08.04.1986
Sameinað þing: 69. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3522 í B-deild Alþingistíðinda. (3170)

391. mál, eftirlaun til aldraðra

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svörin. Mér koma þau í raun og veru ekki á óvart. Ég veit að þegar þessum lögum var síðast breytt var ekki svo mjög hugað að þessum málum í raun og veru og ég hygg að við höfum ekki staldrað mjög lengi t.d. við fæðingarárið þá sem var auðvitað miklu eldra í lögunum, árið 1914.

Ég held mig við það að útilokað sé fyrir löggjafann að láta mismunun af þessu tagi viðgangast vegna þess að það er staðreynd að lífeyrissjóðirnir hafa ekki tekið þetta á sig og munu ekki taka þetta á sig, treysta sér ekki til þess enn þá að taka þann mismun á sig sem þarna verður. Fólk sem er með skertan rétt til lífeyris frá sínum lífeyrissjóði fer fyrst í sinn lífeyrissjóð og fær neitun um viðbót, síðan fer það í umsjónarnefnd eftirlauna og þar fær það neitun, einnig á lagalegum forsendum.

Ég er ekki að segja að það sé ekki sjálfsagt að leita eftir því við lífeyrissjóðina að þeir taki þetta á sig og bæti fólki þetta upp. Hitt þykir mér hins vegar óviðunandi að þetta fyrirkomulag haldi áfram. Ég veit mörg dæmi þess, það eru sanngirnismál af þessu tagi, sem eðlilegar ástæður eru fyrir, að þessu fæðingarári einu munar um verulegar upphæðir til fólks. Ég hef dæmi um að þetta fólk munar um kannske 3-4000 kr. sem það fær til viðbótar á mánuði frá umsjónarnefnd eftirlauna. Það munar verulega um það því að það sem það fær frá sínum lífeyrissjóði getur í heild numið niður í 1000 kr. á mánuði eins og ég þekki dæmi um.

Ég tel því einsætt, ef hæstv. ráðh. ætlar ekki að beita sér fyrir lagabreytingu af þessu tagi og framlengja þetta til loka gildistíma laganna, þ.e. að fæðingarárið verði 1917, 1918, 1919 eða eitthvað í þá áttina, að leitað verði eftir því fastlega við lífeyrissjóðina að þeir taki þessar byrðar á sig. Ég veit að það hefur alltaf verið spurning um hverjir ættu að taka þessa viðbót á sig. Atvinnuleysistryggingasjóður hefur gert þetta. Lífeyrissjóðirnir hafa gert þetta að hluta. Mér þykir að í þessu tilfelli væri ekkert óeðlilegt að ríkissjóður kæmi hér til, samfélagið allt kæmi hér til í þessum tilfellum. Það er eðlileg afstaða að mínu viti því að hliðstæðar uppbótargreiðslur eru til annarra í fjárlögum og ekkert óeðlilegt við það þó að þessum einstaklingum, sem eru ekkert margir en eru tilfinnanleg dæmi um, væri bætt þetta upp með einhverjum slíkum hætti.