08.04.1986
Sameinað þing: 69. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3520 í B-deild Alþingistíðinda. (3166)

373. mál, sjúkraflutningar

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég tek undir það viðhorf, sem hér hefur komið fram, að að sjálfsögðu þurfum við að hafa þá hagkvæmni í rekstri hjá okkur sem kostur er og reyna að koma á samstarfi á milli aðila þar sem um slíkt getur verið að ræða þó að hver greiði sinn hlut af kostnaðinum en báðir njóti jafnframt ávinningsins.

Ég vil endurtaka það, sem ég sagði, að mér er ekki kunnugt um af hverju ekki varð samkomulag um þau atriði sem ég las upp áðan að voru boðin með bréfi 1983 og af hverju hitt bréfið kom sem sýnir að það hafi ekki tekist samningar á þeim grundvelli.

Hv. 3. þm. Vestf. veit náttúrlega að ekki er hægt að bera saman Vestmannaeyjar og alla Ísafjarðarsýslu því að þarna er um að ræða sjúkraakstur á öllu svæðinu, í Ísafjarðarsýslum báðum. Þar eru nokkuð ólíkar aðstæður og álitamál hvort lögreglan á að annast þessa þjónustu. Í héraði eins og Ísafjarðarsýslum, þar sem er um marga þéttbýlisstaði að ræða, er löggæsla með fámennu lögregluliði ákaflega erfið og kannske einna erfiðust af öllum stöðum á landinu af þeim sökum. Það hlýtur að hafa áhrif á það hversu langt er hægt að ganga á þessu sviði.