09.04.1986
Efri deild: 71. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3544 í B-deild Alþingistíðinda. (3212)

232. mál, talnagetraunir

Frsm. minni hl. (Eiður Guðnason):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir áliti minni hl. allshn. um frv. til l. um talnagetraunir. Þetta álit minni hl. er að finna á þskj. 757 og minni hl. leggur til að þessu máli verði vísað til ríkisstj. En ég tel óhjákvæmilegt að hafa um þetta mál nokkur orð núna við 2. umr. þess.

Hér er nefnilega, virðulegi forseti, um afar sérkennilegt mál að ræða. Fyrst er þar til að taka að í lögum um getraunir frá 1972 eða 1973 eru ákvæði um að íþróttahreyfingin hafi einkaleyfi á talnagetraunum eða bókstafagetraunum, en íþróttahreyfingin hefur aldrei sýnt minnsta lit á að notfæra sér þessa heimild sem er í lögunum. Það er þess vegna hreint ekki sjálfgefið, þó að þessi heimild hafi verið í lögum hátt á annan áratug, að þetta standi allt saman óhaggað og óbreytt. Þegar aðili sem hefur fengið einkaleyfi skv. lögum hirðir ekki um að notfæra sér það er auðvitað mjög eðlilegt að þeirri löggjöf sé breytt og sá aðili eigi ekkert meira tilkall til þess einkaréttar í rauninni en aðrir.

Þetta mál á sér mjög sérstæða sögu sem kannske þarf ekki að rekja mjög ítarlega fyrir hv. þm. Svo háttaði nefnilega til í fyrra að þá kom fram frv. um þetta mál í þá veru að Öryrkjabandalag Íslands eitt skyldi fá leyfi til að reka talnagetraunir með því fyrirkomulagi sem gert er hér ráð fyrir. Þetta gerðist þegar mjög var orðið áliðið þings og skammur tími eftir. Þá þróuðust mál þannig að einn hv. þm. utan þingflokka, Ellert B. Schram, tók upp málþóf í Nd. til að stöðva þetta mál því að hann, sem jafnframt gegnir trúnaðarstöðu á vegum íþróttahreyfingarinnar, taldi hlut íþróttahreyfingarinnar hér mjög vera fyrir borð borinn. Því var þessum aðferðum beitt til að stöðva málið eins og alkunna er og þm. þekkja.

Þegar við vorum að ræða þetta mál í allshn. þessarar deildar barst vitneskja um að í þingflokksherbergi Alþb. hefði að næturlagi undir þinglok verið gert einhvers konar samkomulag í þessu máli er varðar talnagetraunir. Ég verð að segja, og það geta væntanlega fleiri svipað sagt, að ég er ekki bundinn af slíku samkomulagi sem einhverjir aðilar gera í reykfylltum bakherbergjum að næturlagi. Það eru ekki þau vinnubrögð sem hér á að viðhafa. Ég er allsendis óbundinn af þessu samkomulagi og gef raunar ekkert fyrir það. Þetta kom ýmsum á óvart í störfum nefndarinnar sem vissi ekkert um að þetta samkomulag hefði verið gert. Auðvitað bindur slíkt samkomulag, sem gert er að næturþeli í þingflokksherbergi Alþb., engan sem ekki var þar viðstaddur og ekki gerist aðili að því og raunar getur það ekkert bundið Alþingi. Þm. hljóta að greiða atkvæði eins og samviska þeirra býður.

Það kom líka, virðulegi forseti, þannig að það liggi fyrir í upphafi þessa máls, ljóst og skýrt fram í allshn. að þeir hv. þm. sem mæla með samþykkt frv. eru ekkert ánægðir með þetta mál. Það kom afar skýrt fram, en það kom jafnframt fram að þeir teldu sig verða að gera þetta og það væri ekki stætt á því að stöðva þetta mál. Hv. frsm. meiri hl., 4. þm. Austurl., tók svo til orða að þetta væri svo gott mál að það mætti ekki stöðva og yrði að sjá til þess að íþróttahreyfingin og þau samtök öryrkja sem hér er um að ræða, Öryrkjabandalagið, fengju þessa fjármuni sem fyrst. Ég get alveg tekið undir að þetta er mjög gott mál, en ég vil líka að það komi skýrt fram að þetta mál hefur hvergi nærri hlotið þá athugun sem vert er og sem nauðsynlegt er.

