08.04.1986
Sameinað þing: 69. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3513 í B-deild Alþingistíðinda. (3157)

381. mál, umsvif erlendra sendiráða

Fyrirspyrjandi (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Ég þakka utanrrh. fyrir þau svör sem hann gaf við fsp. minni sem ég mælti fyrir áðan. Það kom fram í svari hans varðandi þær kannanir á störfum sendiráðsmanna sem utanrrn. vinnur að og hefur óskað eftir upplýsingum um frá sendiráðum að svör liggja ekki fyrir frá þeim í þeim efnum og er þó senn brátt ár liðið frá samþykkt þáltill. sem flutt var af utanrmn. um þau mál. Eins eru önnur mál í athugun og raunar beðið eftir fleiri svörum. Ég held að það væri full ástæða fyrir ráðuneytið að óska eftir skjótari viðbrögðum frá hinum erlendu sendiráðum í þessum efnum þannig að þetta mál megi liggja sem fyrst ljóst fyrir og verði þá grein fyrir því gerð í utanrmn. eins og ráðherrann vék að.

Það má nefna þegar litið er á þessar tölur að nær fjórir tugir erlendra starfsmanna, fyrir utan skyldulið, starfa í sovéska sendiráðinu og yfir tveir tugir í því bandaríska. Menn velta því fyrir sér hver þörf sé fyrir svo mikinn starfsmannafjölda. Í því sambandi má minna á að það er algerlega á valdi íslenskra stjórnvalda að ákveða stærð erlendra sendiráða og starfsmannafjölda.

Það segir í 11. gr. Vínarsamningsins svonefnda, sem fékk lagagildi hér 1971, þ.e. samningur um stjórnmálasamband ríkja, að þegar ekki sé gert sérstakt samkomulag um starf sendiráða geti móttökuríkið krafist þess að stærð sendiráðs verði sett takmörk sem það telur hæfileg og eðlileg með hliðsjón af aðstæðum og ástandi í móttökuríkinu og þörfum hlutaðeigandi sendiráðs.

Hér er fyrir hendi skýr og ljós lagaheimild til þess að setja þau takmörk á stærð lóða og fasteigna og íbúðakaup erlendra sendiráða sem íslensk stjórnvöld telja æskileg. Ég held að það sé mjög tímabært í ljósi þeirrar könnunar sem nú fer fram að slíkt verði gert, svo langt sem lóða-, íbúðakaup og starfsmannafjöldi eru komin út fyrir það sem kalla mætti eðlileg mörk.

Í þessu sambandi kemur líka upp í hugann sú umræða sem átt hefur sér stað um innra öryggi hér á landi og sem utanrrh. hefur sérstaklega sett á dagskrá að undanförnu í ræðu og riti. Þau mál tengjast vitanlega umsvifum erlendra sendiráða hér á landi og eru þáttur af þeim og á þau efni þarf einnig að líta í þessu sambandi.

Ég hirði ekki um að svara athugasemd hv. 5. þm. Austurl. varðandi hina miklu útþenslu erlendra sendiráða í ráðherratíð Sjálfstfl. og samstarfsflokka hans í ríkisstjórn. Ég veit ekki betur en á árunum áður en þessi ríkisstj. tók við, eins og tölurnar frá því í janúar 1984 sanna, hafi verið um mjög mikið útþenslutímabil að ræða í þessum efnum.