09.04.1986
Efri deild: 71. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3540 í B-deild Alþingistíðinda. (3201)

272. mál, ríkisendurskoðun

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs nú til að fá tækifæri til að lýsa afstöðu minni til þessa máls, en ég hef ekki tekið til máls um það fyrr. Því þykir mér ástæða til þess að lýsa afstöðu minni til málsins að mál þetta varðar sérstaklega Alþingi.

Ég vil strax taka fram að ég lýsi fullum stuðningi við þetta frv. sem felur í sér breytingu á ríkisendurskoðun. Ríkisendurskoðun er hagað með nokkuð mismunandi hætti í hinum einstöku löndum. En það má greina í aðalatriðum í þrjá flokka það fyrirkomulag sem venjulega er. Í fyrsta lagi er ríkisendurskoðun undir stjórn framkvæmdavaldsins. Í öðru lagi er ríkisendurskoðun stofnun þjóðþingsins óháð framkvæmdavaldinu. Og í þriðja lagi er ríkisendurskoðunin sem nokkurs konar dómstóll, óháð bæði þingi og framkvæmdavaldi.

Leið sú sem farin er með þessu frv, er að setja ríkisendurskoðunina undir Alþingi og gera hana óháða framkvæmdavaldinu, sem hún hefur heyrt undir fram til þessa. Þessi leið, sem farin er skv. þessu frv., er í fyllsta samræmi við þróun þessara mála í öðrum löndum og m.a. þeim sem eru okkur næst stjórnarfarslega. Nægir í því efni að benda á löggjöf í Bretlandi frá 1983, sem gengur í þessa átt, svo og löggjöf í Kanada frá 1977 og löggjöf í Danmörku frá 1975.

Það verður að telja að það sé mjög vel ráðið að þetta frv. hefur verið lagt fyrir þetta þing. Það er ánægjulegt til þess að vita að það er fullkomin samstaða um frv. Ég ítreka, sem ég áður hef sagt, fyllsta stuðning við þetta frv.