Við sem skipum minni hl., hv. 8. þm. Reykv. Stefán Benediktsson auk mín, erum þeirrar skoðunar að þetta mál þurfi að kanna langtum betur, aðdraganda þess og efni málsins. Í rauninni má segja að það sé eðlilegast, eins og gert hefur verið í fjölmörgum löndum, að það sé ríkið sjálft eða hið opinbera sem stofni fyrirtæki til að reka svona happdrættisleik og ágóðanum sé svo varið til ýmissa líknarmála, það sé ekki bundið til ársins 2005 eins og á að gera skv. þessu frv. að verja þessu alfarið til íþróttahreyfingarinnar, til húsbygginga á vegum Öryrkjabandalagsins og til reksturs sjálfs Öryrkjabandalagsins - og taki menn eftir því sérstaklega. Þessi háttur er víða hafður á. Þá er það ekki ákveðið til ára eða áratuga, eins og hér er gert til ársins 2005, hvernig á að verja þessum hagnaði sem enginn veit á þessari stundu hver verður eða hversu mikill.

Við teljum verulegar líkur á því hjá þeirri happdrættisglöðu þjóð sem Íslendingar eru að svona happdrætti muni ná mjög miklum vinsældum og þá um leið raska verulega fjárhagsgrundvelli þeirra happdrætta sem þegar eru rekin, eins og t.d. Happdrættis Háskóla Íslands, Happdrættis Dvalarheimilis aldraðra sjómanna og Sambands ísl. berklasjúklinga, þessara þriggja stóru, sem eru raunar mjög misstór. Fari svo að þessi fjárhagsgrundvöllur raskist mjög verulega kann það auðvitað að leiða til margvíslegra viðbótarskuldbindinga sem falla munu á ríkið, t.d. í sambandi við byggingar á vegum Háskóla Íslands sem Happdrætti Háskóla Íslands fjármagnar nú. Það er margt sem bendir til þess að áhugi yngra fólks á Happdrætti háskólans og þessum föstu happdrættum sé ekki eins mikill og margra þeirra sem eldri eru þannig að þegar hinir eldri, sem hafa átt miða þarna, heltast úr lestinni sé eins víst að margir miðanna verði óseldir, en happdrætti eins og þessar talnagetraunir, sem erlendis ganga víða undir nafninu „lottó“, muni njóta vaxandi vinsælda. Þetta er miklu auðveldara. Þetta verður selt alls staðar, í söluturnum væntanlega út um allar trissur, hægt að kaupa þetta hvarvetna og margir möguleikar. Þetta verður sjálfsagt ódýrara en hlutamiðar í þessum stóru happdrættum eða a.m.k. hæ t að fá ódýrari möguleika.

Ég er sannfærður um að með því að veita einkaleyfi fram til ársins 2005 sé verið á alröngum brautum vegna þess að ég held að menn viti í rauninni ekki hverju er verið að hleypa af stað hér. Ég held að hérna sé verið að hleypa af stað einhverri mestu peningamaskínu, ef ég má nota það orð, sem sett hefur verið í gang hérna. Ég er sannfærður um að hagnaðurinn af þessu og veltan verður alveg gífurleg. Það hefur komið í ljós t.d. í Svíþjóð og í Kanada og víðar þar sem svona happdrætti er. Eins og ég vék að áðan er íslenska þjóðin afar elsk að happdrættum, að ég segi ekki fjárhættuspilum. Ég er alveg viss um að það mun verða gífurleg velta þarna. Um þetta veit enginn, en samt ætla þm. alveg hikstalaust að ákveða þetta til ársins 2005. Kannske verða fæst okkar, sem erum að taka þessa ákvörðun nú, a.m.k. mörg okkar, ekki lengur ofar moldu. Við erum að taka ákvarðanir ansi langt fram í tímann. Mér finnst þetta satt best að segja alveg fráleitt.

