem lögðu á sig þá vinnu að lesa yfir stjórnarskrár fleiri ríkja og reyna að sameina í þessu frv. það besta sem þeir fundu í þeim gögnum.

Ef til vill finnst mörgum, sem á mál mitt hafa hlýtt, að þessi umræða hafi borið of mikinn keim af fjórðungaskipuninni fornu sem lítt má greina í þinghúsi eða í sölum þingsins á annan veg en þann að utan á þinghúsinu má sjá hina fornu landvætti. Ég ætla ekki að fara langt út í þá umræðu. Ég vil aftur á móti geta þess að ég hef unnið sem sveitarstjórnarmaður á heimavígstöðvum og sem sveitarstjórnarmaður sem formaður fjórðungssambands Vestfirðinga og sem alþm. að því að reyna að tryggja að réttlát uppbygging ætti sér stað í þessu landi fyrir það skattfé sem af þegnunum er tekið. Mér finnst að ég hafi aldrei verið fjær því að ná árangri en ég er í dag. Satt best að segja get ég tekið undir með stórskáldinu Einari Benediktssyni þegar hann gerir upp sína ævi í kvæðinu „Einræður Starkaðar“ og er vissulega ekki sáttur við það hvað honum hefur áunnist. En hann segir svo:

Synduga hönd, þú varst sigrandi sterk,

en sóaðir kröftum á smáu tökin.

Að skiljast við ævinnar æðsta verk

í annars hönd, það er dauðasökin.

Og vissulega eru það örlög okkar allra að skiljast við ævinnar æðsta verk í annars hönd. Hins vegar er það svo að það gerir okkur sáttari við tilveruna ef við höfum þó reynt að koma einhverju til leiðar af því sem við töldum að væri þess virði að leggja vinnu í það.

Ég hygg að sá skollaleikur, sem leikinn hefur verið með íslensku stjórnarskrána, að slá því á frest, ýta því stöðugt til hliðar að leggja fram á Alþingi frv. að nýrri stjórnarskrá, sýni því miður alvöruleysi þeirra manna sem í orði kveðnu láta svo að þetta verk þurfi að vinna. Þeir vilja hafa það nokkuð á hreinu að þeir geti eins og Pílatus þvegið hendur sínar og þeir munu segja: Þetta mál er í góðum farvegi. Það er hjá ágætri nefnd undir forustu eins af ráðherrum þessa lands. En ég hygg að þeir sem beðið hafa um meira réttlæti í ákvarðanatökunni um það hvar þjónustustofnanir verða staðsettar séu búnir að bíða nægilega lengi, séu búnir að gera það upp við sig að hlusta ekki á neinar útskýringar meir á því hvers vegna stjórnarskrárfrv. er látið liggja. Þeir óska eftir efndum. Og það skyldi þó ekki fara svo að það eigi eftir að hitna meir í kolunum úti á landsbyggðinni og einnig hér á höfuðborgarsvæðinu ef stefnan verður óbreytt að geyma stjórnarskrárfrv. í nefnd?

Það er tímanna tákn að þm. dreifbýlisins vilja ógjarnan hlusta á þá lýsingu sem hér hefur verið kynnt á byggðaþróuninni í landinu og ég skil vel að þeir hafi ekki hug á því að hlusta á þá lýsingu.

Herra forseti. Ég legg til að lokinni þessari umræðu að þessu máli verði vísað til 2. umr. og til hv. allshn.