08.04.1986
Sameinað þing: 69. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3512 í B-deild Alþingistíðinda. (3154)

328. mál, öryrkjabifreiðar

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. svörin. Ég ræð það svo sem ekki alveg af þeim hvert raunverulegt hlutfall hér kemur til eftirgjafar hjá öryrkjum, en þó sýnist mér alveg augljóst að eftir þá breytingu sem varð fyrir hinn almenna bifreiðakaupanda er forskot öryrkjans að miklu leyti úr sögunni. Það er alveg ljóst að forskot öryrkjans, það sem honum hefur verið gert auðveldara að fá bifreið umfram fólk almennt, er að miklu leyti úr sögunni. Það er alveg ljóst. Það hefur verið farin þarna viss millileið varðandi nokkra hækkun eftirgjafar af hverri bifreið, en það er líka alveg ljóst að þetta forskot, eða mér sýnist það af svörum ráðherra, ég get ekki lesið annað út úr þeim, sem öryrkjar hafa haft, sé ekki lengur til staðar og þeir þurfi því flestir hverjir að sæta svipuðum kjörum og hinn almenni bifreiðakaupandi að undanskildum þessum 25 þús. sérstaklega. Mér þykir þetta miklu miður því að ég hygg að það sé full þörf á því að halda þessu áfram.

Ég tek undir það með hæstv. ráðh. að vissulega væri rétt að koma þessum málum í heild sinni fyrir í tryggingakerfinu og jafna þannig aðstöðumun öryrkja. Ég bendi á að fyrir utan það sem ég nefndi um möguleika öryrkjans til að stunda eðlilega vinnu er hér einnig og í mjög yfirgnæfandi tilfellum um að ræða möguleika hans til að stunda eðlilegt líf, að hafa bifreið til afnota. Mér þykir því sannast sagna sem hér hafi verið smátt skammtað umfram þann fullfríska mann sem getur keypt sér bifreið.

Ég bendi einnig á það og vil spyrja hæstv. ráðh. að því að fullgildar umsóknir um öryrkjabifreiðir nú voru um 1100 og lögin heimila eftirgjöf af 550 bifreiðum. Auðvitað verður þetta ekki eins knýjandi eftir að eftirgjöfin er orðin það lítil sem raun ber vitni, en engu að síður er ljóst að það þarf vissa fjölgun til að sinna brýnustu þörfum. Læknar í úthlutunarnefnd þessara bifreiða segja mér að 50 bifreiðir t.d. til viðbótar mundu leysa mikinn og brýnan vanda. Í fyrra voru umsóknir 950 um 550 bifreiðir svo að þetta er ekki bara bundið við árið í ár. Og það þarf í dag að neita mörgum sem sannarlega þurfa á að halda.

Ég spyr ráðherra í framhaldi af þessu hvort hann hafi í hyggju að rýmka heimildina um fjöldann. Ég minni á að hér var í þinginu í fyrra til meðferðar frv. um að fjölga bifreiðum um 50 að mig minnir. Það frv. dagaði uppi. Söm er þörfin áfram þó að ég sjái að á muni verða miklu minna knúið eftir að svo smátt er skammtað um aukaeftirgjöf til öryrkja eins og kom fram í máli hæstv. ráðh.