Þá hefur verið látið í það skína að hér sé um að ræða mál sem sé hið besta samkomulag um í hvívetna. En svo er alls ekki. (Gripið fram í: Ég heyri það.) Vill nú ekki hv. þm. Nd. tala í sinni deild og láta það duga. Það þykir ýmsum það a.m.k. alveg nóg. - Það hefur veríð látið í það skína að um þetta sé algjört samkomulag en það er bara ekki. Á fund allshn. komu fulltrúar Þroskahjálpar sem eru allfjölmenn samtök og í þeim eru m.a. foreldrar og aðstandendur þeirra sem eru vanheilir og þroskaheftir. Það kom fram að af hálfu Þroskahjálpar hafði verið óskað eftir því við Öryrkjabandalag Íslands að fá að fylgjast með þessu máli og framgangi þess en þeirri ósk ekki verið sinnt. Það finnst mér vera mikið umhugsunarefni ef ágreiningur er um þessi mál með þeim samtökum sem eru að vinna að hagsmunamálum þeirra sem á einhvern hátt eru fatlaðir og þeirra sem minna mega sín. Við teljum þess vegna óeðlilegt að ákveðnum félagasamtökum, þ.e. Íþróttasambandinu, Ungmennafélagi Íslands og Öryrkja. bandalaginu, sé veitt svona einkaleyfi til að starfrækja happdrætti í svo langan tíma þar sem ríkisvaldið er með þessu í rauninni að taka ein samtök öryrkja fram yfir önnur og gera upp á milli þessara samtaka með þeim hætti sem þetta frv. gerir varðandi fjáröflunarleiðir. Þetta teljum við óeðlilegt.

Vissulega eru Íþróttasamband Íslands, Ungmennafélag Íslands og Öryrkjabandalagið félagasamtök sem eru alls góðs makleg. Málið snýst ekkert um það. Það eru ótal, ótal önnur samtök hér á landi sem einnig vinna að heilbrigðis-, líknar- og mannúðarmálum sem eru alveg jafnmakleg og þessi samtök.

Við viljum t.d. minna sérstaklega á það ástand sem ríkir í málefnum aldraðra einkanlega hér í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu. Á annað þúsund aldraðir eru á biðlista hjá Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar og bíða þar eftir húsnæði, hjúkrun eða einhvers konar umönnun sem öldruðum er nauðsynleg. Þar af eru um 700 manns á svokölluðum forgangslista og menn geta ímyndað sér hversu mikill forgangur er fólginn í því að vera einn á þessum 700 manna lista hjá Félagsmálastofnuninni þar sem losna kannske eitt eða tvö pláss á mánuði en það bætist að jafnaði við ein ný umsókn á hverjum einasta degi. Þessar upplýsingar hef ég frá starfsfólki Félagsmálastofnunar og þeirra var aflað í gær.

Að okkar mati hefði verið kjörin leið að nýta þessa aðferð til að afla fjár til að gera nú stórátak í þessum málefnum aldraðra sem eru sannarlega smánarblettur á þjóðfélagi okkar. Ég veit að hv. þm. þurfa ekki annað en líta í eigin barm. Þeir vita hvernig ástandið er. Ég held að hver einasta fjölskylda á þessu svæði þekki þessi vandamál í sambandi við aldraða af eigin raun. Ég held að þessi vandamál séu í námunda við og næstum því í hverri einustu fjölskyldu. Á þessu sviði er brýnt að bæta úr vegna þess að það er ekkert of sterkt til orða tekið að segja að í málefnum aldraðra ríki neyðarástand og það neyðarástand megum við sem yngri erum skammast okkar fyrir. Hinir öldruðu og sjúku eiga ekki marga talsmenn hér. Íþróttaæskan á marga og öfluga talsmenn. Ég verð að segja það að ef ég á að deila minni samúð og mínu atkvæði greiði ég atkvæði með hinum öldruðu í þessu tilviki vegna þess að hinir eru miklu betur í stakk búnir til þess að afla sér fjár og berjast sjálfir.

