08.04.1986
Sameinað þing: 70. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3533 í B-deild Alþingistíðinda. (3183)

Um þingsköp

Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Hv. 3. þm. Reykv. talar um að það sé ástæða að athuga um framkvæmd þingskapa. Efst í huga forseta nú er að athuga framkvæmd á umræðum um þingsköp. Það er greinilegt að þær umræður, sem hér hafa farið fram í dag, hafa farið út fyrir eðlileg mörk um umræður um þingsköp vegna þess, sem forseti hefur áður tekið fram í upphafi þessarar umræðu, að það er ekki ætlast til þess að þá séu efnislegar umræður. Ef það er svo að forseti hafnar óskum um utandagskrárumræður um tiltekið efni, en svo eru umræður engu að síður um það sama efni sem umræða um þingsköp, þá sjá allir að það er verið að fara í kringum ákvæði þingskapa.

Það skal tekið fram að forseti mun ræða þessa framkvæmd við formenn þingflokka. Og ég veit að formenn allra þingflokka og allir hv. þm. hljóta að vilja stuðla að því að sem eðlilegust framkvæmd sé á þeim þætti þingskapa sem varðar umræður um þingsköp sem að sjálfsögðu eru mjög þýðingarmiklar og þýðingarmikið að þær geti átt sér stað.

Hv. 3. þm. Reykv. vék að því að það væri fróðlegt að sjá tilefni til utandagskrárumræðna á undanförnum árum. Ég tek undir það. Er ekkert á móti því. En þær upplýsingar sem út úr því koma kveða ekki á um það hvort forsetaúrskurður hefur verið réttur í því tilfelli, sem er tilefni að þessum umræðum, eða ekki.