04.11.1985
Neðri deild: 12. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 379 í B-deild Alþingistíðinda. (316)

28. mál, skattafrádráttur fyrir fiskvinnslufólk

Flm. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Þetta frv. var áður flutt á s.l. vetri, að vísu undir lok þingtímans þá, og þrátt fyrir að verulegur stuðningur kæmi fram við það í þinginu hjá einstökum þm. í ýmsum þingflokkum náði það þó ekki afgreiðslu. Við hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson höfum því brugðið á það ráð að flytja frv. nú í upphafi þings þannig að Alþingi geti afgreitt það tímans vegna og í ljós komi hvort það er stuðningur við að fara einhverja leið eins og þá sem við bendum á í frv. þessu til þess sérstaklega að lagfæra kjör fiskverkafólks.

Það kom fram á síðasta vetri stuðningur við málið bæði úr röðum fiskverkafólks og fiskverkenda, enda eðlilegt. Í fyrsta lagi er hér hreyft máli sem oft hefur verið rætt um af ýmsum stjórnmálaflokkum og af aðilum í fiskvinnslu og í öðru lagi er um að ræða mál í þeim anda sem flestallir stjórnmálaflokkar á Íslandi, þar á meðal a.m.k. annar ef ekki báðir núverandi stjórnarflokkar, hafa lýst sig fylgjandi.

Frv. er í sjálfu sér ákaflega einfalt og lýtur að því að fiskvinnslufólk, þ.e. ófaglært verkafólk í fiskiðnaði, faglært starfsfólk í fiskiðnaði, þ.e. fólk með fagmenntun úr Fiskvinnsluskólanum, og fólk við verkstjórn í fiskiðnaði skuli eiga rétt til frádráttar á tekjum sínum við álagningu tekjuskatts sem nema skal 10% af beinum tekjum þess af störfum við fiskvinnslu. Þetta er nákvæmlega sama ákvæði og er í gildandi lögum varðandi fiskimenn og var sett í tekjuskattslögin við sömu aðstæður hvað þá varðar og nú eru ríkjandi hvað varðar fiskverkafólk. Aðstæðurnar voru og eru þær að vegna þess hve launakjör í fiskvinnslu eru orðin slæm og vegna þess hve aðbúnaður að fiskverkafólki er með ýmsum hætti lakari en viðgengst annars staðar í þjóðfélaginu, svo sem á sviði verslunar og þjónustu, sæki fólk í stöðugt vaxandi mæli út úr fiskiðnaðinum og til starfa við annan atvinnurekstur ef möguleiki er á. Þetta hefur skapað mikil vandræði við sjávarsíðuna þar sem skortur er á vinnuafli í fiskiðnaði, jafnvel þó að tveir og þrír séu um hvert starf í þjónustu og verslun sem auglýst er laust til umsóknar.

Fiskvinnslan er að sjálfsögðu undirstöðuatvinnugrein okkar Íslendinga sem m.a. öll okkar útflutningsverslun byggist á. Þetta ástand í sjávarútveginum, ásamt því kerfi sem viðgengst í sambandi við stjórnun fiskveiða og er önnur saga, hefur m.a. valdið því að mikill skortur er á ýmsum afurðum sem við höfum selt á erlendum markaði. T.d. hefur verið mikill skortur á blokk á Ameríkumarkaði og fyrirtæki okkar í Bandaríkjunum hafa orðið að fullnægja eftirspurninni eftir unnum fiskafurðum með því að kaupa í sívaxandi mæli fiskafurðir af öðrum en íslenskum frystihúsum en það gæti haft uggvænleg áhrif á gæðamál okkar fiskseljenda á Bandaríkjamarkaði.