Ég skora á hv. þm. í þessari deild að íhuga þetta mál mjög alvarlega, hvort við séum hér að gera rétt með því að veita þessum ágætu samtökum, sem eru eins og ég segi alls góðs makleg, Íþróttasambandinu, Ungmennafélaginu og Öryrkjabandalaginu, einkaleyfi til að reka þessa starfsemi allar götur fram til ársins 2005.

Þá má kannske benda á í þessu sambandi að enda þótt þetta séu kallaðar talnagetraunir er hér auðvitað um hreint happdrætti eða happdrættisleik að ræða. Það fer ekkert á milli mála. Í rauninni er hér um alveg hreint peningahappdrætti að ræða vegna þess að miðar eru keyptir fyrir peninga og vinningar eru greiddir út í peningum.

Nú er það svo í gildandi lögum að Háskóli Íslands hefur einkaleyfi til þess að reka peningahappdrætti og í samræmi við það greiðir Háskóli Íslands einkaleyfisgjald í ríkissjóð vegna þess að Háskólinn hefur einkaleyfi til að reka peningahappdrætti. Að vísu er það svo að það einkaleyfisgjald rennur til ákveðinna þarfa, þ.e. það rennur í byggingarsjóði rannsóknastofnana atvinnuveganna og allt gott um það. Verði þessi lög um talnagetraunir samþykkt er auðvitað forsendan fallin brott fyrir því að láta Háskóla Íslands greiða einkaleyfisgjald vegna þess að þá er ekki lengur um neitt einkaleyfi að ræða til þess að reka peningahappdrætti. Þessar talnagetraunir eru ekkert annað en hreint peningahappdrætti og forsenda einkalyfisgjalds Háskólans er þá brott fallin.

Það má enn fremur minna á að í lögunum um Happdrætti Háskóla Íslands, lögum um vöruhappdrætti fyrir Samband íslenskra berklasjúklinga, lögum um happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna og lögum um getraunir er alls staðar kveðið á um hlutfall og verðmæti vinninga. Á einhverju stigi máls munu slík ákvæði hafa verið inni í frv. til laga um talnagetraunir en á einhverju öðru stigi máls, síðara stigi, voru þessi ákvæði tekin út og í þessu frv. er engin ákvæði að finna um hlutfall og verðmæti vinninga heldur er ráðherra falið að ákveða fjárhæð eða hlutfall vinninga. Þetta held ég að sé tvímælalaust rangt. Ef á að samþykkja þetta, og það kemur væntanlega í ljós við atkvæðagreiðslu að lokinni 2. umr., er auðvitað nauðsynlegt að flytja brtt. við þetta mál þegar það kemur til 3. umr. En skynsamlegast væri á þessu stigi að vísa þessu máli til ríkisstj.

Og ég ítreka það, virðulegi forseti, sem ég sagði áðan, að ég held að hér sé um að ræða mjög öfluga fjáröflunarleið sem langtum fleiri ættu að njóta góðs af heldur en þessi fáu samtök sem hér eru upp talin. Þar að auki tel ég fráleitt að veita þessum samtökum einkaleyfi fram til ársins 2005, gjörsamlega fráleitt, og þar við bætist að ég held að það sé alveg nauðsynlegt og óhjákvæmilegt að athuga allt þetta mál miklu betur og vísa ég enn til þess að enda þótt meiri hl. nefndarinnar leggi til að málið verði samþykkt kom vissulega fram í nefndinni að langt var frá því að fulltrúar meiri hl. væru ánægðir með þetta mál, eins og það nú liggur fyrir, töldu sig hins vegar verða að samþykkja það vegna þess að það hefði verið gert eitthvert samkomulag. Ég lýsi því aftur og enn að ég er ekki bundinn af neinu slíku samkomulagi sem gert er í þingflokksherbergi Alþýðubandalagsins einhvern tíma að næturþeli. Það bindur mig ekki og ég greiði atkvæði í þessu máli eftir minni samvisku og sannfæringu og mín sannfæring segir mér að þetta frv., eins og það hér liggur fyrir, sé ekki skynsamlegt að samþykkja og ég legg því til að því verði vísað til ríkisstj. og málið verði tekið upp og athugað að nýju.