08.04.1986
Sameinað þing: 69. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3520 í B-deild Alþingistíðinda. (3168)

391. mál, eftirlaun til aldraðra

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 716 hef ég leyft mér að bera fram svohljóðandi fsp. til hæstv. heilbr.- og trmrh.:

„Hyggst ráðherra beita sér fyrir breytingum á lögum um eftirlaun til aldraðra þannig að lífeyrisþegar, fæddir eftir 1914, njóti viðbótar frá umsjónarnefnd eftirlauna ef réttur þeirra er mjög skertur hjá eigin lífeyrissjóði?" Eins og alkunna er voru lögin um eftirlaun til aldraðra upphaflega sett til þess að þeir aðilar sem nutu skertra eða lítilla greiðslna frá eigin lífeyrissjóði fengju nokkra leiðréttingu sinna mála. Þessi lög gilda nú eftir breytingar allt til ársins 1989. Eitt skilyrði þess að njóta uppbótar samkvæmt þessu er að fólk þarf að vera fætt 1914 eða fyrr.

Þetta þótti eðlilegt á sínum tíma þar sem hinir almennu lífeyrissjóðir tóku til starfa um og upp úr 1970 og því reiknað með að síðar fæddir félagar lífeyrissjóðanna mundu geta öðlast þar full réttindi og þyrftu ekki uppbótar með. Nú kemur það hins vegar í ljós að umsjónarnefnd eftirlauna, sem annast þessi mál, fær umsóknir býsna margs fólks sem nú er orðið sjötugt en hefur ekki eðlilegan lífeyrissjóðsrétt af einhverjum ástæðum. Aðalástæða þess mun reyndar sú, eftir þeim upplýsingum sem ég hef, að fyrstu ár lífeyrissjóðanna gekk á ýmsu um greiðslur í þá og virkni sjóðanna í raun. Atvinnurekendur eiga þar margir vangreiddan hlut og allt of margir launþegar reyndar einnig uggðu ekki nægilega að sér varðandi þessar lífeyrissjóðsgreiðslur þegar lífeyrissjóðirnir voru að komast á legg.

En aðalatriðið núna finnst mér sú mismunun sem þarna verður milli árganga, þ.e. það fólk sem náði sjötugsaldri 1984 fær eðlilega uppbót ef það er með skert réttindi hjá sínum lífeyrissjóði, en fólk sem sjötugt varð í fyrra og verður sjötugt á þessu ári, svo að dæmi sé tekið, nýtur ekki þessarar uppbótar sakir þessa lagaákvæðis um fæðingarárið 1914. Hér er, að mér þykir, um óviðunandi mismunun að ræða sem verður að mæta með einhverjum hætti og því er þessari fsp. beint til hæstv. ráðh.