Við nákvæmlega sams konar eða sambærilegar aðstæður fyrir nokkrum árum var gripið til þess ráðs að veita fiskimönnum sérstakan skattafrádrátt til að gera fiskimannsstarfið meira aðlaðandi en það þá var og laða fleiri til starfa í fiskveiðum. Þá eins og nú á við um fiskverkafólkið var erfitt að fá menn til sjós og íslensk útflutningsverslun leið undan því. Þetta var ein af þeim aðgerðum sem þá var gripið til til þess að gera starf fiskimannsins meira aðlaðandi. Auðvitað leysti slík aðgerð ein út af fyrir sig ekki málin, en hún varð til hjálpar við þá lausn og varð m.a. til þess ásamt öðru að það jókst aftur eftirsókn eftir störfum í fiskveiðum, uns svo var um tíma að það var jafnvel meira framboð á fiskimönnum en eftirsókn. Ég held að það fari seint þannig um starf í fiskvinnslu að það verði meira framboð af fólki til þeirra starfa en eftirspurninni nemur, en ástandið hjá fiskiðnaðinum nú er orðið til mikilla vandræða, ekki aðeins fyrir fólkið sem þar vinnur heldur ekki síður fyrir framleiðsluna og þjóðarbúið í heild.

Í öðru þingmáli hef ég vikið nokkuð að þeim vandkvæðum sem m.a. fólkseklan í fiskvinnslunni hefur skapað. Það lýsir sér m.a. í því að stöðugt meira af óunnum fiski er nú flutt út á erlenda markaði, ekki aðeins til beinnar neyslu neytenda þar heldur einnig til frekari vinnslu. Mjög verulegur hluti af þessum útflutningi á rætur sínar að rekja til þess að fiskvinnslustöðvarnar í landi geta ekki unnið aflann vegna skorts á starfsfólki. Fólkið fæst ekki til fiskvinnslunnar vegna þeirra launakjara sem þar er boðið upp á og því miður hefur ekki í frjálsum samningum tekist að semja um meiri kjarabætur til handa fiskverkafólki en raun ber vitni. Ástæðan er m.a. sú, sem ég held að menn verði að viðurkenna hvort sem þeim er það ljúft eða leitt, að mjög stór hluti af okkar launamarkaði sækir núna tekjur sínar ekki samkvæmt samningum um kaup og kjör heldur eftir lögmáli framboðs og eftirspurnar sem gerir það að verkum að launakjör margra starfsstétta eru miklu hagstæðari en fram kemur í gerðum kjarasamningum. Það er t.d. mjög algengt á Stór-Reykjavíkursvæðinu að þar taki fólk í þjónustugreinum og sumum framleiðslugreinunum einnig laun sín nánast eftir lögmáli framboðs og eftirspurnar fremur en eftir niðurstöðum kjarasamninga. Svo rammt hefur að því kveðið að til eru þau félög sem gefa út til viðbótar við launataxta sína sérstakar töflur sem sýna hver launin væru á viku eða unna klukkustund miðað við 5% álag ofan á hæsta umsaminn taxta, 10% álag, 15% álag, 20% álag, 25% álag, 30% álag og 35% álag. Þegar svo er komið að stéttarfélögin sjálf eru farin að viðurkenna þessar umframgreiðslur með því að gefa út við hliðina á umsömdum kauptöxtum slíka handbók fyrir starfsmenn í viðkomandi greinum þannig að þeir þurfi ekki sjálfir að hafa fyrir því að umreikna þær yfirborganir sem samið er um á hverjum vinnustað gefur það auga leið í hvaða átt er verið að sigla.

Þetta kemur svo aftur fram í því að í undirstöðuatvinnugreinunum, þar sem borgað er eftir taxta, er skortur á fólki, í fyrsta lagi vegna þess að þar er um erfið og oft óþrifaleg störf að ræða, í öðru lagi vegna þess að þar er afvinnuöryggi minna en víðast hvar annars staðar og í þriðja lagi vegna þess að þar er borgað umsamið kaup en ekki farið eftir lögmálum framboðs og eftirspurnar eða óskráðum yfirvinnugreiðslum og yfirkaupgreiðslum sem eru orðnar alvanalegar í öðrum atvinnugreinum.

