04.11.1985
Neðri deild: 12. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í B-deild Alþingistíðinda. (319)

28. mál, skattafrádráttur fyrir fiskvinnslufólk

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Það er mikið að í okkar þjóðfélagi að við skulum ekki telja okkur geta greitt starfsfólki í undirstöðuatvinnuvegi okkar sómasamleg laun, enda þótt sæmandi sé talið að kreista út úr þessu fólki vinnuframlag langt fram yfir það sem eðlilegt og æskilegt getur talist, jafnvel gera það heilsulaust fyrir aldur fram.

Ég tók þátt í umræðum á síðasta þingi um sams konar frv. og hér er á dagskrá og lýsti andstöðu Kvennalistans við það á þeim forsendum að fullkomlega óeðlilegt sé að leysa vanda atvinnurekenda og starfsfólks þeirra á þennan hátt að svo miklu leyti sem hægt er að tala um að hér sé um einhverja lausn á vanda þeirra að ræða. Ég efast ekkert um góðan vilja hv. flm., en aðgerð sem þessi er alröng að mínu mati.

Mér fannst hv. 7. þm. Reykv. vilja halda því fram að vegna klaufalegra skattalaga sem m.a. gerðu bændur nánast tekjuskattslausa væri aðgerð sem þessi réttlætanleg. Sem sagt, ein vitleysan réttlætti aðra að hans dómi. Ég er ekki sama sinnis. Skattalögin eru gloppótt og mættu sannarlega vera einfaldari. Það er allt annað mál.

Sú leið sem hér er lögð til er röng að mínum dómi og er auk þess svo léttvæg að það hvarflar að manni að hér sé um sýndarmennsku að ræða þótt ég vilji ekki bera það upp á hv. flm.

Ég hef við mörg tækifæri varað við því að lengra sé haldið á þeirri braut að greiða niður laun fyrir atvinnurekendur og ég vil ítreka það hér. Ástæða þess að menn sjá tilefni til að koma fram með svona till. er vitanlega að mönnum rennur til rifja hvílíkum kjörum þessu fólki er gert að sæta. Það þarf ekki hástemmdar ræður, a.m.k. ekki í mín eyru, um það. Þetta er mikilvægasti atvinnuvegur þjóðarinnar og háborin skömm hvernig búið er að þeim sem við hann starfa. Ég vona að við gerum okkur öll grein fyrir því.

En ekki er aðeins um að ræða vanda fiskvinnslufólks. Við erum í raun og veru að tala um vanda sjávarútvegsins í heild. Það er sá vandi sem leysa verður. Við höfum ekkert með töfrabrögð af þessu tagi að gera sem skilar fiskvinnslufólki engu sem gagn er að.

Menn tala um að fólk fáist ekki í fiskvinnslu vegna lélegra kjara og satt er það. Það er mikið áhyggjuefni. Það hefur líka komið í ljós að fiskverkendur hafa orðið að bjóða ýmislegt til þess að fá nægilegt vinnuafl. Hv. 7. þm. Reykv. minnti á að fiskverkendur gætu ekki velt slíkum kostnaðarauka yfir á framleiðsluvöruna, en þeir hafa samt talið borga sig að greiða ferðakostnað fyrir erlent vinnuafl. Greiddur kostnaður vegna barnagæslu þekkist og fleira í þeim dúr. Sú þróun heldur áfram, hygg ég, og ætli hún skili ekki þessu fólki meiru heldur en frv. sem hér er til umræðu.

Ég vil að lokum beina spurningu til hv. flm. um það hvort þeir hafi einhverjar tölulegar upplýsingar um hvað þetta frv. mundi þýða í framkvæmd fyrir alla aðila. Hv. 10. landsk. þm. nefndi athyglisverðar tölur áðan, en hafi t.d. hv. 1. flm. nefnt einhverjar slíkar tölur í sinni framsöguræðu fór það alla vega fram hjá mér.