08.04.1986
Sameinað þing: 70. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3528 í B-deild Alþingistíðinda. (3178)

Um þingsköp

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Já, menn geta látið sér koma eitt og annað á óvart. Ég held að það hefði einhvern tíma þótt forvitnilegt að vita um hug utanrrh. landsins þegar hann er að halda til fundar við starfsbræður sína erlendis um mikilsverðustu mál og inna hann eftir því hver yrði afstaða hans til meirihlutasamþykktar danska þjóðþingsins sem felur í sér tillögugerð á þeim vettvangi sem ráðherrann er að fara á. Oft hefur verið spurt af minna tilefni. Það lá hins vegar fyrir að hæstv. ráðherra hafði ekki hug á að taka þátt í þeirri umræðu. Hann hafði lýst því yfir við mig og ég get að sjálfsögðu ekki knúið ráðherrann til svara ef honum er mót vilja að eiga orðastað við Alþingi um þetta efni áður en hann heldur til fundar.

Hér er verið að fjalla um samhengið á milli þingskapa og þess tilefnis sem lá að baki óskarinnar um umræðu utan dagskrár. Og það er óhjákvæmilegt við þessar aðstæður að tengja þetta tvennt saman eins og hæstv. forseti hefur eðlilega gert í þeim svörum sem hann veitti Sþ. til skýringar á afstöðu sinni. Ég tel þær skýringar sem hæstv. forseti vor reiddi hér fram ekki fullnægjandi. Þess vegna hef ég mótmælt úrskurði hans. Síðan getur menn auðvitað greint á um það hversu brýnt tilefnið var til beiðninnar og hvort umræðan mátti bíða. Um það geta menn haft skiptar skoðanir út frá því hvernig þeir líta á viðkomandi mál og ég ætla ekki, herra forseti, að fara að ræða það neitt frekar.

Ég hef hins vegar áhyggjur af þeirri stefnu sem túlkun á hinum nýju þingsköpum virðist vera að taka af hálfu hæstv. forseta. Það var það sem knúði mig til þess að óska eftir að fá að ræða um þingsköp. Ég held að það varði nefnilega Alþingi býsna miklu hvaða hefðir skapast í sambandi við þau þingsköp sem við erum að feta okkur fram til að starfa eftir og reyna að ná samstöðu um því að auðvitað þarf þingið að reyna að vernda þingsköpin og ná um þau sem bestri samvinnu hverju sinni, að halda þau.

Mér er ómögulegt að sjá að það tilefni sem lá að baki beiðni minni hafi ekki verið fullgilt í samræmi við 32. gr. þingskapa. Hér var dreginn inn í umræðuna fundur utanrmn. í gær. Undir lok þess fundar, get ég upplýst, óskaði ég eftir að fá vitneskju um það frá utanrrh. hvort honum væri kunnugt um samþykkt danska þjóðþingsins. Hæstv. utanrrh. situr ekkert á upplýsingum það er ég þekki til hans. Hann reiddi þá samþykkt fram, hafði hana í pússi sínu, en málið kom til kasta utanrmn. vegna þess að ég óskaði eftir að fá upplýsingar um þetta tiltekna mál. Síðan lá tillaga þessi fyrir á dönsku og ég vildi fá að skoða hana frekar áður en ég færi að gera tillögur á þessum vettvangi um afstöðu utanrrh. Það er fyrst eftir að ég hafði athugað tillöguna, eftir að fundi lauk, að ég bar fram ósk við ráðherra um það að hann svaraði til um hvað hann hygðist fyrir, því að mér var ljóst eftir að hafa lesið tillöguna, miðað við þá þekkingu sem ég hef á danskri tungu, að þarna væri um mjög mikilsverða stefnumörkun að ræða.

Ég er ekki með þessum orðum, virðulegi forseti, að segja að hér hafi hent mikil ólukka vegna úrskurðar virðulegs forseta. Ég vil ekki ýkja málið umfram efni vegna þess að ég vænti, eins og hv. 2. þm. Norðurl. v., að málið hljóti ekki fullnaðarafgreiðslu á vettvangi utanríkisráðherra Norðurlanda á morgun. Þó vitum við ekki um það. Fyrir fram er auðvitað aldrei hægt að fullyrða um hvaða niðurstaða verður á fundi sem slíkum þó að mér sé ljóst að hæstv. utanrrh. ætlast ekki til af sinni hálfu að málið fái lyktir á þeim vettvangi. Það hefur hann tjáð okkur á vettvangi utanrmn. og hefur það einnig komið fram í máli hans í dag.

Þetta vildi ég, virðulegi forseti, að fyrir lægi. Eftir stendur ólikt mat mitt og virðulegs forseta á tilefni þess að leyfa hér umræðu utan dagskrár um þetta mál og ég fæ ekki hnekkt þeim úrskurði og ætla mér það ekki. Ég er aðeins að nýta rétt minn til þess að koma ábendingum á framfæri og finna að því sem mér finnst að ekki sé kórréttur úrskurður hjá forseta sem ég að öðru leyti hef reynt að sanngirni einni saman.