08.04.1986
Sameinað þing: 70. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3534 í B-deild Alþingistíðinda. (3185)

Um þingsköp

Páll Pétursson:

Herra forseti. Vegna orða sem féllu hér fyrr í umræðunum hjá hv. þm. Guðrúnu Agnarsdóttur, 3. landsk. þm., og 3. þm. Reykv. Svavari Gestssyni vil ég taka fram að ég vil ekki væna utanrrh. um að hann standi ekki við samþykkt Alþingis. Ég held það þurfi alls ekki að krefja hann um svör eða játningar í því efni. Að sjálfsögðu stendur utanrrh. við samþykkt Alþingis, hefur áreiðanlega aldrei dottið annað í hug og kæmist heldur ekki upp með það, jafnvel þó svo honum dytti það í hug sem náttúrlega verður aldrei. Það er ábyggilegt að hann kemur ekki til með að hrófla við þeirri samþykkt.

Ég er nokkuð á svipaðri skoðun og formaður utanrmn. og 3. þm. Reykv. að því leyti til að ég er ekki viss um að rétt sé að taka þetta mál úr höndum stjórnmálamanna eða færa það yfir í hendur embættismanna nema þá að því leyti sem við þurfum á sérfræðiþekkingu að halda frá embættismönnum. Ég held að þetta mál sé þess eðlis að það beri að leiða það pólitískt og ég er feiminn við að sleppa því um of í hendur embættismanna. Ég tel því að það sé mikið umhugsunarefni áður en menn taka það skref.

Það liggur alveg ljóst fyrir að það verður ekki tekin endanleg ákvörðun um þetta mál í Stokkhólmi og ef að því ræki vona ég að hæstv. utanrrh. Íslands biðji um frestun á málinu samkvæmt því sem orð féllu í utanrmn. í gær.

Að endingu þetta: Þetta hefur verið fróðleg umræða nokkuð um utanríkismál og þingsköp, hefur spunnist fullt eins mikið um utanríkismál og þingsköp. Ég held að umræður um utanríkismál séu mjög mikilvægar og við mættum gjarnan ræða utanríkismál ítarlegar en við gerum. Þó er utanríkismálaumræða að færast á skynsamlegra og betra plan en hún var á þegar ég kynntist henni fyrst í sölum Alþingis. Við eigum eftir mjög mikilvægar utanríkismálaumræður, ekki eina heldur væntanlega fleiri, hér á þinginu og við getum geymt nestið þangað til og þurfum ekki að eyða því í þingskapaumræðu. Það er eftir að ræða skýrslu utanrrh. sem mér hefur því miður ekki gefist tími til að lesa en ég veit að verður verulegt umræðuefni. Í utanrmn. liggja enn fremur till. fyrir um ýmis utanríkismál, þar á meðal ein, sem ég er 1. flutningsmaður að, um samnorræna afstöðu til frystingar kjarnorkuvopna. Þessi till. hlýtur að koma frá utanrmn. og þá gefst tækifæri til ítarlegrar umræðu og skoðanaskipta um afvopnunarmál. Og ég vona nú að þessari þingskapaumræðu geti farið að ljúka.