08.04.1986
Sameinað þing: 70. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3535 í B-deild Alþingistíðinda. (3187)

Um þingsköp

Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Hv. 3. þm. Reykv. vék að því sem forseti sagði um athugun á framkvæmd umræðu um þingsköp. Til þess að leiðrétta misskilning ef kynni að vera: Forseti hefur ekki gert ráð fyrir því að það væri hægt að setja ákvæði í þingsköp um þetta atriði. Þarna er um framkvæmdaratriði að ræða og það er það sem er ástæða til að ræða við formenn þingflokka.

Hv. þm. virtist gera því skóna að það skorti á samráð við stjórnarandstöðuna um stjórn þingsins og kannske lá það í orðunum að það væri frekar nú en áður. Það skal tekið fram að það hefur verið leitast við af hálfu forseta að hafa reglubundna fundi með formönnum þingflokka þar sem formenn allra þingflokka eru og hafa reglubundna fundi þar sem varaforsetar eru þannig að hafa sem best samráð við stjórnarandstöðuna.

Í huga forseta er við framkvæmd þinghaldsins engin spurning um stjórn og stjórnarandstöðu. Það eru allir jafnir. Og með því að þessi athugasemd kemur fram í umræðum vegna neitunar á umræðum utan dagskrár skal það tekið fram að fram hafa farið á þessu þingi 18 umræður utan dagskrár. Það hafa farið fram tólf skv. 1. málsgr. 32. gr. og það hafa farið fram sex skv. 2. málsgr. 32. gr. Það hefur ekki hallað á stjórnarandstöðuna í þessu efni. Af tólf umræðum sem hafa farið fram skv. 32. gr. 1. málsgr. hafa sjö verið að frumkvæði flokks hv. 3. þm. Reykv. og af sex sem hafa farið fram skv. 2. málsgr. 32. gr. hafa fjórar farið fram að frumkvæði þm. flokks hv. 3. þm. Reykv. Þetta er ekki sagt í þeirri meiningu að þetta sé eitthvað óeðlilegt. Það hefur verið fullkomin ástæða fyrir að leyfa þessar umræður. En ég vænti þess að við framkvæmd þessara mála sé forseti ekki vændur um það að líta á málin eftir því hvort stjórnarandstöðuþingmenn eiga í hlut eða stjórnarþingmenn.