Auðvitað gerum við flm. þessa frv. okkur fyllilega ljóst að sú leið sem við leggjum til að farin verði í málefnum þessa fólks og felst í ákvæðum þessa frv. mun ekki leysa þetta mál. Það er út af fyrir sig engin varanleg eða frambúðarlausn á vandamálum fiskverkafólksins þó svo að þessu fólki verði heimilað að draga 10% af atvinnutekjum sínum frá sköttum. Þetta er hins vegar leið sem gæti með öðru orðið til að leysa vanda fiskverkafólksins og, það er engin launung á því, lyfta kjörum þess meira en unnt væri að gera í frjálsum kjarasamningum og meira en að flm. ætlast til þess að gert sé með ýmsar aðrar stéttir. Þar erum við að sjálfsögðu fyrst og fremst að hugsa um þá staðreynd að hér er um að ræða undirstöðuatvinnugrein sem allar aðrar atvinnugreinar á Íslandi byggja hag sinn á meira og minna. Eins og þar segir: Mestu varðar til allra orða undirstaðan rétt sé fundin. - Undirstaðan er ekki rétt fundin hér á Íslandi þegar svo er að fólkið sækir úr þeim greinum sem gera íslensku þjóðinni fært að lifa menningarlífi í nútímaþjóðfélagi yfir í greinar sem sáralitlu eða engu skila til þess búskapar.

Herra forseti. Það voru á sínum tíma ýmis vandkvæði á því að heimila í skattalögum að veita tilteknum atvinnustéttum skattafrádrátt með þeim hætti sem hér er gerð tillaga um. Þær tillögur sem hafa áður komið fram hér á Alþingi um að sinna fiskverkafólki með svipuðum hætti og þetta frv. gerir ráð fyrir strönduðu yfirleitt á því að það var ekki hægt að afmarka þessa hópa frá öðrum. Að tala um fiskvinnslufólk var allt of stórt og viðamikið hugtak til þess að hægt væri að afmarka það við einhverja tiltekna einstaklinga og einhverja tiltekna atvinnustarfsemi í skattalögum. Nú er þetta breytt. Með atvinnugreinamerkingum og atvinnustéttamerkingum sem Hagstofa Íslands hefur upp tekið fer þessi flokkun fram. Með atvinnugreinamerkingunni er án efa skorið úr um til hvaða atvinnugreinar viðkomandi starfsmaður heyrir og með atvinnustéttamerkingunni, sem samhliða hefur verið tekin upp, er einnig skorið endanlega úr um til hvaða atvinnustéttar viðkomandi einstaklingur heyrir. Þau mál eru því ekki lengur á reiki.

Með því að miða þessa viðmiðun, sem frv. leggur til, við atvinnugreinina fiskvinnslu, sem er færð í atvinnugreinamerkingu Hagstofunnar, og tiltaka þær stéttir sem skattfríðindanna eiga að njóta við starfsstéttamerkinguna 35, 34 og 33 eru tekin af öll tvímæli um hvaða aðilar það eru sem lagt er til að hljóti þá skattalegu meðferð sem frv. þetta gerir tillögu um.

Vitaskuld koma ýmsar aðrar útfærslur í skattamálum til greina svo sem eins og það sem við nefnum sérstaklega í grg., að veita fiskvinnslufólki sem skilar tilteknum lágmarksstarfstíma í greininni fastan skattafslátt í krónutölu, og erum við flm. að sjálfsögðu reiðubúnir að skoða allar slíkar ábendingar og ég vænti þess að sú nefnd sem fær þetta frv. til meðferðar fjalli sérstaklega um slíkar hugmyndir sem fram kunna að koma. Ástæðan fyrir því að við völdum þá leið að heimila 10% frádrátt af beinum tekjum fyrir skattlagningu var einfaldlega sú að fyrir því er fordæmi, það fordæmi sem ég nefndi hér áðan varðandi fiskimenn, og það er komin nokkur reynsla á að framkvæma slíka skattameðferð.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að rekja þetta lengra að öðru leyti en því að ég ítreka að hér er aðeins rætt um einn þátt í þeirri lausn sem verður að nást á vandamálum þessa fólks, þátt til vitnis um það að hið opinbera, þ.e. löggjafinn, vilji leggja eitthvað af mörkum frá sinni hendi til að hefja fiskvinnsluna aftur upp á það stig að það sé líklegt að kaup og kjör þar laði fólk til starfa þannig að það þurfi ekki að vera frambúðarástand að við verðum að flytja hráefni okkar út mikils til óunnið af þeim sökum að við sköpum ekki atvinnugreininni þau starfsskilyrði að hún geti boðið fólki upp á viðunandi lífskjör og viðunandi launakjör.

Ég legg svo til, herra forseti, að að þessari umræðu lokinni verði frv. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.